11.03.1971
Efri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

243. mál, sala hluta úr jörðinni Kollafirði

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Með þessu frv. þarf ekki nema örstutta framsögu. Sams konar frv. var flutt á síðasta Alþ., en varð þá eigi útrætt. Það var svo seint flutt, að það vannst ekki tími til þess að afgreiða það. En málsatvik eru þau, að árið 1959 keypti Sigurjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri í Reykjavík, hluta úr jörðinni Kollafirði í Kjalarneshreppi, 3.15 ha., af þáv. eiganda jarðarinnar. Hann hóf þegar mikla trjárækt í landi sínu og hefur gert þennan reit einn hinn fegursta í þessum landshluta, eins og allir þeir, sem um Vesturlandsveg eiga leið, geta kynnt sér af eigin raun og hljóta að hafa séð. Sigurjón hefur þegar fullræktað eignarland sitt og hefur hug á því að halda ræktun áfram, en vantar til þess nokkuð aukið landsvæði. Spilda sú, sem hér um ræðir, er aðeins hálfur hektari og hefur — ég held, að sé óhætt að segja það — engin áhrif á notagildi jarðarinnar fyrir núv. eiganda hennar, ríkissjóð, enda er þessi spilda innan girðingar Sigurjóns, þó að hann sé ekki eigandi að henni. Okkur flm. finnst það viðeigandi að veita Sigurjóni nokkra viðurkenningu fyrir frábær störf í þágu gróðurræktar og landgræðslu með því að gefa honum kost á að kaupa það land, sem hann hefur hug á að eignast til áframhaldandi ræktunarstarfa. Meðflm. að þessu frv. eru þrír hv. þm., sem eru kosnir úr kjördæmi Reykn., þar sem Kollafjörður er, og vænti ég og vonast til þess, að þetta litla mál megi fá fljóta og örugga afgreiðslu hér á hv. Alþ.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.