02.04.1971
Neðri deild: 82. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

241. mál, sala hluta af landi jarðinnar Dysja og jarðarinnar Háagerðis

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta er um það að selja Hafnarfjarðarkaupstað land undir nýtt, stórt og myndarlegt hverfi, sem þegar er byrjað að rísa norðanvert við hina gömlu byggð Hafnarfjarðar. Er sjálfsagt að verða við því. Síðasta málsgr. í 1. gr. er á þá leið, að þarfnist ríkið eða ríkisstofnanir byggingarlóða úr landinu undir opinberar byggingar, skal því heimilt að kaupa þær og þá við sama verði hlutfallslega og Hafnarfjarðarkaupstað var gert að greiða fyrir landið. Þetta orðalag er eins og venja er til í slíkum frv., en landbn. leggur til, að við þetta verði bætt einni setningu á þá leið, að Hafnarfjarðarkaupstað sé ekki heimilt að selja öðrum þetta land, og er fordæmi fyrir því í fyrri lögum, sem samþ. hafa verið undanfarin ár. Að sjálfsögðu er ætlunin sú, að sveitarfélögin geti ekki fengið land frá ríkinu og selt það síðan einstaklingum. Með þessari einföldu og sjálfsögðu breytingu leggur landbn. til, að frv. verði samþ.