14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

3. mál, Landsvirkjun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er eingöngu fsp., sem hv. 1. þm. Norðurl. e. beindi hér til mín áðan í umr. um þetta mál. Verð ég að biðjast afsökunar á því, að ég varð að fara þá af fundi, áður en umr. var lokið, þar sem ég þurfti að tala fyrir öðru máli í hv. Ed.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. taldi eða spurðist fyrir um það, hvort það væri ekki óvenjulegt — jafnvel óeðlilegt — að gefa út brbl., svo skömmu áður en þing kemur saman og um jafn veigamikið fjárhagsmál og hér er um að ræða. Ég tók það fram, þegar ég mælti fyrir þessu máli hér, að ástæðan til þess, að þessi brbl. hefðu verið sett, svo skömmu áður en Alþ. kom saman, væri sú, að það hefði verið óumflýjanlegt að taka bráðabirgðalán, allverulegt lán, til þess að geta unnið að þeim vatnsmiðlunarmannvirkjum, sem unnið hefur verið að á þessu sumri í sambandi við Búrfellsvirkjun, og var þegar í upphafi, eins og hv. þm. gat um, gengið út frá því í umr. um þessi mál hér á Alþ., að þessi vatnsmiðlun yrði framkvæmd þarna og þær uppistöður gerðar, sem ætlunin er að kosta með þessu fé. Það má segja, að það hafi verið ógætilegt að hafa ekki þá þegar tryggt sér heimildir til lántöku fyrir Landsvirkjun í þessu sambandi. Því miður var það ekki gert, en ég taldi ekki, að það bryti á neinn hátt í bága við, heldur væri í fullu samræmi við þá stefnu, sem hefur verið mörkuð hér í Alþ., að þessum framkvæmdum yrði haldið áfram, hvað sem yrði svo umsíðari virkjanir. Ég gat þess einnig, er ég lagði brbl. fyrir Alþ., að þar hefði verið mörkuð sú stefna af ríkisstj. hálfu og það mál mundi koma til kasta Alþ. að halda áfram virkjunum í Þjórsá, og hefur þegar frv. um það efni verið lagt fyrir Alþ.

Hv. þm. spurði hvort vænta mætti svipaðrar meðferðar í fjáröflun til þeirra mannvirkja eins og hér hefur verið gert. Þess gerist engin þörf, vegna þess að í þeim l. er gert ráð fyrir lántökuheimild, sem nemur hvorki meira né minna en 5900 millj. kr., og ég vonast til þess, að það frv. hljóti sams konar móttökur eins og í hv. Ed. Þar var þetta mál samþykkt andstöðulaust, þó að menn áskildu sér rétt til þess síðar meir að ræða um, ef kæmi til einhverra sérstakra ráðstafana í sambandi við notkun þeirrar orku, þegar til kæmi, þá voru allir sammála um, að þetta vatnsorkuver væri nauðsynlegt að byggja.

Ég skal svara hv. þm. því, að þess munu ekki vera dæmi, svo að ég viti til, að áður hafi verið með brbl. veitt heimild til þess að ábyrgjast svo hátt lán. En ég hygg, að ég þurfi ekki heldur að taka það fram, að það er heldur ekkert mannvirki, sem hefur verið reist á Íslandi, sem hefur kostað neitt í námunda við Landsvirkjun. Og þar er því um að ræða svo stórkostlegar tölur á okkar mælikvarða, að það verður í rauninni ekki borið saman við neitt annað, sem áður hefur gerzt í þeim efnum. Ég tel, að hefði þarna verið um að ræða lántöku til framkvæmda, sem hefði mátt ætla, að um væri verulegur ágreiningur, hefði það verið vafaatriði, hvort átt hefði að samþykkja þær hér á hinu háa Alþ., þá hefði það verið mjög hæpið vægast sagt að leggja út í slíkar lántökur eða veita ábyrgð fyrir þeim með brbl. En ég tel að ekkert það hafi komið fram hér á þingi áður, þegar lýst var stefnunni í þessum málum, sem benti til þess, að það væri nokkur andstaða gegn því, að í þessi mannvirki yrði ráðizt — og hafi verið ráðizt á þessu sumri. Þess vegna var þetta gert, þar sem brýna nauðsyn bar til að tryggja sér lánsfé, áður en Alþ. kom saman, þó að það væri ekki nema mánuður, þar til það mundi verða.

Hv. formaður fjhn. hefur hér flutt brtt., sem ég fór fram á, að flutt yrði um það að breyta brbl. í það horf, að ríkisstj. væri veitt heimild til lántöku ríkissjóðs og til að endurlána Landsvirkjun þetta fé. Og þetta er gert vegna þess, að horfur eru á því, að því verði frekar horfið, að ríkissjóður bjóði út lán og endurláni síðan Landsvirkjun og yrði það þá hluti af stærra láni, sem þarf að taka til annarra framkvæmda, og mun verða nánar vikið að öðrum þætti þess máls, þegar kemur að 3. umr. fjárl. Þetta er ástæðan til þess, að óskað var eftir, að þessi brtt yrði flutt, sem ég vonast til, að hv. d. fallist á, vegna þess að efnislega er þar ekki um neina breytingu ræða, þó að þetta form sé á haft. Það hefði ekki verið sérstök þörf á því að fá þessa heimild, ef örugglega hefði verið vitað, að frv. um Landsvirkjun yrði að l. En þó skal það tekið fram, að það hefði þurft að fá heimildina með sérstakri breytingu á þeim lögum vegna þess að þar er aðeins gert ráð fyrir ríkisábyrgðaheimildum fyrir þær 5900 millj. kr., sem ég gat um, og er að sjálfsögðu í sambandi við þessar framhaldsvirkjanir gert ráð fyrir því að leita til Alþjóðabankans með þau lán til virkjananna sjálfra, en lán mundu ekki hafa fengizt þar til þeirra mannvirkja, sem unnið var að í sumar og þarf að vinna að nú næsta sumar og að er vikið í þeirri heimild, sem brbl. fjalla um.

Ég held, herra forseti, að það sé ekki ástæða til þess að hafa um þetta fleiri orð, og vænti, að ég hafi svarað því, sem hv. þm. spurði að í þessu sambandi, en skal aðeins að lokum taka það fram, að auðvitað er alltaf æskilegt að þurfa ekki að nota brbl.-heimild hvorki í þessu tilfelli né öðrum, en hér bar vissulega brýna nauðsyn til að gera það, til þess að ekki stöðvuðust mjög nauðsynlegar framkvæmdir, sem þá var unnið að og m. a. veittu mikla atvinnu á þessum tímum.