05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Sunnl. og hv. 4. landsk. þm. hafa talað í þessu máli. Hv. 3. þm. Sunnl. var undrandi yfir því, að ég skyldi koma með brtt. mína og telur, að þessi brtt. mín geti stefnt málinu í tvísýnu. Ég vona, að svo verði ekki. Og hv. form. heilbr.- og félmn. þurfti ekki að vera neitt hissa á því, að það kæmi brtt. fram, því að það var bókað í fundargerð á fundi sem hann stjórnaði. Og í nál., sem fylgir frá heilbr.- og félmn. segir, að SV og JK áskilji sér rétt til að fylgja eða flytja brtt. við frv. Svo bara af þessum ástæðum þarf enginn að vera undrandi yfir því, þó að það komi nú brtt. fram.

Það, sem fyrir mér vakir, er það að fá úr því skorið hér á Alþ., hvort Alþ. vill verja rúmlega milljón krónum til þess að birta í sjónvarpi, hljóðvarpi, blöðum og víðar, þar sem við verður komið, upplýsingar um hættu al tóbaksreykingum. Hvenær átti ég að koma með þessa brtt.? Ég o.fl. þm. flytja frv. fyrir áramót um þessi mál; það hefur ekki verið á dagskrá enn. Þetta er fyrsta tækifærið, sem ég fæ. Og það má vel vera, að einhverjum sýnist svo, að það sé teflt í tvísýnu, en ég vona, að svo verði ekki. Ég vona bara, að hv. alþm. geti staðið frammi fyrir þeim vanda að greiða atkv. með eða á móti þessari brtt. Það er til umr. hér nú breyting á l. um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, og þá finnst mér ósköp eðlilegt, að það sé gengið þannig til verks, að þm. fái að greiða atkv. um þær till., sem liggja fyrir Alþ. um breytingu á þessum l. Mér hefur verið réttilega bent á það, að í brtt. minni sé ekki talað um bann á tóbaksauglýsingum í kvikmyndahúsum, og það er alveg rétt, en það er vegna þess, að ég tók orðrétt upp úr frv. hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar, 5. landsk. þm., en ég mun verða við tilmælum hv. 4. landsk. þm. um að taka þessa breytingu til baka til 3. umr., og við skulum sofa á þessu í nótt. Ég vil ekki stefna málinu í voða, en ég vil heldur ekki láta alþm. komast hjá því að greiða atkv. um, hvort þeir vilja heimila að láta milljón krónur í þessar aðvaranir eða ekki.