08.03.1971
Efri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

202. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur haft frv. það, sem hér um ræðir, til athugunar og sent það til umsagnar stjórnar Fiskifélagsins og Hafrannsóknastofnunarinnar.

Frv. gerir ráð fyrir því, að bönnuð verði öll veiði með dragnót, flotvörpu eða botnvörpu í Faxaflóa innan linu, sem dregin er frá punkti réttvísandi í vestur 6 sjómílur frá Garðskaga og þaðan beint í Malarrif. Fyrsti flm. frv. gat þess í framsöguræðu sinni fyrir málinu við umr. þess, að frv. hliðstæð þessu hefðu verið flutt fyrr á hinu háa Alþ. Hann rakti einnig ítarlega þau rök, sem mæla með samþykkt þess, og ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þær röksemdir hér, enda er meginefni þeirra í grg. með frv.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, leitaði sjútvn. umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar og stjórnar Fiskifélagsins. Umsagnir bárust frá báðum aðilum, og vil ég kynna efni þeirra fyrir hv. þm., með leyfi hæstv. forseta. Bréfið frá Hafrannsóknastofnuninni er allitarlegt og langt, og vil ég aðeins víkja hér að niðurlagi þess:

„Orsök minnkandi ýsuveiði undanfarin ár virðist því aðallega vera lélegt klak á árunum 1958–1959 og 1961–1963.

Í rauninni er mjög vafasamt að bera veiðina í dag saman við það, sem hún varð á árunum 1961-1965, þar sem sú veiði byggðist svo til eingöngu á tveimur afburðasterkum árgöngum, sem ekki er hægt að reikna með venjulega.

Samanburður á ýsuveiði okkar í dag við það, sem hún var áður, sýnir eftirfarandi:

Á árunum 1966–1969 sveiflaðist aflinn milli 34–38 þúsund tonna, og var meðalaflinn á því tímabili tæplega sex sinnum meiri en á árunum 1930–1939 ...

Þessar sveiflur eru innan þeirra marka, er náttúran sjálf ákveður um stærð hinna einstöku árganga.

Sú þróun í veiði Akranesbáta, sem prentuð er sem fskj. með frv., er í samræmi við þá heildarþróun ýsuveiðanna, sem hér hefur verið lýst, þó að vísu sé hér einungis um að ræða 0.5% af ýsuafla Íslendinga á umræddu árabili og 0.3% af heildarýsuaflanum.

Hér virðist því ekki vera um að ræða staðbundið fyrirbrigði, sem hægt er að skýra með notkun ákveðinna veiðarfæra, heldur er hér um að kenna sveiflum í náttúrunni, er við ráðum ekki við.“ Og undir þetta skrifar Jón Jónsson.

Ég leyfi mér að lesa bréf frá stjórn Fiskifélagsins. Það er stutt. „Stjórn Fiskifélags Íslands hefur móttekið bréf nefndarinnar dags. 11. þm. þar sem beiðzt er umsagnar um frv. til laga um breyting á lögum nr. 21 10. maí 1969, um breyting á Íögum nr. 62 18. maí 1967, um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu.

Félagsstjórnin varð ekki að öllu sammála um afgreiðslu þessa máls. Stjórnarmenn voru samt á eitt sáttir um, að haga skyldi veiðum á einstökum veiðisvæðum á þann hátt, að fiskstofnar þar, og þá einkum þeir, sem eru staðbundnir, verði ekki ofveiddir.

Sumir stjórnarmenn töldu, að slík hætta kynni að vera fyrir hendi í Faxaflóa og styðja af þeim sökum umrætt frumvarp. Vilja þeir mæla með lokun þeirra uppeldissvæða, sem þar um ræðir, a.m.k. um nokkurt skeið, t.d. fimm ár. Yrði mál þetta þá endurskoðað í ljósi þeirrar reynslu, sem þá væri fengin.

Aðrir stjórnarmenn töldu, samkvæmt fyrirliggjandi skýrslum, sókn togbáta og dragnótabáta á umrætt svæði undanfarin ár ekki hafa verið það mikla, að úrslitum gæti ráðið. Mundu aðrar orsakir vera til minnkandi gengdar fisks í Faxaflóa.

Þar sem endurskoða verður heimildir um togveiðar innan fiskveiðilögsögunnar fyrir fyrstu áramót, telja þessir stjórnarmenn rétt að fresta ákvörðun um þetta mál þangað til.

Stjórn Fiskifélagsins leggur til að vandlega verði fylgzt með rækjuveiðum til þess að koma í veg fyrir óhóflegt dráp fiskseiða. Hættan á því er mest á þeim árum, er hrygning hefur heppnazt á hrygningarstöðvum nytjafiska sunnan og vestan lands.

Á síðasta ári var samþykkt á Alþingi tillaga um að koma á leiðbeininga- og eftirlitsþjónustu fyrir rækjuveiðar og vinnslu hér á landi.

Athuga má, hvort ekki er tímabært nú að hrinda máli þessu í framkvæmd.

Virðingarfyllst,

Már Elísson.“

Það er ljóst, að menn greinir nokkuð á í þessu máli. Þá má og benda á, að hagsmunir sjómanna og útgerðarmanna rekast einnig á í þessu atriði a.m.k. í augnablikinu, þó að augljóst sé, að þegar til lengdar lætur, mun það bezt tryggja hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna, að tilteknar uppeldisstöðvar fiskstofnanna verði sem mest friðaðar. Almennt mun nú vera ríkur áhugi fyrir því í landinu, að við stefnum að frekari útfærslu okkar fiskveiðilögsögu og tiltekin svæði verði friðuð. Það eru gömul og ný sannindi, að allar slíkar aðgerðir valda í augnablikinu hagsmunaátökum, þó að flestir viðurkenni nauðsynina, þegar frá líður. Ég leyfi mér að lita á þær aðgerðir, sem farið er fram á í frv. þessu, sem hér um ræðir, sem tákn þess, að við sjálfir, Íslendingar, viljum auka af okkar hálfu friðunaraðgerðir innan eigin fiskveiðilögsögu, um leið og við leggjum áherzlu á nauðsyn frekari aðgerða utan núverandi fiskveiðilögsögu. Það er vissulega síður að vænta árangurs á því sviði, ef við sjálfir látum stundarhagsmuni og ágreining koma í veg fyrir, að við gerum, þó að ekki verði nema til reynslu um nokkurra ára bil, ráðstafanir, sem að dómi margra sjómanna og útgerðarmanna við Faxaflóa eru líklegar til góðs í okkar stóra hagsmunamáli — í því að vernda fiskstofna okkar. Eins og fram kemur í nál. á þskj. nr. 444, mælir n. með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja brtt. við frv. eða fylgja till., sem fram kunna að koma.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.