10.02.1971
Efri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

202. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér í þessa vísindalegu deilu hv. 2. þm. Vesturl. og hv. 5. landsk. þm. um aflamagnið og það, hvað komi bezt út í því sambandi. Þeir eru fullfærir um það. Ég er ekki meðflm. að þessu frv. Ég hefði vafalaust verið það, ef ég hefði átt þess kost, og ég ætla ekki að taka að mér neina framsögu í því efni. Hv. 1. flm. er fullfær um það. En mig langar til þess að láta í ljós skoðun á þessu máli, eins og ég hef löngum gert, þegar þetta frv. hefur komið hér til afgreiðslu vegna þess líka, að ég á ekki sæti í þeirri n., sem fær það til athugunar.

Það er öllum kunnugt, að þessi dragnótaveiði hefur valdið miklum ágreiningi hér við landið og menn hafa skipzt mjög í flokka um nytsemi þess veiðarfæris. Sumir leggja áherzlu á nytsemina, en aðrir meiri áherzlu á hættuna. Í Íögum um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, eins og ég held, að lögin heiti, nr. 40 1960, er farin sú leið að láta það vera undir því komið, að óskir og umsagnir tiltekinna aðila berist um það, hvort veiðin skuli leyfð eða ekki. Og einmitt á þessum vettvangi hef ég átt þess kost mörg undanfarin ár að segja álit mitt sem sveitarstjórnarmaður í Reykjavík á því, hvort þetta leyfi skyldi veitt eða ekki. Þetta leyfi hefur ávallt verið veitt af hálfu Reykvíkinga, en ég hef alltaf verið því andvígur.

Það má kannske segja, að það sé ekkert óeðlilegt að heimila dragnótaveiðar á stöðum, þar sem íbúarnir telja þær ráðlegar og hvetja til þeirra og vísindamennirnir vara ekki við þeim. En hér við Faxaflóa og vafalaust víðar er um mjög mörg sveitarfélög að ræða, sem hagsmuna eiga að gæta, og það er ekki hægt eins og í þessu tilfelli að tala hér um neina einingu í þessu máli þeirra sveitarfélaga, sem hlut eiga að máli. Faxaflóasvæðið er viðurkennt ein merkasta uppeldisstöð fyrir ungfisk í kringum allt land, og það eru mörg bæjar- og sveitarfélög, sem lifa að meira eða minna leyti á fiskveiðum. Hjá sumum þeirra og einmitt sumum af þeim, sem mest eiga undir fiskveiðum, hefur verið mjög öflug andstaða alla tíð gegn dragnótinni. En svo innan sama svæðis hafa verið önnur sveitarfélög, sem hafa viljað leyfa þetta — sveitarfélög, sem þó hafa átt minna undir því en hin, hvernig til tækist með þetta, eins og t.d. Reykjavík. Ég álít því, að hvað sem kann að gilda og hvað sem kann að eiga við annars staðar, þá séu sjónarmiðin svo margbreytileg hér við Faxaflóa, að álit sveitarstjórnanna geti ekki orðið grundvöllur neinnar nýtingar þessa svæðis, og þess vegna tel ég, eins og ég hef alltaf gert frá því, að þetta frv. kom fyrst fram, ástæðu til þess að samþykkja það og taka fyrir þessar veiðar. Það þarf ekki lengi að lesa skýrslu Útvegsmannafélagsins, sem er birt í bréfi til Fiskifélags Íslands, til þess að sjá það, að aflanum þarna hefur stórlega hrakað allar götur, síðan lögin voru sett, því að 1960 fást 159 tonn í 64 róðrum, en 1968 fást 116 tonn í 163 róðrum. 1969 er útkoman heldur skárri, þá fást að vísu 206 tonn, en það tekur líka hvorki meira né minna en 252 róðra til þess að urga upp þessum 206 tonnum, svo að það er ekki beysin útkoma á þessu, menn sjá það. Og getur ástæðan önnur verið en ofveiði? Ég hef ekki nóg vit á því til þess að svara því vísindalega, en bara út frá almennu sjónarmiði og almennri skynsemi, hlýt ég að svara því játandi. Þarna er um ofveiði að ræða.

Það er talað um vísindalegt eftirlit. Ég hef oft rætt þetta vísindalega eftirlit hér og m.a. einu sinni ekki alls fyrir löngu greint frá ósamhljóða niðurstöðum sama sérfræðingsins um það, hvað væri óhætt í þessu efni. Og meðan álit þeirra eru ekki meira sjálfum sér samkvæm en mér hefur virzt þau vera og gæti raunar nefnt dæmi um, ef ástæða þætti til, þá bið ég velvirðingar á því, þó að mér finnist það ekki nægileg forsenda til þess að réttlæta þessar veiðar.

Ég held, að það sé út af fyrir sig ástæðulaust að vera að halda hér langar ræður um þetta mál, sérstaklega hér í þessari hv. d., því að hér mun hafa verið nokkuð góð samstaða og einhugur um það að samþykkja lög sama efnis og það frv., sem hér er borið fram. En ég vil vænta þess, að með hliðsjón af reynslu undanfarins áratugs af þessum veiðum verði nú þingmeirihluti fyrir því ekki bara í Ed., heldur einnig í Nd., að þetta mál nái fram að ganga, því að ég endurtek það, að mér finnst það ekki vera fært að láta svo þýðingarmikla ákvörðun velta á úrskurði sveitarstjórna á viðkomandi svæði, sér í lagi þar sem um svona margs konar sjónarmið og marga aðila, sem þar eiga hlut að máli, er að tefla, eins og er á Faxaflóasvæðinu.