24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

233. mál, girðingalög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umr. í landbn., þá skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. En hv. form. n., sem hér var að ljúka sínu máli, taldi, að þetta bráðabirgðaákvæði væri þannig, að það mætti segja, að það væri óvenjulegt að samþykkja svona ákvæði og það hefði ekki skeð áður með svona hliðstætt ákvæði. Ég var því miður ekki staddur hér í d., þegar þetta kom til 2. umr., en ég ræddi þetta mál við lögfróða menn, og þeir töldu, að það væri alls ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja svona ákvæði og lagalega séð væri það allt í lagi. Nú kom hv. form. landbn. í sinni ræðu ekkert inn á þetta eða þau rök, sem hann notaði í n. til þess að koma því þar út. En ég held, að ef við samþykktum þetta svona, mundi það leysa vanda, sem er í ákveðnu héraði landsins.

Það hefur komið í ljós, að þessi lög voru samþ. á Alþ. fyrir nokkrum árum án þess, að það væri athugað til hlítar, hvaða afleiðingar sú breyting, sem þá varð, mundi hafa. Nú hefur Búnaðarþing mælt með því, að þetta yrði samþ., og landbn. taldi eðlilegt að breyta þessu aftur. Vegna þess að þetta slys kom fyrir með þessa breytingu fyrir nokkrum árum, þá finnst mér ekki nema eðlilegt, að til þess að leysa vanda, sem er þó ekki stórkostlegt fjárhagslegt atriði, verði þetta samþykkt, og þess vegna er þessi till. aftur fram borin hér.