07.04.1971
Efri deild: 97. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég veit, að það er ekki vinsælt á síðasta degi þ. að lengja þingtímann, en mér finnst ég ekki geta látið þetta mál fram hjá mér fara án þess að gera grein fyrir því, hvers vegna ég mun greiða atkv. á móti þessu frv. Ég vil taka það fram í upphafi, að ég er mjög hlynntur hverjum raunhæfum aðgerðum til þess að draga úr reykingum. Ég hef aldrei reykt sjálfur og tel það hinn versta löst að reykja, en hins vegar sýnist mér, að með þessu frv. sé alls ekki stigið raunhæft skref í þessa átt. Mér sýnist með þessu frv. langtum fremur um yfirklór að ræða, sem geti jafnvel staðið í vegi fyrir raunhæfum aðgerðum.

Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að það hafi langtum meiri áhrif á reykingar unglinga en auglýsingar í dagblöðum að sýna í sjónvarpi t.d. myndir af hetjum eins og — hvað þeir heita nú — í „Fljúgandi furðuhlutum“ o.fl., sem var í gærkvöldi, að því er mig minnir. slíkar hetjur eru með sígarettu í munninum allan tímann og sífellt kveikjandi í, keðjureykjandi. Ég hefði kosið, að þessar auglýsingar væru takmarkaðar að efni til, þannig að þær mættu ekki hvetja til reykinga, en ég sé ekkert raunverulega skaðlegt við það, þó að þar sé einhver samkeppni á milli framleiðenda þessara eiturlyfja. Ég hefði viljað skattleggja þessar auglýsingar t.d. með 50% eða jafnvel 100% skatti, eins og jafnvel er gert í Bandaríkjunum, og nota þær tekjur til þess að koma á fræðslu m.a. í sjónvarpi, góðri fræðslu um skaðsemi reykinga. Ég tel sömuleiðis, að þessar tekjur, sem dagblöð hafa hlotið erlendis frá af þessum auglýsingum, séu þarfar fyrir dagblöðin og vafasamt að skerða þær.

Ég vil einnig benda á það, að ef þetta frv. á raunverulega að koma til framkvæmda eða ákvæði þess, þá verður að koma í veg fyrir innflutning á erlendum ritum hingað til landsins. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, eru 17 þús. vikurit flutt inn vikulega hingað til landsins og dreift hér um landið allt, og það liggja frammi litmyndir glæsilegar af alls konar hetjum með sígarettu í munninum. Það er vitanlega sjálfsagt, þegar slíkt frv. hefur verið samþ., að næsta skrefið verði að banna innflutning á þessum heimilisritum, og þá má heita, að við séum að komast úr sambandi við umheiminn.