26.03.1971
Neðri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

292. mál, þingfararkaup alþingismanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það, er kannske að bera í bakkafullan lækinn, að þriðji ræðumaður, sem komi og ræði þetta mál, sé úr hópi sjálfstæðismanna, að það séu ekki neinir aðrir þm., sem hafi áhuga á þessum málum en þeir. Þar fyrir utan má vera, að það séu þeir, sem endranær séu mestu verkalýðsleiðtogarnir og hugsi um kjör hinna bágstaddari eins og í þessu tilfelli. Ég vil taka undir orð frsm. í sambandi við mál þetta, og ég skammast mín ekkert fyrir það að láta það koma hér fram t.d. í sambandi við sjálfan mig, að 20 ár tók það mig að afla mér stöðu í þjóðfélaginu bæði með skólanámi og vinnu, sem ég varð svo að skilja við, vegna þess að ég var kjörinn til þess að verða alþm. Að vísu má segja og kannske vitna til orða fyrri ræðumanns hér í dag, að það hefðu aðrir getað komið þar til og kannske boðizt til þess fríviljugir að gegna þessu starfi og koma hér til Alþ. og rétta hér upp hönd sína til atkvgr., en ég held, að það sé ekki vilji okkar þm. eða þjóðarinnar í heild, að svo verði, heldur það, að þjóðin eigi kost á því að velja menn, úr hvaða stétt þjóðfélagsins sem er, til þess að koma hingað og gegna störfum fyrir ekki aðeins einstaka hagsmunahópa, heldur fyrir þjóðina í heild, og þannig tel ég, að það eigi að vera í framtíðinni. Það verður ekki þannig, nema menn eigi kost á því að geta farið úr einni stöðu í þessa og þá með þeim launakjörum, að þeir geti reynt að leita sér að einhverri annarri atvinnu á eftir.

Ég veit, að við eigum hér mikið af óðum lögfræðingum á Alþ., guði sé lof, segi ég. Ég veit það hins vegar með unga lögfræðinga, sem koma til þings, að þeir eru um leið að sitja það af sér að geta farið bæði í embættisstöður eða það, sem kallað er „praxís“ þ.e. í það að gegna sínu starfi á sinni lögfræðiskrifstofu, og um leið og þeir sitja hér lengur, verða þeir því miður verr til þess fallnir að koma á þann markað aftur, þar sem nóg er af frambjóðendum, að mér skilst, í þjóðfélaginu. En því miður er fullt af mönnum í þessu þjóðfélagi, sem eiga ekki afturkvæmt í sitt fyrra starf, ef þeir eru kjörnir til þess að gegna þessu starfi. Þar fyrir utan eru þeir menn, sem við kjósum helzt að fá hingað — ekki aðeins blaðamenn, sem geta skroppið frá sínum blöðum, heldur útgerðarmenn, atvinnurekendur og aðrir slíkir, sem þurfa að fara frá einkarekstri utan af landi og annars staðar frá til þess að gegna þessu starfi. Hvernig er að gera það? Þeir verða að fá laun fyrir það. Þeir þurfa eitthvað til þess að koma á móti þeim mikla kostnaði, sem þeir standa undir með því að greiða öðrum mönnum laun fyrir það að gegna sínum störfum heima fyrir. Takið þið bændur. Ég veit ekki til þess, að það séu nokkur ákvæði um það í okkar lögum eða ákvæðunum um þingfararkaup, að þingið greiði mönnum, sem gegna því að sjá um bú bænda, sem hér sitja, laun á meðan þeir sitja hér á þingi. Þeir verða að taka þetta á sig. Við skulum taka þá mör u menn sem koma hér frá verkalýðssamtökum. Ég veit það, guði sé lof, að það hefur verið framkvæmt þannig á undanförnum árum, að verkalýðssamtökin hafa reynt að hlaða undir þá menn, sem hafa gegnt þingstörfum, með hinum og þessum hlunnindum, sem verkalýðssamtökin sjálf eiga ráð á og væri betur dreift meðal annarra, einfaldlega til þess, að þessir menn hefðu lifibrauð. Þetta tel ég ekki vera rétt. Þetta væri betur í höndum annarra manna, Ekki það, að ég sé að gagnrýna þá, sem gegna þessu.

Varðandi breytingu á launaflokkum er það auðvitað atriði, sem allir geta gagnrýnt og hefur sjálfsagt verið rætt í hv. fjhn. hvort það eigi að vera B 1, B 2 eða B 3; það í sjálfu sér er ekki meginmálið. Á margan hátt hefði ég viljað koma til móts við till. hv. þm. Gísla Guðmundssonar um það, að hinn sami dómstóll, sem kveður á um laun ráðh., hefði líka kveðið á um þetta, en á hinn bóginn verð ég að viðurkenna það líka, að sjálft löggjafarþingið, sem hefur skapað þennan sama dómstól, sé að framselja þann rétt, sem það hefur, til þess að þeir hinir sömu ákveði það. Á marga, veit ég, að það orkar nokkuð hlálega.

Hv. fyrri ræðumaður hér í umr. minntist nokkuð á það, að með þessu værum við kannske að gera hv. Alþ. þann óleik, að starfandi embættismenn ættu ekki hingað afturkvæmt. Ég efa ekki, að bæði þeir og aðrir, sem vildu koma hingað kauplaust til þess að geta greitt atkvæði, mundu koma hingað, og ef einhver er kallaður og verður útvaldur um leið, þá kemur hann. En ég held, að sú nefnd, sem fjallar um þessi mál hjá okkur hafi fundið góða reglu í sínum tillögum. Auðvitað má deila um það, hvort hún sé sú eina rétta. Vissulega mætti bæði breyta henni og jafnframt þeim flokki, sem við á að miða, en ég væri sjálfur persónulega til viðtals um það, að það væri kjaradómur sjálfur, sem fjallaði um þetta mál, þannig að það þurfti ekki að koma upp, sem hér hefur orðið og mér finnst í sjálfu sér ósköp leiðinlegt, að Alþ. Íslendinga skuli þurfa að standa í því á síðustu dögum þingsins að ræða um sín eigin launamál, vegna þess að í sjálfu sér erum við kannske sjálfráðir um það, en samt sem áður er Alþ. Íslendinga alls ekki sjálfrátt um það, því að það verður auðvitað að taka til greina, hvað er að ske í þjóðfélaginu, hvað hefur skeð og hvað muni ske, og það má þess vegna vera, að við séum kannske að fara of langt á þessari stundu í sambandi við tillögur þingfararkaupsnefndar. En samt sem áður er ég sannfærður um, að við erum þarna nokkuð á réttri leið, einfaldlega vegna þess, að ég veit, að með þessu fáum við fleiri og betri menn til þess að sækjast eftir því að gegna störfum þm. og það verði því ekki aðeins þeir menn, sem eigi þá aðstöðu í þjóðfélaginu sem embættismenn eða á annan hátt hjá fyrirtækjum eða stofnunum, einkastofnunum eða öðrum, sem geti leyft sér að gera þetta. Með því að borga þessum mönnum nógu vel fyrir það að gegna þessum störfum þann tíma, sem þeir starfa, sem í hvert skipti er fjögur ár í mesta lagi, erum við líka á réttri leið. Við fáum þannig fleiri menn fram til þess að bjóðast til þessara starfa, og m.a. þess vegna mun ég greiða þessu frv. óbreyttu atkvæði mitt.