10.02.1971
Efri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

202. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur í frv. þessu, var lagt til, að bönnuð verði öll veiði með dragnót og flotvörpu í Faxaflóa. Nánar tiltekið er hér um svæði að ræða, sem er innan við línu, sem dregin er frá punkti réttvísandi í vestur 6 sjómílur frá Garðskaga og þaðan beint í Malarrif. Það má segja, að frv. þetta sé hliðstætt frv., sem á undanförnum árum hafa verið flutt hér á hv. Alþ., þó að þau hafi aðeins náð til dragnótarinnar, enda er svo skammt síðan önnur botnvörpuveiði var leyfð hér í flóanum. En þrátt fyrir það, að frv. hali ekki náð fram að ganga eða hlotið fullnaðarafgreiðslu, hefur legið ljóst fyrir, að málið hefur átt verulegu fylgi að fagna meðal þm., og í þessari hv. þd. hefur jafnan komið fram eindreginn stuðningur við málið. Þó að frv. þetta nái aðeins til Faxaflóa, er vissulega þörf á því, að hliðstæðar friðunarráðstafanir verði gerðar víðs vegar í flóum og fjörðum við strendur landsins, þar sem vitað er, að um uppeldisstöðvar ungfisks er að ræða.

Eftir að fiskveiðilandhelgin var á sínum tíma færð út í 4 sjómílur frá yztu annesjum og flóar og firðir voru friðaðir fyrir botnvörpu- og dragnótaveiðum, var þess ekki langt að bíða, að fiskmagnið ykist þar, en samfara því kom það einnig til, að hið góða hráefni nýttist á allan hátt betur og var unnið á þann hátt, að verðmæti aflans yrði sem mest. En þessi hagstæða þróun fiskveiðanna í Faxaflóa og reyndar viðar við strendur landsins stóð því miður skamma stund. Það leið ekki á löngu, eftir að dragnótaveiðarnar hófust að nýju í Faxaflóa, þar til þess fór að verða vart, að fiskmagnið fór hraðminnkandi. Er nú svo komið, að heita má, að í sjálfum Faxaflóanum sé fiskilaust á flestum tímum árs. Þeir fiskibátar, sem veiðarnar stunda, verða því að leita á náðir Aflatryggingasjóðs til þess að bæta sér upp sárasta tjónið.

Hér hefur því sama sagan endurtekið sig. Á meðan dragnóta- og botnvörpuveiðarnar nutu ávaxtanna af friðunartímabilinu, gáfu veiðar þessar að vísu allgóða raun, en áhrifin af rányrkjunni komu ótrúlega fljótt í ljós. Eitt dæmi um það, hvað leitt getur af skefjalausri rányrkju, eru síldveiðarnar, sem áttu sér stað við Suður- og Suðvesturlandið á árunum 1965, 1966 og 1967, þegar ausið var upp tugþúsundum tonna af síld, og uppistaðan í þeim veiðum var ung síld og ókynþroska. Árið 1965 voru þannig veidd 114 þús. tonn, og 73% af því magni var síld þriggja ára og yngri eða ókynþroska síld. Árið 1966 er enn haldið áfram með þessa rányrkju, en þá var veiðin alls 45 800 tonn, og 64% af því magni voru ókynþroska síldarseiði. Þannig minnkaði aflinn um meira en helming frá næsta ári á undan. Árið 1967 er aflamagn síldveiðanna 69 þús. tonn, en þá nær rányrkjan hámarki, því að talið er, að um 80% af heildarmagninu hafi verið ókynþroska síld, þriggja ára gömul eða yngri. Við þetta bætist svo, að allur þessi afli, sem væri úrvalshráefni til vinnslu, ef um fullþroska síld væri að ræða, fór í gúanóvinnslu, þar sem hráefnið varð ekki notað til annars. Sem betur fer, hefur nú verið tekið fyrir þessa rányrkju,Að till. fiskifræðinga er nú öll veiði bönnuð á síld, sem er undir 26 sm að stærð eða ókynþroska síld, og auk þess er öll síldveiði við Suðvesturland bönnuð á vissum tímum árs. Er þar höfð hliðsjón af því m. a. að friða síldina, meðan á hrygningu hennar stendur, og einnig eru veiðitakmarkanir, þegar síldin er hvað mögrust t.d. á vorin, þegar mikil áta er í síldinni, sem veldur skemmdum á hráefninu. Í þessum efnum erum við örugglega á réttri leið.

Þegar rætt er um friðun Faxaflóa sem tilraun til að auka fiskisæld í flóanum, má segja, að gegni furðu, þegar á það er litið, hvaða arði veiðarnar skila nú, að nokkur andstaða skuli vera fyrir hendi í málinu. Eins og ég áður hef vikið að, er svo til um algert fiskileysi að ræða, og því til sönnunar má benda á, að bátum, sem stunda þessar veiðar, hefur farið stöðugt fækkandi. Þá er einnig að geta þess, að það er erfitt að fá upplýsingar um, hver hinn raunverulegi afli snurvoðabátanna er, vegna þess að sumir bátanna skipta um veiðarfæri á vertíðinni og taka þá þess í stað til við t.d. „fiskitroll“ eða aðrar veiðar eftir því, hvaða veiðar má helzt búast við, að verði hagstæðar. Þessu til sönnunar má benda á, að einungis þrír bátar stunduðu snurvoðaveiðar frá Reykjavík á s.l. sumri. Þessir bátar voru 15 smálestir að stærð. Úthaldið gekk svo erfiðlega, að þeir skiptu yfir í aðrar veiðar fyrir miðja vertíð, og varð það því minni hluti úthaldsins, sem féll undir snurvoðaveiðarnar. Alls öfluðu þessir þrír bátar aðeins um 90 smálestir af alls konar fiski. Þá voru einnig gerðar út þrjár smátrillur héðan frá Reykjavík á s.l. sumri á þessar veiðar, en þær höfðu einnig mjög lítinn afla, og í Keflavík voru gerðir út fimm bátar á snurvoð á s.l. sumri, en úr öðrum verstöðvum við Faxaflóa voru hins vegar engir bátar gerðir út á þessar veiðar. Í Keflavík gegndi sama máli. Sumir bátanna skiptu yfir í aðrar veiðar á miðri vertíð, en heildarafli allra bátanna á snurvoð nam samtals 863 smálestum. Það er því augljóst mál, að mikið hefur vantað á, að bátar þessir hafi með aflaverðmætinu getað staðið undir útgerðarkostnaði.

Þessara upplýsinga, sem ég hef greint frá í einstökum atriðum, hef ég aflað mér ýmist frá Hafrannsóknastofnuninni, en þar ræddi ég við Jakob Jakobsson fiskifræðing um síldveiðarnar og um síldarstofnana, eða frá Fiskifélagi Íslands, að því er snurvoðina varðar, en um afla báta með „fiskitroll“ liggja ekki að fullu fyrir upplýsingar, en eitt er þó víst, að þar er, hvað aflabrögð snertir, svipaða sögu að segja og fram kemur í upplýsingum, sem fyrir liggja varðandi snurvoðina.

Um friðunarráðstafanir almennt, sem gera verður víðs vegar á veiðisvæðum til að sporna við óhóflegri sókn í fiskstofnana og þá sérstaklega með hliðsjón af sístækkandi fiskiskipaflota fjölmargra þjóða, sem nú stefna flota sínum á Íslandsmið, mætti vissulega tala langt mál. En í þessum efnum á sennilega engin ein þjóð meira í húfi en við Íslendingar. Að slíkt á sér stað, kemur að sjálfsögðu til af fleira en einu. Það er ekki aðeins vegna þess, að þrátt fyrir allt er hér enn nokkur fiskivon, heldur einnig það, sem er e.t.v. enn ríkari ástæða, að á meðan okkur tekst að halda hafinu umhverfis landið ómenguðu, verður hér um úrvals sjávarafurðir að ræða, en það getur haft úrslitaþýðingu fyrir tilveru Íslendinga sem fiskveiðiþjóðar.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja öllu meira um þetta mál að sinni. Ég vil vísa til þeirrar grg., sem frv. fylgir, og þá sérstaklega vekja athygli á fskj., sem er yfirlit um ýsuafla landróðrabáta frá Akranesi, og nær það yfirlit yfir níu haustvertíðir. Síðan þetta yfirlit var gefið, hefur bætzt ein haustvertíðin enn við hjá Akranesbátum, og útkoman af þeirri vertíð er sú, að aflinn er enn minni en hann var á s.l. ári miðað við róður eða aðeins 700 kg af ýsu í hverjum róðri. Eins og yfirlitið ber með sér, er hér um ískyggilega þróun að ræða, og vilja sjómenn halda því fram, að aðalorsökin stafi af rányrkjunni, sem eigi sér stað með snurvoðaveiðunum, en einnig nú botnvörpuveiðunum, eftir að þær hala verið leyfðar hér í Faxaflóa. Þessi skýrsla, sem hér um ræðir, talar sínu máli. Hún er óvefengjanleg og því annað ótrúlegt en almenningi sé ljóst, hvert stefnir, og annað ólíklegt en Alþ. geri skyldu sína með því að samþykkja það frv., sem hér um ræðir.

Ég mun því ljúka máli mínu og legg til, að frv. þessu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.