05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Í sambandi við ræðu hv. 2. þm. Reykn., Jóns Skaftasonar, og þær ábendingar, sem komu fram í hans ræðu, þá vil ég segja, að það er sjálfsagt að athuga ábendingar hans í sambandi við 3. umr. um þetta mál, og ég er fús til allrar samvinnu um það, að þetta mál verði ekki tafið, en endurtek það, sem ég hef áður sagt, að ég vil gjarnan fá úr því skorið, hvort Alþ. vill ekki láta rúmar milljón krónur af ríkisfé til að auglýsa hættuna af vindlingareykingum.

Hv. 5. þm. Austf. ræddi mína brtt., og hann sagðist vera algerlega andvígur því, að það yrði hætt að setja aðvörunarmiðana á vindlingapakkana og gat þess, að verkið væri illa unnið og vitlaust og það væri allt of smátt letrið á þessum miðum, en ég vil nú upplýsa hv. þm. um það, að þetta letur er sams konar letur og er á svarthöfðadálkum Tímans okkar. Og það er hvorki verra né betra en það. Mér er ekki kunnugt um það, að þessi hv. þm. hafi komið með ábendingu til okkar í blaðstjórn Tímans um það, að það ætti að breyta þeirri leturgerð. Ég held, að það sé ekki það, að letrið sé of smátt á miðunum, heldur er ekki litið á þetta, þegar pakkinn er tekinn upp. Maður má ekki láta tilfinningarnar alltaf ráða orðum sínum og gjörðum. Maður má það ekki. Það er skynsemin, sem segir manni, að maður eigi ekki að henda milljón í þessa vinnu eins og gert er í dag.

Hv. 5. þm. Austf. sagði líka, að önnur vitleysan væri sú í framkvæmdinni, að þetta væri sett á vitlausan stað á pakkann. Það má vel vera, að betur færi á því að hafa aðvörunina á hliðinni, en ekki eins og nú er. Miðinn loðir nú við pakkann, en ef þetta væri framkvæmt eins og hv. þm. vill, þá væri miðanum fleygt, um leið og pakkinn væri opnaður. En það er ekki þessi merking, sem skiptir máli, og þó skiptir hún e.t.v. máli fyrir suma. Þeir segja, að þetta sé til gagns, en það, sem skiptir máli hjá mér, er, að ég vil nota þá upphæð, hvort sem það er milljón eða 11/4 milljón til þess að vara unglingana við hættunni af tóbaksreykingum, áður en þeir byrja. Ég held, að það sé ekki nóg að aðvara þá, þegar þeir koma og kaupa pakkann. Þeir eiga að vera búnir að sjá það heima í stofunni hjá sér í sjónvarpinu að þetta sé hættulegt. En enn þá hefur ekki fengizt fjármagn til að kosta þessar auglýsingar, og þetta er ekkert út í bláinn, að ég legg til að hætta merkingunum. Ég gæti vel hugsað mér að halda þeim áfram, ef fé fengist einnig í hitt. Ég hef ástæðu til þess að segja það hér, að ég hygg vera þingmeirihluta fyrir því að taka þessa rúmu milljón í aðvaranir í sjónvarpi og blöðum gegn því, að merkingum verði hætt. Ég met hv. 5. þm. Austf. mjög mikils, og þetta er afbragðsmaður, en þessum síðasta málflutningi hans get ég ekki annað en mótmælt. Ég held, að það geti hver sem er, sem er læs á annað borð, lesið umrædda aðvörunarmiða.

Hæstv. fjmrh. flutti ræðu hér um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf í Nd., og þar sagði hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar frv. um bann við tóbaksauglýsingum var til meðferðar hér í hv. Ed. nú fyrir skömmu, lýsti ég þar þeirri skoðun minni, að ég áliti, að ekki hefði verið ráðleg sú breyting á I. um tóbakseinkasöluna, sem samþykkt var, þess eðlis að merkja sígarettupakka með sérstöku aðvörunarmerki. Það hefði skilað sáralitlum árangri.“

Skilað sáralitlum árangri, segir fjmrh. Hann er æðsti maður þessarar stofnunar og er mjög viðsýnn í þessum málum og mikill reglumaður. Hann segir enn fremur:

„Það hefði skilað sáralitlum árangri, og þess vegna væri það vissulega spurning, hvort ekki væri miklu betur varið því fé, sem varið væri til þessara merkinga, með áróðri gegn tóbaksnotkun á annan hátt heldur en að eyða því í merkimiða á sígarettupakka.“

Hér er hæstv. fjmrh. alveg sammála mér um það, að þessari upphæð væri betur varið til aðvörunar í sjónvarpi og víðar. Ég tek að sjálfsögðu til athugunar vinsamlegar ábendingar hv. þm. Jónasar Árnasonar um að taka til baka til 3. umr. þá till., sem ég hef hér flutt, og sömuleiðis ábendingu hv. þm. Jóns Skaftasonar, 2. þm. Reykn.