01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

292. mál, þingfararkaup alþingismanna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég stend hér ekki upp til að gera miklar aths. við ræðu hv. frsm. allshn., en ég tel eftir atvikum eftir þær umr., sem urðu um þetta mál í Nd. Alþ., sérstaklega eftir að samkomulag hafði orðið milli allra flokka um framgang þessa máls, að ég verði að skýra frá minni afstöðu og míns flokks til málsins. Við höfum fallizt á það eftir atvikum að fylgja þessu máli og lagt til meðflm., eins og þskj. vitna, en hitt er svo annað mál, að við höfum talið, að hér hefði átt að fara aðra leið, þ.e. þá, sem hv. frsm, allshn. minntist á, að einhver hlutlaus aðili hefði ákveðið alþm. stöðu þeirra í launakerfinu og hefði talið það af mörgum ástæðum réttara.

Það er auðsætt, að það er alltaf erfið ákvörðun sem því fylgir fyrir hvern, sem er, að taka laun úr sjálfs sín hendi, en þó af almannafé, og mér finnst og mér hefur raunverulega alltaf fundizt sú aðferð vera óeðlileg, óæskileg og óþægileg fyrir þm. að þurfa að ákveða laun sín sjálfir, og ég held, að ýmislegt í launamálum þm. á undanförnum árum hefði farið betur og kjör þeirra ekki verið eins bágborin og þau hafa lengst af verið, ef þessi aðferð hefði verið viðhöfð. Ég hefði ekki talið rétt, að þarna hefði verið um kjaradóm að ræða, heldur hefði verið samþykkt, að Hæstiréttur eða sérstakur dómur, sem hann hefði tilnefnt, hefði ákveðið alþingismannalaun eða stöðu þeirra í launakerfi opinberra starfsmanna. Ég vil líka taka það fram, að ég tel, að það hafi verið óhjákvæmilegt nú að ákveða þm. stöðu í launakerfi opinberra starfsmanna, eins og það liggur nú fyrir, og gildir einu, þó að ég sé á margan hátt því launakerfi andstæður og telji að þar sé um of mikinn launamismun að ræða. Ég vil ekkert um það fullyrða, að hér sé um neinn Salómonsdóm að ræða um þá stöðu, sem þm. er hér ákveðin með þessu frv., en ég hef þó og minn flokkur talið eftir atvikum rétt að fylgja því, þar sem okkar aðaltillaga í málinu náði ekki fram að ganga. En ég vildi miklu frekar skoða þessa ákvörðun núna sem bráðabirgðaúrlausn í máli, sem beint lægi við, að tekið væri upp með öðrum hætti en hér hefur verið gert og þá á þá lund, sem ég hef hér lýst.