06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

Almennar stjórnmálaumræður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á þessum eldhúsdegi, þegar komið er að lokum kjörtímabils og fólk á þess kost að velja fulltrúa til Alþingis að nýju, tel ég einkar nauðsynlegt að rifja upp afskipti ríkisstj. og Alþ. af kaupgjaldsmálum, sem ég tel, að hafi orðið öllu launafólki og hagsmunum þjóðarinnar í heild til mikillar óþurftar.

Nýlega var sagt frá því í öllum fjölmiðlum hérlendis, að sænskt blað hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að Ísland ætti heimsmet í töpuðum vinnustundum vegna verkfalla síðasta áratuginn. Þessar staðhæfingar blaðsins hafa ekki verið hraktar, og verður því að telja, að þær séu nærri sannleikanum. En hver er þá ástæðan fyrir þessu heldur óglæsilega heimsmeti? Ástæðan er einfaldlega sú, að í engu landi, sem við þekkjum til, hefur ríkisvaldið haft jafnmikil og óheillavænleg afskipti af kaupgjaldsmálum og hér. Á öllum valdaferli núv. ríkisstj., sem nær yfir meira en áratug, hefur helzta stjórnunartæki hennar á efnahagsmálunum verið gengisfellingar. Gengisfellingar hafa verið notaðar í þessu skyni, vegna þess að þær eru stórvirk aðferð til að breyta tekjuskiptingunni og hafa áhrif á tilfærslu fjármuna í þjóðfélaginu. Við hverja gengisfellingu hefur það verið fyrsta boðorðið og talið skipta öllu máli, að verðhækkunum af völdum gengisfellinganna væri bótalaust velt yfir á almenning. Gegn þessari meginstefnu ríkisstj. í efnahagsmálunum hefur verkalýðshreyfingin orðið að heyja þrotlausa baráttu, oftast með lengri eða skemmri verkföllum, sem lyft hefur okkur í þann miður virðulega sess að eiga heimsmet í töpuðum vinnustundum vegna verkfalla. En ráðh. geta huggað sig við þá staðreynd, sem einnig er árangur gengisfellinganna, að kaupgjald er nú hér lægra en í nokkru nálægu landi, en það er talinn mikill kostur, þegar verið er að falbjóða erlendum auðhringum starfsaðstöðu hér á landi.

Á því kjörtímabili, sem nú er að renna út, hefur ríkisstj. framkvæmt tvær gengisfellingar, samanlagt þær stórfelldustu í sögunni. Samtímis var ráðizt á kaupsamninga verkalýðsfélaganna og vísitöluákvæði þeirra afnumin. Hlutur sjómanna á fiskiskipum var rýrður stórlega með lögþvingaðri breytingu á samningsbundnum hlutaskiptareglum. Með þessum hætti tókst ríkisstj. og meiri hl. Alþ. að þrýsta svo niður kjörum hins vinnandi manns, að þau komust í lágmark þess, er þau höfðu verið áður á öllum áratugnum. Samkv. heimildum í fréttabréfi kjararannsóknarnefndar frá sept. s.l. var vísitala kaupmáttar meðaltímakaups verkamanna talin vera 131.7 stig á þriðja ársfjórðungi 1967, þ.e. fyrir fyrri gengisfellinguna. En á fyrsta ársfjórðungi 1969 eða eftir síðari gengisfellinguna var þessi vísitala komin í 106.6 stig, og hafði því kaupmátturinn lækkað um 25 stig á tæplega einu og hálfu ári. Til viðbótar þessari stórfelldu kjaraskerðingu kom svo hinn sári tekjumissir verkafólks atvinnuleysisárin 1968 og 1969. Þessi stórkostlega kjararýrnun var öll réttlætt af stjórnarherrunum með erfiðleikum atvinnuveganna á árunum 1967 og 1968. Víst var þá um nokkra erfiðleika að ræða, en hvergi munu slíkir tímabundnir erfiðleikar hafa verið notaðir sem skálkaskjól fyrir jafn heiftarlegum árásum á kjör láglaunafólks og hér var gert. Láta mun nærri, að í þessum efnum eigi íslenzka ríkisstj. sitt heimsmet. Fyrir verkafólk er það sérstakrar athygli vert, að í öllum þessum árásum stóðu ráðh. og þm. Alþfl. dyggilega við hlið foringja Sjálfstfl. og atvinnurekenda, en gegn hagsmunum alþýðunnar.

Með samningum sínum í maí 1969 tókst verkalýðsfélögunum að stöðva kjararýrnunina og bæta kaupmátt launa að nokkru. En það er fyrst með samningunum í júní í fyrra, sem tókst að rétta hlut verkafólksins og ná aftur um það bil sama kaupmætti og var fyrir gengisfellinguna 1967. Til að tryggja kaupmátt launanna var í fyrra samið að nýju um fulla vísitölu á kaupið, en það var mesta átakamál þeirra samninga. Það er táknrænt fyrir afstöðu valdamanna þjóðfélagsins til kaupgjaldsmála verkafólks, að báðir þessir samningar skyldu kosta víðtæka verkfallsbaráttu, samanlagt um hálfs annars mánaðar fjöldaverkföll. Nú voru þó rökin um erfiðleika atvinnuveganna rokin út í veður og vind. Vísitala útflutningsverðmæta var á fyrri hluta ársins 1970 komin í 208.3 stig á móti 121.8 stigum 1968 og var orðin 12 stigum hærri en hún var toppárið 1966. En þrátt fyrir þessa hagstæðu þróun var streitzt á móti sjálfsögðum og réttlátum kröfum verkalýðsfélaganna.

Segja má, að strax eftir samningana í fyrrasumar hafi atvinnurekendur eins og hægt var verið losaðir undan allri ábyrgð af þeim með því; að kauphækkunin var hömlulaust látin fara út í verðlagið. Það var fyrst eftir að allt verðlag hafði snarhækkað, að ríkisstj. greip til hinnar svo kölluðu verðstöðvunar. Vísitalan var lækkuð með niðurgreiðslum á vöruverði, sem kostar ríkissjóð hundruð millj. kr. Það var enn á ný skrifað upp á kosningavíxil, víxil, sem fellur 1. september n.k. En tilhugsunin um, hvað þá taki við, er hrollvekjan mikla, sem Ólafur Björnsson prófessor nefndi svo. En um leið og verðstöðvunarlögin voru sett, var gerð enn ein árásin á frjálsa samninga verkalýðsfélaganna og kaup launafólks. Sú árás verður að teljast einhver sú lítilmannlegasta og lúalegasta, sem jafnvel þessi ríkisstj. hefur framkvæmt. Með valdboði var ákveðið að raska sjálfum grundvelli vísitölunnar. Ákveðnar verðhækkanir skyldu eftirleiðis engin áhrif hafa á kaupgreiðsluvísitölu og einnig skyldi geyma 2 vísitölustig og þau ekki reiknast í kaupið fyrr en 1. september n.k. Og trúi því hver sem vill, að þau komi sjálfkrafa þá, ef stjórnarflokkarnir halda völdum.

Af völdum þessarar lagasetningar ríkisstj. og meiri hl. Alþ. greiða atvinnurekendur nú 2.6% lægra kaup en samningar þeirra við verkalýðsfélögin segja til um. Þegar þeir voru krafðir um þessa greiðslu, vísuðu þeir á löggjafann og sögðust ekki hafa leyfi til að greiða meira. Samspilið er fullkomið. Þegar þessi kaupránslög voru sett, var vitað, að afkoma þjóðarbúsins stóð með miklum blóma. Helztu útflutningsvörur fiskiðnaðarins höfðu meira en tvöfaldazt í verði frá árunum 1967 og 1968. Nokkur hluti þessarar verðhækkunar er lagður til hliðar og geymdur í Seðlabankanum í verðjöfnunarsjóði, sem var um s.l. áramót um 500 millj. kr. En þrátt fyrir þessar miklu verðhækkanir og sterkan varasjóð skyldi lækka kaup þess láglaunafólks, sem skapar verðmætin í fiskiðnaðinum og aðeins hefur 16 þús. kr. í kaup á mánuði fyrir fulla dagvinnu. Þetta lága kaup varð að lækka sem annað. Og enn vil ég minna fólk á, að það var ráðh. Alþfl., dr. Gylfi Þ. Gíslason, sem í þessu máli gekk fram fyrir skjöldu og reyndi með öllum lærdómi sínum og málafylgju að sanna, að markmið þessarar lagasetningar væri að vernda kaupmátt hinna lægst launuðu, alveg sérstaklega þeirra. Já, það nægir áreiðanlega ekkert minna en sá sé doktor í hagfræði, sem slíkt reynir.

Nokkru eftir setningu síðustu kaupskerðingarlaganna gerði ríkisstj. samninga við opinbera starfsmenn. Einkenni þeirra samninga er, að þeir, sem há laun höfðu fyrir, fá nú mesta hækkun. Hækkunin ein saman nemur í mörgum tilvikum mun meira á mánuði en almennu mánaðarkaupi verkamanna. Ýmsir embættismenn hafa nú föst laun auk annars, sem til fellur, sem eru allt að fjórfalt hærri en kaup verkamanna. Og nú hefur meiri hl. alþm., sem staðið hefur að kauplækkunum láglaunafólks, hækkað sín eigin laun í þreföld laun verkamanna.

Hér er stofnað til mikils misréttis í launamálum, ójafnaðar, sem er beinlínis hættulegur okkar litla þjóðfélagi. Verkalýðshreyfingin hefur einróma mótmælt síðustu kaupránslögunum. Verkalýðsfélögin undirbúa nú nýja kaupgjaldsbaráttu, sem hefur að markmiði verulega kauphækkun og 40 stunda vinnuviku. Það skal enginn ætla, að verkafólkið eða félögin telji sig siðferðilega bundin af samningum, sem jafn blygðunarlaust befur verið breytt af ríkisvaldinu.

Ég hef rakið hér í stórum dráttum syndaregistur ríkisstj. og meiri hl. Alþ. í kaupgjalds- og kjaramálum. En þar með er ekki öll sagan sögð. Sama stefnan og viðhorfin agnvart launafólkinu blasa við á öðrum sviðum. Ég nefni skattamálin, þar sem sífellt þyngri byrðar eru lagðar á þurftarlaunin með hjálp rangrar skattvísitölu, og á sama tíma er söluskattur margfaldaður. Nú síðustu dagana hefur verið upplýst, hvaða ókjör felast í vísitölubindingu íbúðarlána til launafólks, þar sem um beina okurvexti er að ræða. Ég vil nota þetta tækifæri til að mótmæla staðhæfingum, sem fram hafa komið um, að verkalýðshreyfingin hafi samið um vísitölubindingu íbúðarlána. Það hefur hún aldrei gert. Það er einhliða ákvörðun ríkisvaldsins.

Góðir áheyrendur. Þeirri stjórnarstefnu, sem ég hef hér lýst, verður að hnekkja. Til þess gefst tækifæri í komandi kosningum. Til þess að losa verkalýðshreyfinguna úr þeim vítahring, að hver ávinningur kaupgjaldsbaráttunnar sé aftur tekinn með lagaboði, verður hún að eiga sér sterkan bakhjarl á stjórnmálasviðinu. Slíkur bakhjarl er Alþb. og það eitt. Verkefni allrar alþýðu er því nú að efla Alþb. — Góða nótt.