05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessu máli, enda gerði ég ekki ráð fyrir, að miklar umr. yrðu um það, og ég er svo illa að mér um tóbak, að ég gæti nú lítið um það sagt, því að í því efni hef ég enga reynslu. En vegna þess, sem fram er komið hér í þessu máli, sýnist mér, að það sé úr nokkuð vöndu að ráða, ef framkvæmd málsins á að verða eins og hér virðist vera áhugi á. Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég hef langmesta trú á till. þeirri á þskj. 874, sem hv. 5. þm. Norðurl. v., Jón Kjartansson, flytur, til þess að ná árangri í því að draga úr tóbaksreykingum.

Ég hef orðið var við það í vetur, að frásagnir blaða, útvarps og sjónvarps af hópum manna, sem hafa hætt að reykja, hafa haft geysilega mikil áhrif, og ég hef ekki orðið var við ánægjulegrí baráttu gegn tóbaksreykingum en einmitt þessar fregnir. Þess vegna er það mín bjargfasta skoðun, að með því að nota fjármagn Áfengis- og tóbaksverzlunarinnar til þess að auglýsa í útvarpi, sjónvarpi og blöðum skaðsemi reykinganna muni það koma að beztum notum. Og þó að ekki náist fram að þessu sinni að koma því máli áfram, þá tel ég, að það sé mál, sem verði að koma á, því að þá náum við beztum árangri í því, sem ég og mínir líkar, sem erum andstæðingar reykinganna, viljum ná. Ég er þeirrar skoðunar, að þessar auglýsingar á sígarettupökkunum hafi nánast engin áhrif. Þegar menn eru búnir að kaupa pakkana, þá held ég, að það verki ekki mikið á þá, nema umr. verði og þeir sjái það á gleggri hátt — eins og þeir gætu t.d. séð í sjónvarpi — hvað þarna er um að vera; það gæti orðið þeim þess vegna til viðvörunar, en ekki það eitt, að þetta stendur á pakkanum og fæstir munu lesa það. Ég held því, að þeim fjármunum, sem á að ráðstafa, sé margfalt betur varið eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. vill láta gera til þess að draga úr reykingunum en með því að líma miða á pakkana.

Hins vegar — og það er ástæðan til þess, að ég stóð upp — vil ég segja það, að ég held, að atkvgr. um brtt. hv. 5. þm. Norðurl. v. mundi ekki sýna rétta mynd af hugum eða skoðunum bv. alþm. gagnvart því máli, ef það væri nú látið ganga til atkvgr. í sambandi við breytingu á þessu frv. Ég býst við, að allir hv. alþm., sem fara að hugleiða það, líti á það, að ef sú breyting væri gerð á frv. á þskj. 116, þessi eða önnur breyting, mundi það verða til þess, að málið næði ekki fram að ganga. Nú er orðið það á þinghald liðið og svo þröngt á dagskrá, að það þarf ekki mikið út af að bera til þess, að þetta mál dagi uppi. Þess vegna væri það mér t.d. óþægilegt að greiða atkv. um mál hv. 5. þm. Norðurl. v., þó að ég sé fylgismaður þess og telji það alveg rétt. En afstaða mín mundi mótast af því, að ég teldi, að báðum málunum væri siglt í strand. Brtt. hv. 5. þm. Norðurl. v., svo ágæt sem hún er, yrði ekki bjargað með því að samþykkja hana og fella hana inn í þetta frv., heldur mundi það geta orðið til þess að stöðva það líka. Þess vegna væri það nú mín ósk, að hv. þm. Jón Kjartansson, 5. þm. Norðurl. v., tæki þessa till. alveg til baka. Hann er búinn að lýsa málinu vel og greinilega, og ég er sannfærður um, að þetta mál nær hér fram að ganga á hv. Alþ., þó að það geti ekki orðið núna, og ég gleðst yfir skilningi hans og þeim rökum, sem hann hefur beitt í þessu máli, því að þau eru alveg rétt, og ég er sannfærður um, að þetta er sterkasta áróðursleiðin til þess að vinna gegn tóbaksreykingum. Hins vegar tel ég, að það sé heppilegast nú, eins og málum er komið, að afgreiða frv. á þskj. 116 án allra breytinga, því að það mun verða eina leiðin til þess, að málið nái fram að ganga. En jafnframt treysti ég því, að á næsta Alþ. verði það margir hv. þm., sem meta og hugsa eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. um nauðsyn þess að gera fullkomlega grein fyrir skaðsemi tóbaksreykinga, að málið verði tekið upp á næsta þingi. Það held ég, að yrði bezta lausnin á þessu máli og skipti mestu um meðferð þess, ef svo verður á haldið.