04.03.1971
Neðri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í framsöguræðu þeirri, sem hér var flutt um þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá er þetta frv. samið af nefnd, sem var skipuð á s.l. ári. Vonir stóðu til, að þetta frv. kæmi löngu fyrr hér til Alþ. en raun hefur orðið á. Ég verð að segja það, að ég batt töluverðar vonir við, að þetta frv. mundi koma að miklu gagni fyrir landbúnaðinn, en ég verð að segja það, að eftir að hafa farið yfir það að vísu ekki ítarlega finnst mér, að það muni ekki marka mikil tímamót fyrir landbúnaðinn, þó að samþ. verði. Hins vegar verður að játa það, að það eru viss atriði í þessu frv., sem eru nýmæli og mundu verða til bóta, ef þau næðu fram að ganga. En aðalatriðið, sem mér fannst, að þyrfti að koma fram nú, var um langtum meiri aðstoð til þeirra bænda, sem verst eru settir í sambandi við dauðu túnin, en ég varð fyrir miklum vonbrigðum í sambandi við þann þátt frv.

Ég mun ekki ræða mikið um einstakar gr. þessa frv. Ég er í þeirri n., sem mun fá það til meðferðar, en ég vil láta það koma fram hér við þessa umr., að eiginlega átti ég von á því, að langtum meiri skipulagsbreyting yrði gerð á þessum málum en þetta frv. felur í sér. Mér finnst, að það sé lítil hagræðing í því að hafa í raun og veru þarna þrjár stofnanir, sem vinna í sjálfu sér alveg sömu verkin. Það þarf að hafa a.m.k. þrefalda spjaldskrá. Það er lagt til í þessu frv. t.d., að Landnámið fari að kortleggja sveitirnar eins og Búnaðarfélagið og ráðunautarnir eru í raun og veru að gera og hafa gert að þessu leyti; það á sem sé að fara að margvinna sama verkið. Ég hef haft þá skoðun, að í raun og veru væri Landnámið, eins og það hefur verið, búið að vinna að miklu leyti sitt aðalstarf, þ.e. í sambandi við nýbýlin, og í sambandi við endurskoðun þessara l. hlyti það að verða að einhverju leyti sameinað Búnaðarfélaginu eða öðrum deildum, sem fjalla um þessi mál. Og það hlýtur að vera mikill sparnaður í því, vegna þess að ég sé ekki, að það sé neitt sérstakt verkefni, sem Landnámið hefur nema það, sem í raun og veru aðrir hafa, eins og t.d. bæði Teiknistofa landbúnaðarins — ég man nú ekki það nýja orð, sem nú er haft yfir það hér, en það skiptir ekki máli — og svo náttúrlega Búnaðarfélagið.

Margt af því, sem kemur hér fram í þessu frv., er í raun og veru bara að viðurkenna það, sem orðið er. Það er farið að framkvæma sumt af þessu. Það er ekki mikið af nýmælum í þessu frv.; þó eru þau til. Og sumum af þeim fagna ég eins og t. d. nýmælunum um aðstoð í sambandi við hitaveitu og þess háttar. Þó að það náttúrlega komi aldrei til góða nema sárafáum bændum í landinu, þá er þarna spor í rétta átt stigið að mínu viti. Í sambandi við það að leyfa ekki nýbyli, nema þau hafi 100 hektara ræktanlegt land. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta mark vera nokkuð hátt. Ég þekki t.d. ákaflega marga bændur í Eyjafirði, sem eru jafnvel beztu bændurnir. Þeir hafa ekki hálfa þessa túnstærð, og ég held, að það sé ákaflega hæpið, ef önnur rök hníga að því að stofna nýbýli, að krefjast þess, að þessi stærðarmörk verði sett í sambandi við nýbýli. Hins vegar er það að vísu nú og hefur verið um sinn og verður sjálfsagt, að það verða ákaflega fáir, sem fara út í það að byggja nýbýli af þeirri einföldu ástæðu, að það er nógu erfitt að fá menn til að sitja þær jarðir, sem nú eru í byggð. En þetta ákvæði samt sem áður finnst mér orka mjög tvímælis eins og að vísu fleira, sem ég ætla ekki að fara inn á hér.

Í sambandi við þann styrk, sem er ætlaður til íbúðarhúsa, er náttúrlega fráhvarf frá því, sem áður hefur verið, þegar hann var ákveðinn bæði 1958, 1960, 1962 og 1964 líklega síðast. Með því að áætla þann styrk núna 120 þús. kr. þá er það miðað við framkvæmdamátt peninganna langtum minna en var í öll þau skipti, sem hann var áður hækkaður. Það hefði þurft að vera um 160 þús. kr. til þess, að framkvæmdamáttur þess fjár væri svipaður og var í hin skiptin. Þetta ber að harma. Hins vegar hef ég oft efazt um það, að þetta sé rétt stefna með þessa styrki. Það hefði verið miklu skynsamlegri leið að hafa þessa vexti af lánunum í Búnaðarbankanum miklu lægri en þeir eru, hafa ekki styrkinn, en hafa lánin langtum hærri.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. kom inn á það, að styrkurinn væri 120 þús. kr. og lánin úr Búnaðarbankanum 450 þús. kr. — sem sé samtals 570 þús. kr., og minnti hann á það, sem er rétt, að lán frá Húsnæðismálastofnun ríkisins væri um 600 þús. kr. og miðað við þessar tölur væri ekki mikill munur þarna á. Hann gat um það, að hann vonaðist til þess, að bankastjórn Búnaðarbankans mundi hækka þessi lán. Og ég verð að segja það, að ég held, að það sé fullur skilningur einmitt fyrir því hjá bankastjórn Búnaðarbankans að hækka lánin, ef bara fást peningar til þess, að það sé hægt. En það eru ekki og voru ekki fyrir hendi á síðasta ári nægir peningar til þess að hækka þessi lán í raun og veru miðað við það, sem þau hefðu þurft að vera, því að sannleikurinn er sá, að það er ekki hægt að bera saman lán út á íbúðarhús í sveitum og lán frá Húsnæðismálastofnun ríkisins vegna þess, að bændurnir þurfa að byggja langtum stærra yfir sig vegna síns rekstrar en t.d. þeir, sem í bæjunum eru. Það þarf ekki að færa rök fyrir þessu. Þetta ættu allir að vita, þannig að í sjálfu sér þyrftu þessi lán að vera miklu hærri en þau eru, ef þau ættu að vera hlutfallslega sama prósenta og íbúðirnar kosta yfirleitt á sveitabæjum eða þurfa að kosta, ef á að byggja, eins og þörf er á. Hv. þm. sagði, að það væru ekki í þessum l. hámarkslán til íbúðarhúsabygginga. Þetta er náttúrlega misskilningur, því að í frv. er það, að það má ekki lána yfir 60% af kostnaðarverði. Það eru hámarkslánin. En ég álít, að hámarkslán núna til þess að ná því marki mætti vera nokkuð hátt, því að ég geri ráð fyrir því, að hús, sem er sómasamlegt nú miðað við þá byggingarvísitölu, sem er, muni vart kosta undir 2 millj. kr. Og þá sjáum við, að þetta er lítill hluti af þeim kostnaði, og ég verð bara að segja það, að eins og þetta er orðið, þá sé ég ekki, hvernig bændur eiga að geta byggt yfir sig miðað við bæði fjáröflunarmöguleika og afkomumöguleika.

Ég vil endurtaka það, að ég harma, að ekki skyldi vera samstaða um það í nefnd að gera meiri skipulagsbreytingar en hún hefur gert. Ég heyrði það á ræðu hv. frsm., að það munu hafa verið skiptar skoðanir um þetta, enda ber grg. það með sér, að sumir hafa viljað ganga miklu lengra í því efni, en ekki er komið inn á það frekar á hvern hátt. Ég mun, þegar þetta kemur til n., beita mér fyrir því að fá ýmsu hér breytt frá því, sem það er, án þess þó að vilja tefja málið, því að það eru hér viss atriði, eins og ég sagði áðan, sem ég tel til bóta.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að ræða þetta frekar, en vil endurtaka það, sem ég áður hef sagt, að það er of litil hagræðing í þessum málum hjá okkur. Það væri áreiðanlega hægt að spara þarna ýmislegt og nota til nauðsynlegri hluta en til þess að hafa þarna þrefalt kerfi, sem á að þjóna alveg sömu málum.