14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

3. mál, Landsvirkjun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég heyrði ekki alveg til enda ræðu hv. þm. í fyrra skiptið, sem hann talaði hér, þannig að það getur verið, að það hafi farið fram hjá mér, hvað hann sagði síðast, og bið ég afsökunar á því, ef ég hef misskilið það. Það, sem hann segist hafa spurt að, er, hvort ég telji eðlilegt, þegar að því kemur að halda áfram þeim virkjunarmannvirkjum, sem gert er ráð fyrir í frv. því til l. um breytingu á l. um Landsvirkjun, sem nú liggur fyrir Alþ., að heimila með brbl. ríkisábyrgð fyrir láni umfram það, sem þar er ákveðið. Ég álít, að það sé ekki eðlilegt, að í sambandi við svo stórar ákvarðanir, eins og þar er um að ræða, verði það gert með brbl., þegar verður ráðist þar í næstu áfanga, enda hygg ég, að þeir muni eiga sér þann aðdraganda, að þess verði ekki nokkur þörf.

Hv. þm. spurði einnig að því, hvort þetta væri ekki einmitt þáttur í hinum nýju virkjunarhugmyndum, sem hér hefði verið unnið að í sumar og þetta lánsfé ætti að ganga til, eins og frv., sem nú er til umr., gerir ráð fyrir, og þá er því þar til að svara, að það er bæði til afnota fyrir núv. virkjun við Búrfell og einnig framhaldsvirkjun. Að þessu er vikið í grg. með frv. um breytingu á Landsvirkjunarl., sem hér liggur fyrir Alþ., að þessar miðlunarframkvæmdir hafi verið nauðsynlegar, bæði til öryggis fyrir Búrfellsvirkjun sem slíka og einnig þær framhaldsvirkjanir, sem ætlunin er að ráðast í. Og ég hygg því, að það megi svara því þannig — án þess að ég hafi nægilega þekkingu til þess, eins og hv. þm. vék að, þá er það ekki mitt fag beinlínis að þekkja nákvæmlega þær fyrirætlanir, sem eru uppi í sambandi við þessar virkjanir — að það, sem unnið hefur verið að á þessu sumri og ríkisábyrgðarheimildin átti að notast til, hefur verið þáttur í þeim virkjunarframkvæmdum, sem nú er unnið að, og einnig þáttur í því, sem var vitað, að mundi verða nauðsynlegur undirbúningur að frekari mannvirkjum. Jafnframt hefur verið unnið að hönnun frekari mannvirkja og öðrum framkvæmdum, sem eru mjög kostnaðarsamar og nauðsynlegt var að hafa fé til, og það hefur komið fram í umr. um þetta mál, að það mun vera full þörf á því að halda þessum framkvæmdum öllum áfram með fullum hraða, til þess að ekki komi til orkuskorts hér á Landsvirkjunarsvæðinu á sínum tíma. Ég vonast því til, að við skiljum hvor annan, við hv. þm.

Hins vegar skal ég ekki segja um það, hvort hægt sé að segja, að það sé eitthvert óeðlilegt brot á reglum um ríkisábyrgðir að veita ríkisábyrgðir, þegar þær eru komnar yfir visst mark, en ekki innan tiltekins marks. Það get ég nú ekki séð, að skipti höfuðmáli. Það veltur að sjálfsögðu á því, hvort verið er að veita ríkisábyrgðir í samræmi við það, sem þegar hefur verið ákveðið af hálfu Alþ. og ætla má, að sé í fullu samræmi við það, sem sé sú meginstefna í framkvæmdum, sem ríkjandi er á Alþ. Það auðvitað skiptir höfuðmáli. Hitt væri ábyrgðarleysi að fara að ábyrgjast lán til framkvæmda, ef gera mætti ráð fyrir, að niðurstaðan yrði sú, að Alþ. vildi alls ekki fallast á, að það hefði verið rétt að farið að ráðast í slíkar framkvæmdir. Þá hefði vissulega ríkisábyrgð verið veitt af fyrirhyggjuleysi.