10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

191. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 314 frv. ásamt 7. þm. Reykv. um breyt. á l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks, en Byggingarsjóður aldraðs fólks var stofnaður með l. 20. apríl 1963, og var hlutverk sjóðsins samkv. þeim I. að stuðla með lánveitingum að því, að byggðar verði hentugar íbúðir fyrir aldrað fólk. Tekjur þessa sjóðs eru samkv. l. ágóði af Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna samkv. ákvæðum þar um í l. um happdrættið og svo frjáls framlög eða aðrar tekjur, sem til kunna að falla og vaxtatekjur af sjóðseigninni.

Í l. um Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna eru ákvæði um það, að 60% af hagnaði happdrættisins fari til byggingaframkvæmda á vegum Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, en 40% af hagnaði happdrættisins verði lagt til þessa sjóðs, sem ég hef hér minnzt á, Byggingarsjóðs aldraðs fólks. Þann 30. apríl 1970 nam framlag Happdrættis Dvalarheimilis aldraðra sjómanna til Byggingarsjóðsins um 13.2 millj. kr. eða nánar tiltekið frá 1. maí 1963 til 30. apríl 1970, og vextir af þessari eign námu 1558 þús. kr. Lánveitingar úr sjóðnum hafa engar verið fyrr en á árinu 1970, að tvö lán voru veitt, annað til borgarstjórnar Reykjavíkur, 2.2 millj. kr., og hitt til bæjarstjórnar Akureyrar, 2 millj. kr. Við teljum eðlilegt, flm. þessa frv., að eins og stórum hluta teknanna er varið til byggingar dvalarheimila aldraðra á vegum sjómannasamtakanna þá megi einnig gera breytingu á þessum lögum, og við teljum eðlilegt, að þar sé gengið það langt, að 50% af tekjum sjóðsins megi verja sem styrk til byggingar elliheimila eða dvalarheimila úti um landið, en 50% verði áfram heimild til þess að lána í sama skyni. Alveg eins og hægt er að fá jafnmiklar tekjur af happdrættinu til byggingar dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn, sem hefur nú aðallega og eingöngu til þessa verið hér í Reykjavík, þá teljum við eðlilegt, að aðrir staðir komi til með að njóta þess í framtíðinni.

Hins vegar er okkur það alveg ljóst og vafalaust öllum þm., að tekjur þessa sjóðs eru allt of litlar og það þarf að gera gangskör að því að auka mjög verulega tekjur Byggingarsjóðs aldraðs fólks þannig, að hann komi að verulegu gagni fyrir þau áform víða um land að byggja elliheimili, því að á því er brýn þörf. Og það hefur verið hafin söfnun á nokkrum stöðum úti um land til þess að byggja elliheimili, en engin löggjöf er um það, að ríkissjóður eða sjóður á vegum ríkisins styrki þessar byggingar, og fyrsti vísirinn til styrkveitinga úr opinberum sjóði er því þetta frv., sem við flytjum hér um breytingar á Byggingarsjóði aldraðs fólks. Á þessu stigi töldum við ekki rétt og vorum ekki tilbúnir til þess að flytja brtt. við 3. gr. I. um tekjur sjóðsins, en við höfum það mjög í huga — og vafalaust fleiri þm. — að leggja til a.m.k. á næsta Alþ., þ.e. þeir okkar, sem eiga þá hingað afturkvæmt, að efla mjög verulega þennan sjóð.

Ég vænti þess, að hv. þm. þessarar d. taki þessu frv. af skilningi og vona, að það fái góða og fljóta afgreiðslu hér í hv. þd., og legg til, að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.