06.04.1971
Efri deild: 94. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

242. mál, lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. með frv., er það flutt að beiðni bæjarstjórans í Hafnarfirði og sveitarstjórans í Garðahreppi, og vísa ég til þeirra fskj., sem prentuð eru með frv., en nýverið hefur á hinu háa Alþ. verið gengið frá heimild til að selja Hafnarfjarðarbæ hluta úr jörðinni Dysjum. Þetta frv. er fyrst og fremst afleiðing af þeirri breytingu, sem þar var gerð, og lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar breytist til samræmis við þær breytingar, sem ég gat um í sambandi við umgetna jarðarsölu.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur skilað áliti, þar sem n. mælir einróma með samþykkt frv., en eins og fram kemur á þskj. 844, var einn nm., Jón Árm. Héðinsson, fjarstaddur vegna veikinda.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði samþ.