11.03.1971
Neðri deild: 60. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

241. mál, sala hluta af landi jarðinnar Dysja og jarðarinnar Háagerðis

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þremur öðrum hv. þm. þessarar d. að flytja hér tvö frv., sem bæði eru á dagskrá þessa fundar, 12. mál dagskrárinnar, mál á þskj. 464, svo og mál á þskj. 465, og þar sem bæði þessi frv. eru nátengd, þá leyfi ég mér í þessum fáu orðum að fjalla um þau bæði, ef ekki er gerð aths. þar við. Það, sem í frv. þessum felst, er, að makaskipti geti átt sér stað á milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Garðahrepps, og kemur það fram á korti því, sem er prentað á bls. 5 í þskj. 465, hvaða svæði það eru, sem um er að ræða, og samkomulag hefur orðið um hjá þessum tveimur sveitarstjórnum að hafa makaskipti á.

Ef þessi makaskipti geta farið fram, þá verður að vera heimild fyrir Hafnarfjarðarkaupstað eða fyrir ríkisstj. til að selja Hafnarfjarðarkaupstað þann hluta úr landi Dysja í Garðahreppi, sem merktur er A á þessu korti, og þegar sú sala hefur farið fram eða heimild til hennar er fyrir hendi, þá breytist um leið lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar samkv. því, og er frv. á þskj. 465 flutt til þess að leiðrétta lögsagnarumdæmið með tilliti til þess, að heimild verði veitt til sölu á þessum hluta úr jörðinni Dysjum í Garðahreppi. Hér er um að ræða samkomulagsmál á milli þessara tveggja sveitarfélaga, og ég vænti þess, að hv. d. sjái sér fært að hraða afgreiðslu þess eftir föngum, því að það er talið mjög áríðandi, að málin geti fengið afgreiðslu á yfirstandandi þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.