05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. boðaði þér áðan brtt., sem hann hefur lagt fram við það mál, sem hér er til umr., og gat þess réttilega, að ég hefði verið einn af flm. með honum fyrri partinn í vetur, þegar frv. sama efnis og hann boðaði, að hann mundi nú flytja í brtt.-formi, var hér rætt og sent til hv. fjhn. Hann komst þannig að orði, að hann hefði ekki um þetta meira frétt, og taldi, að þar með væri frv. týnt, en ég verð að segja það, að þegar þessi hv. þm. er búinn að hafa allan veturinn til þess að fylgjast með málinu og kannske reka á eftir því, þá tel ég mjög vafasamt, að hann nú við — (Gripið fram í.) Ég minnist þess ekki, að hv. þm. hafi talað við mig. (Gripið fram í.) Já, ég segi það. En ég sé, að það er ákaflega hæpið nú, þegar við erum með þetta mál, sem var sent til okkar frá Ed., og síðasti klukkutími þingsins, áður en því verður slitið nú að þessu sinni, er að renna upp, að ætla að fara að flytja brtt. við það, sem við vitum ekki, hvort Ed. vill fallast á, ef hún fær málið þannig úr garði gert frá okkur hér í þessari hv. d.

Ég hafði vaðið fyrir neðan mig, þegar ég fékk samþykkta í n. brtt. um aðra gildistöku á l. Ég talaði þá við flm. till. í Ed. og féllst hann á það, að þessi breyting yrði gerð, þannig að það er tryggt, að sú breyting á ekki að þurfa að stoppa málið, ef það fer hér í gegnum þessa d. og til Ed. aftur. En ég mundi ekki þora að segja, hvernig færi, ef ætti að fara að taka þessa till. til viðbótar. Þó að ég sé henni fyllilega samþykkur í alla staði, kemur nú Alþ. saman að hausti aftur, og þá er hægt að taka aftur upp á nýtt það sérstaka mál, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. var hér að boða, en ég mundi telja það mjög hæpið, að við gerðum þessa breytingu nú án þess að hafa hugmynd um, hvort Ed. vill á hana fallast, því að af einhverjum ástæðum hefur þetta frv. stoppað hér í þessari hv. d. Það hefur stoppað hjá fjhn., og ég geri ráð fyrir, að það sé vegna ágreinings eða misjafnra skoðana, sem hafi verið á málinu og ekki komið út úr n. Það er það langt, síðan það fór til n., að ef það hefði verið einróma samþykki um það, þá hefði það án efa komið þaðan út og væri komið hér í gegnum þessa d. og sennilega í gegnum þ. sem samþ. En að fara að taka nú upp á allra síðustu stundu ágreiningsmál eða mál, sem maður veit ekki, hvort er ágreiningur um eða ekki, en getur ætlað, að sé ágreiningur um það. Ég er ákaflega hræddur um, að það verði til þess að fella þetta mál líka. Og ef við meinum eitthvað með því, sem við erum að samþykkja og erum nýbúnir að gera í heilbr.- og félmn., þ.e. að standa saman að því að afgreiða málið frá okkur hingað til d. með þeirri einföldu breytingu, sem gerð var og sem fyrir fram var vitað, að flm. a.m.k. mundi lýsa yfir, að hann væri samþykkur, ef það kæmi til d. aftur, þá hygg ég, að það sé hæpið fyrir okkur að ganga lengra en það, ef við ætlum að fá þetta mál í gegn.