06.04.1971
Efri deild: 94. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

303. mál, sérfræðileg aðstoð fyrir þingflokka

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft þetta mál til meðferðar, og eins og nál. á þskj. 848 ber með sér, hafa allir þeir nm., sem viðstaddir voru, þegar málið var afgr., orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt.

Ég vil aðeins vekja athygli hv. þdm. á því, að með þessu frv. er lagt inn á nýja braut, þar sem um er að ræða framlög til stjórnmálaflokkanna af opinberu fé. Það er að vísu í frv. gert ráð fyrir því, að þessum fjármunum verði varið til þess „að kosta sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokkinn og þm. hans við þingstörf“, eins og það er orðað. En sérfræðileg aðstoð er teygjanlegt hugtak. Ég hygg, að varla sé ágreiningur um það, og í því sambandi má t.d. nefna, að áróður og áróðurstækni er sérgrein eins og ég ætti ekki sízt að kannast við sem prófessor í viðskiptafræði, þar sem ákveðin tegund áróðursstarfsemi, sem er sölutækni og auglýsingastarfsemi, er mikilvæg grein, þó að ég fáist ekki við slíkt, þannig að í framkvæmdinni býst ég við, að þetta muni verða þannig, að þessum fjármunum verði varið til almennra þarfa viðkomandi flokka, og er ég í sjálfu sér ekki að gagnrýna það, eins og mun koma í ljós af því, sem ég segi í örfáum orðum hér á eftir.

En það, sem er ástæðan til þess, að ég vek athygli á þessu, er, að þegar farið er inn á þessa braut, sem ég geri ráð fyrir, að verði aðeins fyrsta sporið, er ljóst, að þær fjárhæðir, sem hér er um að ræða og vissulega eru ekki stórar samanborið við veltu ríkissjóðs, muni á næstu árum hækka mjög. En þá finnst mér eðlilegt, að sú spurning vakni, hvort líta eigi svo á, að áróðursstarfsemi, sem rekin er fyrir slíkt fé, sé í samræmi við lýðræðishugsjónina eða henni andstæð. Jafnvel í Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem meira fé mun lagt í kosningabaráttu en nokkurs staðar annars staðar — og á það jafnvel við um hina innri baráttu innan flokkanna, því að allir vita, að ekki þýðir þar fyrir félausa menn að fara í prófkjör fyrir flokkana — eru þó, eftir því sem ég bezt veit, settar skorður við því, hve miklu fé flokkarnir megi verja til kosningabaráttu. Eins og ég sagði áðan, má ekki skilja það, að ég vek athygli á þessu, þannig, að ég telji eftir þá peninga, sem flokkarnir fá með þessu frv. Þvert á móti tel ég slíkt sanngjarnt með tilliti til þess m.a., að litlir flokkar hljóta alltaf að standa höllum fæti gagnvart stórum, hvað fjármagn snertir. Því má telja það sanngjarnt, að metin séu jöfnuð nokkuð með þessu móti. En þegar ég tala um, að litlir flokkar standi höllum fæti gagnvart þeim stærri, þá á ég við það, að áróður, sem ná á til kjósenda í heild, er auðvitað jafnkostnaðarsamur fyrir litla flokka og stóra, en það eru þá færri, sem verða um það að standa straum af þessum kostnaði.

En mér finnst einmitt í sambandi við þetta full ástæða til þess að vekja athygli á þessu grundvallaratriði, um leið og inn á þessa braut er farið, að hve miklu leyti það er talið samrýmast lýðræðishugsjóninni, að fé sé borið í dóm kjósendanna, og á ég þar auðvitað ekki við, að mönnum sé mútað til að greiða atkv. á ákveðinn hátt, heldur hitt, að öll áróðursstarfsemi verður fyrst og fremst spurning um fjármagn. Ég vil aðeins að lokum segja það, að ég veit ekki, hvort þjóðin mundi tapa svo miklu, þó að farin væri í þessu máli „hin leiðin“, ef svo mætti segja, þ.e. að takmarka þá fjármuni, sem lagðir eru í áróðursstarfsemi, því að það einkennir einmitt áróðurinn samanborið við hlutlausa upplýsingastarfsemi, að hann skírskotar fyrst og fremst til tilfinninga fólksins, en ekki til skynseminnar, svo að miklu af þeim fjármunum, sem þannig er varið, mætti að mínu áliti ráðstafa á hagnýtari hátt. Að öðru leyti, herra forseti, leggur fjhn. einróma til, að frv. verði samþ.