24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

233. mál, girðingalög

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er nú aðeins í tilefni af því, að hv. 11. landsk. þm. fór að andmæla till., að ég stend upp aftur. Ég vil benda honum á það, að þetta er nú ekki Kolla afturgengin eða lifandi, heldur er þetta ný till., sem að vísu fjallar um sama svið að nokkru og það bráðabirgðaákvæði, sem hv. þm. talaði hér fyrir við 1. umr. og lagði hér fyrir d., en brtt. okkar hv. 5. þm. Norðurl. e. gerir ráð fyrir breytingu frá því, sem upphaflega var, enda gerði hv. 11. landsk. þm. sér það ljóst, að þarna var ekki um sömu till. að ræða. Hún fjallar að vísu um svipað efni, en þó á miklu þrengra sviði. Þess vegna er hér um nýja till. að ræða, og ég vil taka undir það, sem síðasti ræðumaður sagði hér, að hér yrði ekki um stórkostleg útgjöld fyrir ríkissjóð að ræða. Hins vegar mundi þetta verða til þess að leysa vandamál fátæks hreppsfélags norður í landi, ef þetta yrði samþykkt. Og upphaflega var þetta ákvæði til bráðabirgða sett inn af n., sem flutti þetta frv. einmitt til þess að reyna að mæta þessum kostnaði. Ég vil því enn biðja hv. dm. að hugleiða þetta, áður en gengið verður til atkv. um frv.