10.02.1971
Efri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

202. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Örfá orð til viðbótar við það, sem ég hef áður sagt, beint í tilefni af ræðu hv. 5. landsk. Ég vil fyrst leiðrétta það, sem hann margendurtók og hélt hér fram í ræðu sinni, að ég væri með einhverjar sérstakar ásakanir til ákveðinna sjómanna. Það, sem kemur fram hjá mér og þeim, sem hafa flutt þetta frv., er ádeila um að breyta ekki löggjöfinni. Það er löggjöfin, sem á hér náttúrlega sök á þessu, en ekki einstakir menn, að veiðin er leyfð. Það er náttúrlega ekki hægt að álasa neinum manni fyrir það, þó að hann noti gildandi lög og hagi sér eftir því, sem hann hefur sjálfur trú á í þessum efnum, að hann geti bjargað sér við síldveiðarnar. Þess vegna er hér um meginvillu að ræða hjá hv. þm., þegar hann er að endurtaka það sí og æ, að hér sé verið með ásakanir á einhverja einstaka sjómenn. Það er þvert á móti. Hins vegar tók ég það fram, að það væri skoðun sjómanna t.d. á Akranesi, eins og fram kemur í þessari skýrslu, sem hér liggur fyrir, að þessi þróun, sem átt hefur sér stað, sé fyrst og fremst þessu að kenna. Við teljum, segja þeir, að dragnótin og „hliðartrollið“ eigi sök á þessu og þessi veiðarfæri eigi að banna hér í Faxaflóa, enda er viðurkennt, að Faxaflói sé ein mesta uppeldisstöð ýsunnar. Þetta er álit sjómannanna á Akranesi.

Viðvíkjandi því, að það liggi ekki fyrir, hvaða bátastærð sé um að ræða, sem þessi skýrsla nær yfir, þá get ég upplýst það, ef hv. þm. er það ókunnugur á Akranesi og ókunnugur útgerðarháttum þar, að þar eru nær einvörðungu gerðir út þessir landróðrabátar, minnst 60 tonna bátar og þar yfir upp í 200 tonna báta, svo að það eru engir smábátar þarna og heldur ekki um neina óvenjulega útgerð að ræða í þessum skilningi. Hér er einvörðungu um stóra báta að ræða, sem róa á kvöldin í skammdeginu eða fram undir miðnætti og koma að næsta kvöld. Þetta eru langir róðrar, og það er langsótt út í Faxaflóann, ef það á að vera nokkur von nú orðið um að fá nokkurn afla. En hann segir, að það skipti eiginlega ekki neinu máli, hver aflinn sé í róðri, og það kemur mér einkennilega fyrir sjónir hjá útgerðarmanni, ef það skiptir aðalmáli í dag, hvað hægt er að sarga upp mörg tonn í svo og svo mörgum róðrum. Ég hélt nú, að útkoman hjá útgerðarmanni yrði að byggjast á því fyrst og fremst, hver afraksturinn yrði í hverjum fiskiróðri, og það væri því aðeins hægt að búast við ágóða af útgerðinni, að hver einstakur róður skilaði góðum hagnaði. Við vitum allir, hvað kostar í dag að gera út landróðrabát með línu, kaupa síldina og olíu, borga fyrir mannskap og annað, sem til þarf til að standa undir hverjum róðri fyrir sig, og það skiptir nú höfuðmáli álít ég, hvað fæst í hverjum róðri, en ekki hvað heildarmagnið verður hjá öllum flotanum að lokinni vetrarvertíð, þegar það safnast saman og róðrarnir hafa verið svo og svo margir. Það er þess vegna ekki sambærilegt, þegar minnzt er á það, að í 252 sjóferðum 1969 fá bátarnir 206 tonn að vísu eða um 800 kg í hverri sjóferð, en á árinu 1962 fá þeir 246 tonn eða um 40 tonnum meira í aðeins 67 sjóferðum. Þarna sjá allir, hvor útgerðin hefur borgað sig betur, og ég endurtek það, að það skiptir vitanlega höfuðmáli í þessum efnum, hvað útgerðina snertir og rekstrarkostnaðinn, að hver sjóferð, sem farin er, beri sem ríkastan og beztan árangur.

Þá minntist hv. 5. landsk. þm. á þann góða ábata og afla, sem Akurnesingar hafa á undanförnum árum sótt í svokallaðan Melakrika í Faxaflóa. Þar hefur hann sjálfsagt átt við það svæði, sem sanddæluskipið sækir skeljasandinn í fyrir Sementsverksmiðjuna nú. Ekki skal ég segja um það, hvort það er nákvæmlega í Melakrikanum eða á einhverjum öðrum stað þar í nánd, en hitt er ekkert óeðlilegt, að komi fram, að það var viss kvíði hjá mörgum yfir því, þegar þessi sanddæling átti sér stað. En þegar á það er litið, hvað þetta er mjög takmarkað svæði, sem þarna er um að ræða, þá er það talið af fiskifræðingum og þeim, sem hafa kynrit sér þessi mál sérstaklega, að hér getur ekki komið til, að verði um neitt verulegt tjón að ræða í sambandi við fiskmagnið í Faxaflóa. En hitt vil ég upplýsa hv. þm. um, sem hann er sjálfsagt ekki bara nægilega kunnugur, að það merkilega hefur skeð í sambandi við þetta, að þegar það á sér stað, að skipið er að störfum að sumri til að dæla upp sandi, þá sæta trillubátarnir færi til að koma í námunda við sanddælinguna, því að það er hvergi meiri fisk að fá en einmitt þar sem sandurinn þyrlast upp og ætið, sem er á botninum. Það getur hann fengið að vita hjá þeim, sem til þekkja, að hafi nokkurs staðar fengizt fiskur á þessa litlu báta, þá er það þar í kring, og það kann vel að vera eðlileg skýring á því máli, að þegar hreyfing kemur á sjóinn og eitthvert æti er í þessu, þá sækir fiskurinn í það, og það, jafnvei þótt ekki væri um neitt æti að ræða.

Nei, ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og reyna að leiðrétta það, sem ég tel, að komi ranglega fram í túlkun hv. 5. landsk. þm. varðandi, hvað það skipti miklu máli, að aflabrögðin í hverjum róðri út af fyrir sig séu sem bezt, en það skiptir minna máli, og það er ekki úrslitaatriði, hvað heildarmagnið verður, þegar á það er litið, hvað róðrarnir eru margir.