04.03.1971
Neðri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það má kannske til sanns vegar færa, sem komið hefur fram hér við 1. umr. þessa máls, að hér sé frekar um það að ræða að samræma eldri l. nýjum aðstæðum en um það, að alveg ný lagasmíð sé hér á ferð. Ég tel, að meginatriðið í þessu frv. sé það að efla Landnám ríkisins og ákvarða því ný verkefni í samræmi við nýjar aðstæður og einnig að marka starfssvið Teiknistofu landbúnaðarins, sem samkv. frv. á að heita Byggingastofnun landbúnaðarins, og færa það nokkuð út á vissum sviðum. Ég tel það mjög mikilsvert að efla þessar stofnanir og fela þeim að hafa forustu um skipulagsmálin og leiðbeiningar- og ráðleggingarstarfsemi á skipulagningarsviðinu.

Höfuðbreytingin varðandi Landnám ríkisins er þó sú stefnubreyting, að það er horfið frá nýbýlastefnunni, býlafjölgunarstefnunni, þ.e. þeirri stefnu, sem leiddi af sér mikil skipti jarða, en aftur horfið að hinu, þ.e. að treysta byggðina með ýmsum hætti bæði skipulagslegum aðgerðum og fjármálalegum aðgerðum.

Rauði þráðurinn í frv. í heild er svo kannske það að vinna að eflingu innlendrar fóðurframleiðslu, sem að mínum dómi er eitthvert allra stærsta málið, uppistaðan í okkar landbúnaði. Þetta er gert. Það á að stuðla að þessu með ýmsu móti samkv. frv., t.d. með því að styðja félagsræktun og með því að styðja grænfóðurverksmiðjur. Þá er og ætlunin að treysta byggðina með stuðningi við ýmsar hliðargreinar. Það er tekinn upp stuðningur við varmaveitur bæði til hitunar íbúðarhúsa, til heyþurrkunar og til ræktunar í gróðurhúsum. Í sambandi við hugsanlega býlastofnun er gert ráð fyrir hvoru tveggja, þ.e. þeim möguleika að stofna býli, sem fyrst og fremst eru byggð upp með þeim venjulega búskap, sauðfjárrækt og nautgriparækt, og þá með nægilega mikið landrými til þess, að hægt sé að reka slíkan búskap af þeirri stærð, sem nauðsynlegt er til þess, að það geti veitt fjölskyldunni lífsviðurværi, og einnig er gert ráð fyrir því, að til greina geti komið að stofna býli með minni landstærð, ef þau hafa ýmsa aðra möguleika t.d. í sambandi við ræktun í gróðurhúsum, fiskeldi, smærri iðnrekstur í sveitum o.s.frv.

Ég var andvígur á sínum tíma þeirri stefnu, sem kom fram í bráðabirgðasparnaðarl., sem hér voru samþ. fyrir fáum misserum, þar sem gert var ráð fyrir að skerða tekjur og starfssvið Landnáms ríkisins. Ég var alveg andvígur því. Með þessu frv. er alveg horfið frá þeirri stefnu, sem kannske var engin stefna, heldur bráðabirgðaráðstöfun. Hér er alveg horfið frá því og blaðinu snúið við og Landnámi ríkisins og Byggingastofnun landbúnaðarins fengin ný verkefni og væntanlega gert kleift að sinna þeim, því að þetta frv. gerir ráð fyrir mjög auknum fjárframlögum til Landnáms ríkisins til þess, að það geti sinnt þessum nýju verkefnum. Það komu fram ýmis sjónarmið innan mþn. í sambandi við yfirstjórn landbúnaðarmálanna í heild, og má alltaf um það deila. En ég álít, að eins og nú standa sakir, sé það mjög eðlilegt að efla Landnámið til starfa og halda því sem sérstakri framkvæmdastofnun á þeim tilteknu sviðum, sem því er ætlað að vinna að. Það gefur svo auga leið, að þarna, eins og reyndar víða annars staðar, hljóta að verða ýmis landamerkjamál, sem að einhverju leyti grípa inn á svið tveggja eða fleiri stofnana. Ég lít svo á, að upphæð framlaganna hljóti alltaf að verða umdeilanleg og hljóti eðli málsins samkvæmt að verða til meðferðar meira og minna ár eftir ár og einkum á verðbólgutímum. Við samningu þessa frv. var, eins og raunar þegar hefur komið fram, farin samkomulagsleið um þau atriði, eins og auðvitað mörg önnur ákvæði þessa frv.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en ég vil láta það koma fram, að ég fyrir mitt leyti tel það mjög þýðingarmikið, að hv. d. hraði afgreiðslu þessa máls eftir því, sem fært þykir.