05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim umr., sem hér hafa orðið um þetta mál. Ég er efnislega sammála hv. 5. þm. Norðurl. v. um það að draga í efa gagnsemi þeirra merkinga, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum, þ.e. að sérstök viðvörunarmerki séu límd á sígarettupakkana. Ég dreg í efa gagnsemi þeirra. Á hitt vil ég hins vegar fallast, að flutningur brtt. eins og þeirrar, sem hann hefur nú flutt á síðustu stundu í málinu og liggur hér frammi á þskj. 874, getur orðið til þess og verður sennilega til þess, ef henni er haldið áfram, miðað við þær undirtektir, sem hún hefur fengið hér á þessum kvöldfundi, að stöðva framgang frv. til l. á þskj. 116, sem flutt er af Jóni Árm. Héðinssyni. En hv. þm., 5. þm. Norðurl. v., sagði hér áðan, þegar hann talaði fyrir brtt. sinni, að hann vildi gjarnan láta á það reyna hér, hvort stuðningur væri við það hér í d. að hætta þessum merkingum á pakkana og taka upp ákvæði um það í l. um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, að skylt væri að verja 2%o af brúttósölu tóbaks til greiðslu auglýsinga í sjónvarpi, hljóðvarpi, blöðum og víðar, þar sem varað er við hættu af tóbaksreykingum. Nú sýnist mér, að með dálítið annarri uppsetningu á þessari brtt. sé hægt að fá atkvgr. um það hér í d. án þess að stofna framgangi frv. Jóns Árm. Héðinssonar í nokkurn voða. Og það verður einfaldlega að mínu viti gert með því, að hv. þm. Jón Kjartansson breyti brtt. sinni þannig, að í henni verði einungis svo hljóðandi ákvæði:

„Allar vörur, sem Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins selur, skulu merktar með nafni verzlunarinnar og/eða merki hennar. Einnig er Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins skylt að verja 2%0 af brúttósölu tóbaks til greiðslu auglýsinga í sjónvarpi, hljóðvarpi, blöðum, kvikmyndahúsum og víðar, þar sem varað er við hættu af tóbaksreykingum. Um alla framkvæmd þessa skal haft samráð við stjórn Hjartaverndar og stjórn Krabbameinsfélags Íslands.“

Ef hann setur punktinn þarna fyrir aftan, hefur 1. gr. till. ekki lengri og 2. tölul. brtt. verður: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1972,“ þá sýnist mér, að það leiði til þess, að frv. Jóns Árm. Héðinssonar verði borið upp sérstaklega eins og það nú hljóðar og gengið er frá því og um það muni ganga sérstök atkvgr. hér í d. Síðan væri hægt á eftir að bera upp till. hv. þm. Norðurl. v., eftir að henni hefði verið breytt á þennan hátt og fá um þann lið sérstaka atkvgr. Það má sem sé ganga þannig frá brtt., að hún þurfi ekki að stofna framgangi frv. Jóns Árm. Héðinssonar í voða. Fleira ætla ég ekki að segja um þetta atriði.

Ég hygg, að ef hv. þm. Jón Kjartansson vildi draga sína till. núna til baka til 3. umr. og endursemja hana í þá veru, sem ég hef hér verið að lesa, þá sé þetta mjög vel samrýmanlegt, að báðar till. geti fengið hér þinglega meðferð og á það verði látið reyna, hvort meirihlutafylgi er hér í d. fyrir till. Jóns Kjartanssonar.