31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

303. mál, sérfræðileg aðstoð fyrir þingflokka

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka og er flutt af einum þm. úr hverjum núv. flokki þingsins. Efni þess er það, að í framtíðinni skuli greiða þingflokki tiltekna lágmarksfjárhæð og að auki ákveðna upphæð fyrir hvern þm. til að kosta sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokkinn og þm. hans við þingstörf. Gert er ráð fyrir því, að utan flokkaþm. fái sömu upphæð og greidd er hverjum þm. þingflokks.

2. gr. kveður svo á, að á fjárl. skuli hverju sinni ákveða, hve miklar upphæðir skuli renna til þingflokkanna í samræmi við þetta frv., ef að I. verður.

Þá er í 3. gr. skilgreint, hvað þingflokkur er, þ.e. samtök tveggja eða fleiri þm., sem eru fulltrúar stjórnmálaflokks, sem hefur komið á fót landssamtökum.

Síðari gr. fjalla um ýmis tæknileg atriði, og vil ég sérstaklega benda á 6. gr., sem hermir, að formenn þingflokka skuli árlega senda forsetum þingsins grg. um ráðstöfun þess fjár, sem þeir veita móttöku skv. I. þessum, eftir nánari reglum, sem forsetar setja.

Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir, að á þessu ári skuli varið 3.4 millj. kr. í þessu skyni, en það mundu verða um 200 þús. kr. til hvers þingflokks og síðan 40 þús. kr. til hvers þm., eins og segir í grg.

Með þessu máli mundi Alþ. fara inn á nýjar brautir, það hæfi fjárhagslega aðstoð til þingflokka. Þess er þó að minnast, þegar mál þetta er íhugað, að hér er Alþ. ekki að brjóta upp á nýjung, ef miðað er við önnur lönd, heldur að taka upp ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar í mismunandi mæli - og sums staðar allmiklum — í svo til öllum nágrannalöndum okkar.

Ég skal ekki orðlengja um það hér, hvers vegna þjóð eftir þjóð hefur farið inn á þessa leið, en hitt er hverjum manni ljóst, sem hér situr, að pólitísk starfsemi hefur með hverju ári orðið flóknari óg erfiðari, svo að tilkostnaður hefur orðið meiri og meiri, og þörfin fyrir sérfræðilega aðstoð hefur farið vaxandi með hverju ári. Ég geri ráð fyrir því, að öllum hv. alþm. sé ljóst, að vandamál geta verið jafnmörg og jafnflókin í litlu þjóðfélagi eins og stóru. Ef þörf er að leita nokkurra frekari röksemda fyrir því, að Alþ. eigi að fara inn á þá braut, sem frv. leggur til, bið ég menn að lita yfir þingstörfin undanfarnar vikur og íhuga, hvernig þau eru í þinglok að þessu sinni. Svo hefur að vísu verið á flestum þingum áður, en reynslan nú er okkur óneitanlega nærtæk.

Ég vil geta þess, að þótt frv. komi seint fram, á það sér langan aðdraganda. Viðræður hafa farið fram, að ég hygg, í nokkur misseri milli stjórnenda þingflokkanna eða fulltrúa þeirra um þetta mál, þ.e. hvort rétt sé að taka það upp og hvernig rétt sé að haga því. Frv. var samið af fulltrúum allra þingflokkanna, og verður því ekki annað sagt, en hæstv. Alþ. hafi þegar gefizt mjög gott tækifæri til þess að íhuga málið og fjalla um frv., áður en það komst á það stig, að samkomulag næðist um að flytja það. Tel ég, að þetta sé allgóður grundvöllur undir því, að óskað er eftir hraðri afgreiðslu, þannig að frv. geti orðið að l. á þeim fáu dögum, sem eftir eru til þingloka.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.