16.11.1970
Neðri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

3. mál, Landsvirkjun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar brbl., sem gefin voru út 1. sept. s. l. og fjalla einfaldlega um það að heimila ríkisstj. að ábyrgjast lán fyrir Landsvirkjun allt að 8 millj. dollara virði eða 704 millj. ísl. kr. — jafnvirði þess, sem tekið er að láni vegna framhaldsvirkjunar í Þjórsá, undirbúnings frekari framhaldsvirkjana þar og til Þórisvatnsmiðlunar og annarra framkvæmda, sem eru í sambandi við virkjunaráform í Þjórsá og unnið var að áfram nú á þessu sumri, en sú ábyrgðarheimild var þrotin, sem ríkisstj. hafði verið veitt samkv. gildandi lögum. Hér er ekki um neitt nýmæli að ræða. Hér er aðeins um það að ræða að veita sams konar ábyrgð og áður hafði verið samstaða um hér á hinu háa Alþ., að veitt yrði Landsvirkjun, sem ríkið er að hálfu leyti eignaraðili að. Frv. var afgr. frá hv. Ed., shlj., og vildi ég leyfa mér að vænta þess, að sú sama samstaða gæti orðið um það hér í þessari hv. d.

Varðandi Landsvirkjun sjálfa og hennar mál liggur fyrir sérstakt frv. um næstu virkjun í Þjórsá, þannig að þetta frv. út af fyrir sig gefur ekki neinar ástæður til umr. í sambandi við þær hugleiðingar, sem menn kunna að hafa um framhald Þjórsárvirkjunar, enda hefur því ekki verið blandað inn í meðferð þessa frv. í sambandi við umr. um það í hv. Ed.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.