24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta mál til meðferðar, rætt það á mörgum fundum og kallað til viðtals landnámsstjóra og fleiri aðila. Einnig sendi n. málið til Búnaðarþings til athugunar. Það fjallaði um málið á venjulegan hátt í nefnd og á þinginu sjálfu, og fylgir umsögn þess með nál., prentuð sem fskj.

Landbn. varð ásátt um að mæla með samþykkt frv. með nokkrum breytingum þó. Stendur n. öll að brtt. á þskj. 606. En eins og segir í nál., þá hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt., og einn nm., hv. 5. þm. Norðurl. e., skrifaði undir nál, með fyrirvara. Einn nm., Eðvarð Sigurðsson, var ekki viðstaddur, þegar málið var afgreitt í n. Í samræmi við þetta hefur svo hv. 5. þm. Norðurl. e. flutt brtt. á þskj. 625, sem liggja hér fyrir auk till. frá n. sameinaðri.

Ég skal nú með örfáum orðum gera grein fyrir sameiginlegum till. n. Þær eru nokkuð margar, en sumar nánast orðalagsbreytingar eða leiðréttingar. Um fyrstu till. fjórar má segja í einu lagi, að 1., 2. og 4. till. eru nánast breytingar á orðalagi, en 3. till. er flutt vegna misritunar og er um það, að í staðinn fyrir „10%“ í síðari mgr. 23. gr. komi: 25%. Verður svo að vera til samræmis við nýsett l., þ.e. l. um Lífeyrissjóð bænda.

Þá er 5. brtt. við 43. gr. frv. um, að í staðinn fyrir „eitt ár“ komi: tvö ár. Er þar átt við þann tíma, sem liða skuli frá því, að jörð fer í eyði eða hætt er að búa á jörð og þar til formlega er ákveðið, að hún teljist eyðijörð. Við nánari athugun þótti n., sem það væri of skjótlega að gert að ákveða þetta eftir eitt ár, og leggur til, að fresturinn verði tvö ár.

Sjötta brtt. er nánast umorðun á ákvæðinu um bústærð, þegar menn stofna til félagsbúskapar, en þó er þar einnig efnisbreyting að nokkru leyti til samræmis við ábendingar Búnaðarþings. Í frv. er lagt til, að þeir, sem vilja stofna til félagsbúskapar, þurfi að hafa a.m.k. 3/4 af vísitölubúi hver um sig. En við nánari athugun þótti n. rétt að fella þetta niður, láta þetta óbundið og leggja í vald landnámsstjóra að meta það hverju sinni, hvað sé við hæfi fyrir félagsbúið.

Sjöunda brtt. er svo umorðun á ákvæðum um framlög til félagsræktunar. Eru ákvæðin með umorðuninni gerð nokkru skýrari en þau eru í frv. að dómi n.

Áttunda brtt. er eiginlega orðalagsbreyting. Felld er niður nánari skilgreining á því, þegar gróður eyðist í túnum. N. taldi ekki ástæðu til að hafa þá nákvæmu skilgreiningu á þessu, sem var í frv.

Um 9. brtt. má segja alveg það sama og um þá áttundu, að þar er aðeins um orðalagsbreytingu að ræða.

Tíunda brtt. er leiðrétting á prentvillu í fyrirsögn X. kafla. Þar stendur grænfóðurverksmiðja, en átti vitanlega að vera í fleirtölu og standa grænfóðurverksmiðjur.

Þá vil ég geta þess hér, af því að með því fylgi ég réttri greinaröð í frv., að landbn. hefur ákveðið að leggja hér fram skrifl. brtt. — ég hygg, að það sé ekki búið að prenta hana — við 56. gr. frv. um, að 2. málsl. síðari mgr. orðist svo: „Hver verksmiðja, sem stofnuð er á vegum Landnáms ríkisins, skal hafa þriggja manna stjórn.“ N. taldi það rétt, að þær verksmiðjur, sem nú hafa verið stofnaðar, geti fallið undir þessi l., t.d. geti þær notið stuðnings við endurbætur eða útfærslu á sínu vinnslukerfi, og í brtt. á þskj. 606, sem ég kem að hér á eftir, þá eru atriði, sem lúta að þessu. Hins vegar taldi n. ekki eðlilegt, að í slíkum tilvikum giltu þau ákvæði um skipun stjórnar, sem 56. gr. frv. annars felur í sér, og mun leggja fram þessa skrifl. brtt. þar um, sem ég lýsti áðan.

Ellefta brtt. á þskj. 606 er við 61. gr. Í 61. gr. frv. segir svo: „Grænfóðurverksmiðjur þær, sem nú þegar hafa verið stofnsettar, í Gunnarsholti og á Hvolsvelli, falla undir lög þessi.“ En n. leggur til, að þessi gr. orðist þannig: „Grænfóðurverksmiðjur þær, sem nú þegar hafa verið stofnsettar, falla undir lög þessi.“ Er þetta í samræmi við það, sem ég sagði áðan um þá skrifl. brtt., sem n. hyggst leggja fram.

Þá er 12. brtt. við 62. gr. Hún er afleiðing af 11. brtt.

Þá er 13. brtt. við 63. gr. um, að síðari málsl. fyrri mgr. orðist svo: „Þar af eigi minna en 7.5 millj. kr. til grænfóðurverksmiðja.“ Þetta er líka aðeins orðalagsbreyting, sem er í samhengi við þær till., sem ég lýsti hér á undan.

Þá er ég kominn að 14. og síðustu prentuðu brtt. frá n., en hún er um það að fella niður 74. gr. frv. Í þeirri grein er ákvæði um það, að ef ábúenda- og eigendaskipti verða á fasteign, sem veðbundin er Stofnlánadeild, þá skuli deildin hafa forkaupsrétt, nema um erfðaskipti sé að ræða, að svo miklu leyti sem það samrýmist l. um kauprétt á jörðum, segir hér. Og hér segir enn fremur: „Ef Stofnlánadeild eða sveitarstjórn kaupir jörð samkvæmt heimildum þessara laga, er þeim skylt að selja eða leigja jörðina gegn veði eða leigukjörum, er samsvara kaupverðinu.“ N. þótti rétt við nánari athugun að fella þessa grein niður. N. litur svo á, að allur réttur Stofnlánadeildar sé nægilega tryggður án þessara ákvæða. Þessi ákvæði hafa verið í l., en þau hafa aldrei verið notuð, og n. telur þau nánast óeðlileg og þó fyrst og fremst óþörf með öllu.

Þá hef ég lokið að gera grein fyrir brtt. landbn. Um aðrar till., sem fyrir liggja, skal ég vera fáorður, nema ef ástæða gefst til, eftir að flm. hefur gert grein fyrir þeim. Ég vil þó segja það, að auðvitað væri það æskilegt að mínum dómi, að framlög væru ákveðin nokkuð hærri en gert er í frv., og einnig að vísitölubinda framlögin. Þessi atriði voru rædd mikið í mþn. þeirri, sem fjallaði um þetta mál og ég átti sæti í. Það fékkst ekki samstaða um að hafa þessi framlög hærri en þau eru í frv. og heldur ekki um það að taka upp vísitöluákvæði í sambandi við greiðslu þeirra. Ég tel það að vísu galla og hefði talið hitt æskilegra, að framlögin hefðu verið hærri. En hins vegar lít ég svo á, að það sé mikil bót að því að fá nú lögbundin mörg þau ákvæði, sem í þessu frv. felast — þar með að fá uppteknar þær greiðslur, sem þar er um að ræða. Ég mun því fylgja frv., eins og það er, og styðja þær brtt. einar, sem unnt er að ná samstöðu um, því að mér skilst, að með öðru móti sé ekki hægt að tryggja þessu frv. framgang, en það tel ég þýðingarmikið. Ég minni á það, að Búnaðarþing mælir einnig með því, að frv. verði samþ., þó að það hins vegar leggi til, að á því verði gerðar ýmsar breytingar. Ég held, að ég þurfi svo ekki að hafa þessa framsögu lengri, en vil afhenda hæstv. forseta þá skrifl. brtt. frá landbn., sem ég lýsti áðan.