25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég held, að ég verði að gera örfáar aths. við ræður þeirra hv. þm., sem hér hafa talað, síðan ég flutti framsögu fyrir nál. í gær. Ég vil segja það fyrst, að ég er hv. 5. þm. Norðurl. e. þakklátur fyrir að hafa gert það fyrir okkur félaga sína að fylgja þessu frv., því að mér sýnist hann hafa látið þar nokkuð á móti sér af tóninum í ræðu hans að dæma. Hann óttast — og það kom fram hjá fleirum, að þeir óttast — að með þessu frv. sé aukið mikið vald Landnáms ríkisins. Ég held, að þetta sé algjör misskilningur, og skal koma nánar að því síðar.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði, að það lægi ekkert á að afgreiða þetta mál núna; það væri nógur tími til þess í haust. Þetta má nú vera, en um þetta hljóta þó að vera skiptar skoðanir. Nú eru fjárl. undirbúin að sumrinu í rn. a.m.k., ég tel það miklu tryggara að afgreiða málið nú og tryggja þessar 31 millj. kr., sem hv. þm. sagði, að þarna væri um að tefla, nú þegar, ef auðið verður. Þetta er að vísu ekki stór upphæð, en ef hún er laglega notuð, þá held ég þó, að það megi hafa nokkurt gagn af henni.

Hv. þm. gerði að umtalsefni það, sem hann kallaði tvíverknað og tvöfalt eða margfalt kerfi, og hv. 3. þm. Norðurl. v. kom líka inn á þetta í gær. Nú vil ég ekki neita því, að þetta eigi sér stað, ef frv. verður samþ. og framkvæmt, en þó ekki nema að litlu leyti og í miklum mun minna mæli en þessir hv. alþm. virðast álíta. Ég vil í sambandi við greiðslur á framlögum, en það er nú einkum þar, sem getur verið um tvíverknað að ræða, benda á það, að í 62. gr., sem um þau fjallar, eru greiðslur samkv. 1., 2., 3., 5. og 6. tölul. allar sérstaks eðlis. Þær eru því ekki greiddar annars staðar og þess vegna ekki um tvíverknað að ræða í sambandi við þær greiðslur. Aftur á móti varðandi 4. lið, þar sem ræðir um framlög til ræktunar, má þetta til sanns vegar færa. En ég geri ekki mikið með þetta. Það eru notuð sömu frumgögn til þess að reikna þetta út, skýrslur héraðsráðunautanna eru gerðar í fjölriti og notaðar á báðum stöðum, hjá Búnaðarfélagi Íslands og Landnáminu, svo að ég geri ekki mikið með þetta, en viðurkenni þó, að eðlilegt hefði verið að sameina greiðslurnar. En þó er það svo, eins og háttað hefur verið framkvæmd á greiðslu jarðræktarframlaga, að visst hagræði er í því fólgið fyrir þá, sem njóta þessara framlaga, að halda þessu fyrirkomulagi enn um stund. Og þar sem ekki varð samkomulag um það í mþn. að breyta þessu atriði, þá læt ég þetta gott heita að sinni.

Fyrsta brtt. hv. 5. þm. Norðurl. e. var um það að lækka 100 hektara markið, sem hér er sett sem meginregla um stofnun nýbýla. Og hv. 3. þm. Norðurl. v. kom einnig að þessu atriði. Ég vildi aðeins skýra þetta mál fyrir hv. þdm. með því að rifja upp ákvæði þessarar gr., 39. gr., sem um þetta fjallar. Þar segir svo:

„Ef um er að ræða býli, sem stofna skal til venjulegrar búvöruframleiðslu, skal að jafnaði miða við, að ræktanlegt land sé eigi minna en 100 ha.“ Síðan koma þessi frávik. „Þó er landnámsstjórn heimilt að víkja frá þessari landstærð, ef í staðinn koma t.d. beitilönd eða hlunnindi til lands og sjávar. Stofnun býlisins skal og því aðeins heimiluð, að þar með sé ekki raskað búrekstraraðstöðu nálægra jarða að mati landnámsstjórnar.“ Svo segir hér enn fremur: „Um landstærð við stofnun nýbýla af öðru tagi, sbr. 38. gr.,“ — það er þegar koma inn í hlunnindi eða önnur atriði — „skal fara eftir reglum, er landnámsstjórn setur. Umsóknum skulu fylgja meðmæli viðkomandi sveitarstjórnar og landnámsnefnda.“ Þær eiga nú eins og áður að starfa heima í hverri sýslu. Ég veit, að það má deila um þetta atriði, og ég skal ekki fjölyrða um það frekar, en bendi aðeins á hversu gr. er rúm þrátt fyrir það, að 100 ha. eru meginregla.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. flytur brtt. um hækkun framlaga, um að taka upp vísitölu og um að greiða til búnaðarsambandanna vissa prósentu af ræktunarframlögum. Það er satt, sem hv., þm. segir, að þessar till. eru allar fluttar í samræmi við uppástungur eða till. þær, sem bárust landbn. frá Búnaðarþingi. En um mína afstöðu og væntanlega nm. annarra en hans er það einfaldlega að segja, að þetta atriði var þrautrætt sérstaklega í mþn. og einnig nokkuð rætt í landbn., og þó að ég telji, að það hefði að vísu verið kostur að fá framlögin hærri en hér í frv., þá segi ég, eins og ég hef áður tekið fram, að ég mun fylgja frv., eins og það er, og styðja þær brtt. einar, sem samstaða næst um.

Þá er enn brtt. frá hv. 5. þm. Norðurl. e. um að fella niður gr., sem kveður svo á, að greiða skuli væga borgun fyrir þjónustu Byggingastofnunar landbúnaðarins. Ég tel þetta ekki mikilvægt atriði, og ég fyrir mína parta tel það ekki óeðlilegt, að þeir, sem byggja, greiði lítils háttar þóknun fyrir veitta þjónustu hjá Byggingastofnun landbúnaðarins, og ég hygg, að þannig sé þetta víða. Og það tel ég kost, að þessu fé er ætlað að renna til mjög þýðingarmikilla hluta, sem hafa ekki enn a.m.k. verið ræktir eins og skyldi. Byggingastofnun landbúnaðarins er ætlað að greiða kostnað af rannsóknum byggingarfræðilegs eðlis, en þeim fjármunum, sem koma í gegnum þessar greiðslur, er ætlað að styðja að framkvæmdum á tilteknum nýjungum, sem Byggingastofnunin kynni að mæla með, að reyndar yrðu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um brtt. hv. 5. þm. Norðurl. e., en vil víkja að ræðu, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti hér í gær. Hann flutti að vísu engar brtt., en eigi að síður vil ég víkja örfáum orðum að hans ræðu.

Ég hygg, að flestir hv. þm. hafi lesið kvæði þau, sem Örn Arnarson gerði á sínum tíma um Odd sterka, og ég held, að ef sá góði listamaður hefði verið uppi nú og hefði tekið sér fyrir hendur að færa í rím ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., þá hefði það ekki orðið verri ríma en Dómadagsræða Odds sterka. Ef hv. þm. hefði verið nokkur alvara, þá átti hann náttúrlega að gera sínar ábendingar við 1. umr. málsins og flytja síðan brtt. við 2. umr. þess. En ég hygg satt að segja, að það hafi litil alvara verið á bak við tal hv. þm. í gær, þegar hann flutti sína ræðu. Ég held það.

Hann ræddi margt um II. kafla þessa frv., sem fjallar um Stofnlánadeild landbúnaðarins, en á þeim kafla eru engar breytingar gerðar, og það var ekki í verkahring mþn. samkv. þáltill., sem samþ. var hér í fyrra og hún starfaði eftir, að fjalla um þann kafla l. Það voru því aðeins gerðar leiðréttingar á II. kafla. Ég skal ekki fara frekar út í það.

Hv. þm. talaði mikið um 27. gr. þessa frv., sem er óbreytt frá því, sem verið hefur í l. Út úr þeirri gr. þóttist hv. þm. lesa það, að það ætti að setja upp tvöfalt ráðunautakerfi, þ.e. ráða nýja ráðunauta fyrir Landnám ríkisins. Ég veit ekkert, hvernig hann fer að lesa þetta út úr þessari gr. Það hefur a.m.k. engum öðrum tekizt enn, þó að þessi gr. sé búin að standa óbreytt efnislega líklega í áratugi, heldur hefur verið farið eftir henni eins og hún er orðuð, þ.e. að í landnámsnefndum, sem nú eru kallaðar, voru kallaðar nýbýlanefndir áður, hafa héraðsráðunautarnir verið skipaðir formenn, eins og segir í þessari gr., að eigi að gera. Engum lifandi manni, sem hefur fjallað um framkvæmd l., hefur dottið annað í hug. En nú kemur hv. 3. þm. Norðurl. v. og les það út úr þessari gr., að það eigi að ráða sérstaka ráðunauta fyrir Landnám ríkisins. Ég held, að það megi hafa um þetta hans eigin orð og segja, að þetta sé tóm vitleysa. En svona var ýmislegt fleira í þessari ræðu. Ég tók eftir, að hann var að tala um 120 þús. kr. lán, og það er nú víst hvergi talað um það í frv., heldur 120 þús. kr. framlag. Og einhvern tíma kallaði hann þetta frv. bústofnslánadeildarlög. Ég veit heldur ekki, hvaðan hann hefur það heiti.

Hann gerði mikið úr 45. gr. frv., þar sem fjallað er um ábúendaskipti. Það var auðheyrt, að hann hafði ekki ómakað sig til þess að lesa aths. við þessa gr., sem fylgja frv. og sem menn yfirleitt kynna sér, ef þeir fara að ræða um mál í einstökum atriðum. Hann hefur ekki ómakað sig til þess, en þar kemur það skýrt í ljós, að það er ekki ætlazt til þess, að landnámsstjóri hafi afskipti af ábúendaskiptum, ef þau fara fram með venjulegum hætti, heldur aðeins ef erfiðlega gengur að byggja jörðina. Nú er þetta eins og fleira ekkert nýmæli, heldur hefur þetta ákvæði verið í gildi árum saman, og mér vitanlega aldrei komið til neinna árekstra í sambandi við það. Það er og hefur verið ætlazt til þess, að Landnámið geti gert ráðstafanir til þess að stuðla að því, að búseta haldist ellegar þá hagkvæm nýting á viðkomandi jörð á annan hátt, ef það þykir henta. Hins vegar er í þessu frv. lítils háttar þrengt að Landnáminu, og því eru ekki gefnar alveg eins frjálsar hendur og áður einmitt varðandi þetta atriði.

Hv. þm. talaði mikið um ægivald Landnáms ríkisins, eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. kom líka inn á áðan. En ég segi, að á valdsviði og valdi Landnáms ríkisins er engin afgerandi breyting í þessum I. Það er hins vegar meginbreyting varðandi starfsemi Landnámsins, að það er horfið frá nýbýla- og jarðaskiptastefnunni eins og hún hefur verið rekin, en tekin upp ný viðfangsefni þess í stað, félagsræktun, grasmjölsverksmiðjur o.s.frv. Landnámi ríkisins er falin skipulagsleg forusta að vissu marki, sem það og hafði áður. Á því er engin teljandi breyting. En þetta er í vissum atriðum útfært nokkru nánar nú en var í fyrri l. Og ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að þau eru margtengd í þessu frv., eins og áður var í l. um afskipti Landnámsins í ýmsum tilvikum, aðilum heima í héruðum, hreppsnefndum, landnámsnefndum og fleiri aðilum. Og þetta skipulag er ekki alveg ólíkt því, sem hugsað er í frv. okkar framsóknarmanna um Byggðajafnvægisstofnun ríkisins. Það er ekki alveg ólíkt því. Þar er formuð stofnun til þess að hafa yfirumsjón og fylgjast með, en mjög rækilega gengið frá því að tengja hana og hennar athafnir aðilum heima í héruðum.

Ég verð að láta það koma hér fram, að ég kann ákaflega illa við, ef það kemur fyrir — ég er ekki að segja, að það komi oft fyrir, en það kemur fyrir í ræðum hv. 3. þm. Norðurl. v. — að þm. ráðast með sleggjudómum á stéttir manna eða einstaka menn, sem ekki eru í þingsölum og ekki geta svarað fyrir sig. Ég segi þetta í tilefni af þeim ummælum, sem hv. þm. lét sér sæma að taka sér í munn í gærkvöldi í sambandi við héraðsráðunautana. Ég kann slíku mjög illa. Hlutverk þessara manna er vitanlega það, eins og allir eða hér um bil allir vita mætavel, að kynna sér eldri og yngri reynslu og viða að sér sem mestum fróðleik, og síðan er það þeirra starf að miðla þessum fróðleik út til þeirra manna, sem þeir eiga að starfa fyrir. Þetta er allt og sumt. Þetta er mergurinn málsins, og þetta er þörf starfsemi, og hún er viðurkennd af nálega öllum landsmönnum. Ef eitthvert mark væri tekið á fordæmingu hv. þm. um þessa starfsemi — um þessa menn, þá væri óhætt að leggja niður Búnaðarfélag Íslands og starfsemi búnaðarsambandanna, sem er leiðbeiningastarfsemi að mjög miklu leyti. Ég veit, að það er algengt, og ég kannast kannske svolítið við það sjálfur, að við, sem höfum lítið farið í skóla, höfum vissa minnimáttarkennd gagnvart þeim, sem lært hafa töluvert miklu meira en við í skólum, en menn fara þó misjafnlega vel með það.

Ég ætti nú kannske ekki að eyða miklu fleiri orðum að ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Það er yfirleitt ekki venja hér á hv. Alþ. að eyða miklum tíma í ræður á borð við þá, sem hann flutti hér í gær, en hún var með sama marki og margar fyrri ræður hans. Ég hef stundum séð, að bókmenntagagnrýnendur taka sig til og telja í verkum skálda viss orð, t.d. hvað oft komi fyrir blátt í þessum og þessum ljóðaflokki eða rautt eða önnur lýsingarorð, og þykjast geta af því markað innri gerð verksins. Ég held, að það gæti verið fróðlegt að telja í ræðum hv. þm., hvað oft koma fyrir orðin vitlaus, vitleysa og brjálæði, og það gæti e.t.v. orðið lærdómsríkt, sem lesa mætti út úr þeirri talningu. En í gær tók þm. einmitt eina svona rispu. Hann t.d. úrskurðaði vitlaust að hafa gríndur í fjárhúsum! Þetta er broslegt. Auðvitað er þetta breytilegt eftir veðurfari og fóðrun og öðru, en víða um land er útilokað að hirða féð, svo að nokkur glóra sé í, öðruvísi en að hafa grindur í fjárhúsum. Og svo sló hann því föstu, að það vitlausasta, sem hægt væri að gera, væri að rífa upp kalið land. Þetta er líka alveg staðháttabundið. Það eru ýmis skilyrði, sem þarna koma til greina og einnig hitt, hvað hver bóndi getur beðið lengi eftir því að fá eitthvað upp úr sínu landi. Sumir geta beðið og látið landið gróa upp, en aðrir verða að brjóta landið til grænfóðurræktar og fá uppskeru strax. Þetta er alger sleggjudómur að slá svona fram. Og svo sagði hann, að heyþurrkun með hitun, t.d. með hverahita, væri hrein vitleysa. Auðvitað veit þessi hv. þm. ekki nokkurn skapaðan hlut um það. Hins vegar er ég svona innst inni nokkuð sammála honum í því, að heyverkun með þurrkun, sérstaklega ef á að kaupa til þess olíu austan úr Kákasus, er ekki skynsamleg. Það er hins vegar margföld reynsla fyrir því, að það er bægt að verka hey beint af jörðinni með góðum árangrí, og það álít ég, að sé sú góða og skynsamlegasta lausn. En mér dettur þó hreint ekki í hug að fullyrða, að allt annað sé tóm vitleysa. Svo segir þessi hv. þm., að súgþurrkun sé undantekningarlítið fullnægjandi. Er hann búinn að gleyma sumrinu 1969, þegar flestallar sveitir landsins voru útvaðnar í hröktu heyi. Og svo eru það grasmjölsverksmiðjurnar. Þær væru tóm vitleysa og heykögglar alger vitfirring! Ég skrifaði þetta hjá mér. Og svo bætti hann við, að það væri kannske rétt að hafa örfáar verksmiðjur samt. Hverju þjónar eiginlega svona málflutningur? Nei, ég spyr nú bara, en ég ætla mér ekki að svara því. Seinast sagði hv. þm., að þetta frv. væri „meinleysisbull og hálfgert til skammar að sýna það á þinginu.“ Ég held, að ég hafi náð því alveg orðrétt.

Nú er náttúrlega ekkert við það að athuga, þó að einstakir þm. hafi svona skoðanir eða ámóta á einstökum frv. Ég get auðvitað ekkert sagt við því. En hitt held ég, að flestir hv. þm. séu sammála um, að þessi einkunn eigi við annað fyrirbæri hérna á Alþ., og þá á ég við ræður þessa hv. þm. Ég held, að hún eigi alveg við þær, og ég held það sé hæpið að hafa þær um hönd hér á hv. Alþ. Og þó, kannske! Nú þykir það góð latína að halda til haga sjaldgæfum eintökum úr ríki náttúrunnar, dauðum og lifandi. Ég veit ekki, hvort þá er athugavert, að Alþ. sýni í verki skilning sinn á þeirri grein náttúruverndar.