06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í orðum mínum hér á eftir ætla ég að fjalla um íslenzk þjóðmál með nokkuð öðrum hætti en venja er til við slíkar umr. hér á Alþ. Ég ætla ekki að ræða svokölluð dægurmál. Enn síður ætla ég mér að karpa við stjórnarandstöðuflokka um einstök atriði, sem daglega má lesa um í blöðum eða heyra um í þingfréttum. Mig langar hins vegar til þess að taka mið af því, að þjóðin stendur nú um þessar mundir að tvennu leyti á tímamótum. Annars vegar er nýr áratugur nýhafinn. Ekki síður en áramót er upphaf nýs áratugs heilbrigt tilefni til þess að horfa til baka og reyna að læra af reynslunni, ekki hvað sízt þegar haft er í huga, að samstarf núverandi stjórnarflokka hófst einmitt við upphaf liðins áratugs. Enn mikilvægara er þó hitt að horfa fram á við til viðfangsefna 8. áratugsins og reyna að gera sér grein fyrir, hvernig á þeim skuli taka. Hins vegar eru nú einnig tímamót að því leyti, að kosningar eru fram undan á sumri komanda. Þær kosningar eru mikilvægar. Þær geta ráðið miklu um það, hvers konar stefnu verður fylgt í íslenzkum þjóðmálum á 8. áratugnum.

Enginn vafi getur leikið á því, að liðinn áratugur reyndist mesta framfaraskeið, sem Íslendingar hafa lifað. Þjóðartekjur á mann voru á s.l. ári hærri en nokkru sinni fyrr og höfðu á 10 árum vaxið um 34% eða um 3.6% á ári að meðaltali. Er sá vöxtur meiri en hann varð að meðaltali í nálægum löndum á sama tíma. Jafnframt óx hlutur launþega í þjóðartekjunum, þannig að þeir nutu að fullu góðs af þessum vexti og meira en það. Því til viðbótar kemur, að opinber útgjöld hafa til engra mála aukizt meir en útgjöld til félagsmála, skólamála og heilbrigðismála. slíkt bætir kjör almennings með óbeinum hætti. Hér á landi hefur augljóslega verið fylgt frjálslyndri umbótastefnu og fyrst og fremst að því keppt, að launþegar og allur almenningur njóti réttmæts arðs af vinnu sinni og síbættrar opinberrar þjónustu.

En því hefur ekki heldur verið gleymt, að slíkt getur ekki orðið til lengdar né frambúðar nema atvinnuvegirnir starfi á heilbrigðum grundvelli. Þess vegna hefur þeim verið tryggt sem viðtækast frelsi og sneitt eins og frekast hefur verið unnt hjá höftum og styrkjum. Reynslan sýnir, að þetta hefur gefizt vel, þegar á heildina er litið.

Þjóðareignin er talin hafa vaxið um 65% á s.l. áratug. Um síðustu áramót er þjóðareignin talin hafa numið um 150 milljörðum kr. Föst erlend lán námu þá um 11 þús. milljörðum kr., en höfðu numið um 6000 milljörðum í árslok 1960 á núverandi gengi. Hlutfall fastra lána af þjóðareign var í árslok 1960 8.6%, en um síðustu áramót hafði þetta hlutfall lækkað niður í 7.3%.

Auðvitað á sú vaxandi velmegun, sem hér hefur ríkt á undanförnum áratug, margar orsakir. Á fyrra hluta áratugsins var hér mesta góðæri, sem sögur fara af, en á síðara hluta áratugsins varð þjóðin einnig fyrir þeim mestu áföllum, sem hún hefur orðið fyrir á síðari tímum. Nú hefur taflið enn snúizt við. Það er vandi að búa við jafnbreytilegt árferði og við Íslendingar höfum átt við að búa s.l. 10 ár og raunar miklu lengur. En einmitt ekki sízt þess vegna er mikilvægt, að heildarstefnan í þjóðmálunum sé skynsamleg. Í því sambandi er tvennt mikilvægast: Að stefnan gagnvart atvinnuvegunum sé þannig, að þeim sé auðveldað að laga sig að breyttum aðstæðum og launþegum sé jafnan tryggð réttlát hlutdeild í þjóðartekjunum, hvort sem þær eru vaxandi eða minnkandi. Það hefur verið megineinkenni þeirrar stefnu, sem fylgt hefur verið, að keppa að þessu hvoru tveggja, og það hefur tekizt að ná þessum markmiðum. Þrátt fyrir óvenjulegar sveiflur í afla og verðlagi eru íslenzkir atvinnuvegir nú öflugri en þeir voru fyrir 10 árum og þrátt fyrir sveiflur í tekjum og atvinnu er hagur launþega nú miklu betri en var fyrir áratug og hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum meiri.

En nú er bezt að hætta að horfa til baka. Hitt skiptir miklu meira máli, hvað fram undan er. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga, að á undanförnum áratugum hafa orðið fleiri og róttækari breytingar á högum mannsins en nokkru sinni fyrr. Á þetta við um öll nálæg lönd og einnig um okkur Íslendinga. Jafnframt hefur hraði breytinganna farið vaxandi og svo mun eflaust verða áfram. Áttundi áratugurinn mun því eflaust verða tímabil mestu breytinga, sem orðið hafa.

En hér verður að hafa annað í huga. Við, sem búum í nútímatækniþjóðfélagi, í iðnvæddu velferðarríki, höfum þegar náð því stigi í framleiðslu og dreifingu á hvers konar vöru og þjónustu, við höfum þegar öðlazt þá fullnægingu brýnustu þarfa okkar, að endurmat er nauðsynlegt á því, að hverju skuli keppa, á því, hvað líklegt sé til þess að færa okkur mesta farsæld. Sagt hefur verið, að soltinn þræll biðji ekki um frelsi, heldur brauð, en þegar hann sé mettur, óski hann frelsisins. Tækniþróun 20. aldar hefur fært því fólki, sem hefur hana á valdi sínu, mikla velmegun. Þar sem lýðræðið ríkir, nýtur það frelsis. En er þessi velmegun og er þetta frelsi allt það, sem við keppum að? Erum við komin á einhvern leiðarenda? Er allt orðið fullkomið? Nei, því fer víðs fjarri. En hvað er að? Hver eru hin nýju markmið, sem við eigum að setja okkur og keppa að?

Þetta eru þær spurningar, sem brýnast verður að svara skynsamlega á 8. áratugnum. Fyrst er að setja sér markmiðin. Síðan að finna skynsamlegustu og heppilegustu leiðirnar til þess að ná þeim. Ekki er torvelt að benda á nokkur almenn markmið, sem sjálfsagt virðist að halda áfram að keppa að. Við eigum auðvitað að halda áfram að auka framleiðslu okkar og bæta viðskipti okkar eins mikið og unnt er, því að það er forsenda þess, að hagur okkar geti haldið áfram að batna. Tryggja verður afkomuöryggi allra manna í nútímaþjóðfélagi. Allir vinnufærir menn verða að eiga þess kost að sjá fyrir sér og sínum með atvinnu við sitt hæfi. Samfélagið á að skoða það skyldu sína að sjá öllum fyrir vinnuskilyrðum, þ. á m. þeim, sem af einhverjum ástæðum hafa skerta starfsorku. Þeir, sem standa höllum fæti vegna sjúkleika, örorku, elli eða ómegðar, verða að fá stuðning samfélagsins, og allir verða að eiga þess kost að afla sér menntunar, þeirrar menntunar, sem hugur þeirra og hæfileiki stendur til.

Segja má, að þessi sjónarmið hafi í raun og veru ráðið stefnu frjálslyndra flokka í velferðar- og tækniþjóðfélögum nútímans. Þessi sjónarmið eiga að meira eða minna leyti rót sína að rekja til grundvallarhugsjóna lýðræðisjafnaðarstefnunnar, hvort sem einstakir flokkar, sem aðhyllast þau í reynd, kenna sig til hennar eða ekki. En er þá ekki nóg að halda áfram á þessari braut? Við eigum að halda áfram á þessari braut, en við eigum á næstu árum að gera meira og ekki eingöngu stefna í sömu átt og við höfum gert, heldur einnig að breyta nokkuð um stefnu.

Í lýðræðisríkjum búa menn við frelsi. Við erum orðin svo vön frelsi, að við metum það eflaust ekki eins mikils og við ættum að gera. Ef við byggjum við svipað stjórnarfar og ríkir í kommúnistaríkjum og öðrum einræðisríkjum, þá skildum við eflaust betur en hætt er við, að við gerum, hvers virði frelsið er. En frelsi er aldrei fullkomið. Það er meðal þeirra lífsgæða, sem ávallt má auka og bæta. Án frelsis er ekki réttlæti. En ranglæti hefur jafnan verið til og verður líklega alltaf til á einu sviði eða öðrum. Nútímamaður í iðnaðarþjóðfélagi á að setja sér það markmið að leita uppi ranglæti, hvar sem það finnst, hvort sem það er á vinnustað, í skóla, í fjölskyldu eða annars staðar, og reyna að bæta úr því. Og jafnrétti verður aldrei algert. Við höfum verið og erum sammála um, að aukið jafnrétti sé göfugt markmið. En samt er mikið um misrétti. Við eigum að setja okkur það markmið, að sérhver einstaklingur hafi aðstöðu til þess að njóta hæfileika sinna og leita þess þroska og þeirrar hamingju, sem hugur hans stendur til. Hann þarf að hafa sem jafnasta möguleika á við alla aðra til þess að öðlast þá aðstöðu í lífinu, sem hann leitar eftir, án tillits til fjölskyldutengsla eða fjárhags, enda eflir það eitt hamingju og hagsæld heildarinnar. Af þessum sökum eigum við á 8. áratugnum að setja okkur það markmið að bæta lýðræði okkar og auka frelsi okkar með því að efla réttlæti og jöfnuð.

Það er eitt af megineinkennum nútíma velferðarþjóðfélags, að vel er séð fyrir almannatryggingum hvers konar, og heilbrigðisþjónusta er víðtæk og að mestu leyti kostuð af opinberu fé. Þessi stefna var mótuð fyrir nokkrum áratugum þegar öryggisleysi um afkomu og heilsu var alvarlegasta þjóðfélagsbölið, eftir að sigrazt hafði verið á almennri fátækt. Áður hafði sú skoðun rutt sér til rúms, að menn skyldu greiða þeim mun meira til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins, sem tekjur væru hærri.

Nú er almannatryggingakerfi víðast hvar í velferðarþjóðfélögum orðið svo víðtækt, opinber heilbrigðisþjónusta orðin svo umfangsmikil og þær tekjur, sem skattakerfið nær til, orðnar svo jafnar, að þörf er orðin á endurmati á skipulagi og framkvæmd almannatryggingakerfis, heilbrigðisþjónustu og skattakerfis einmitt til þess að tryggja enn betur en nú á sér stað upphaflegt markmið þeirrar velferðarstefnu, sem fylgt hefur verið, aukið öryggi og aukinn jöfnuð, aukna aðstoð til þeirra, sem þurfa á henni að halda, samfara fyllstu hagkvæmni í framkvæmd. Í þessum efnum bíða risavaxin verkefni, ekki aðeins hér hjá okkur Íslendingum, heldur einnig í nálægum löndum, t.d. á Norðurlöndum og Bretlandi, þar sem þau sjónarmið, sem ég hef nefnt hér, ryðja sér æ meira til rúms.

Það hefur verið ein af forsendum iðn- og tækniþróunar, að menntun hefur orðið almenn og farið síbatnandi. Auðvitað þarf sú þróun að halda áfram, en ný viðhorf hafa skapazt og ný verkefni bíða úrlausnar. Eingöngu hæfileikar og námslöngun án tillits til efnahags eiga að ráða úrslitum um menntunarskilyrði. slíkt markmið gerir enn aukið átak í skólamálum nauðsynlegt. Hitt er ekki síður mikilvægt, að ekki sé lögð of einhliða áherzla á hagnýtt gildi menntunar. Þess verður að gæta vandlega, að skólar í frjálsu þjóðfélagi verði aldrei framleiðendur sérmenntaðs vinnuafls fyrir atvinnuvegi, að ég ekki tali um hitt, að þeir mega auðvitað ekki vera áróðursstofnanir fyrir stjórnmálaskoðanir. Verkefni skóla í frjálsu þjóðfélagi á fyrst og fremst að vera að ala upp frjálsan einstakling, sem öðlast hvort tveggja í senn þroskandi menntun og hagnýta kunnáttu og hefur jákvæða og heilbrigða afstöðu til mannlegs samfélags og meðbræðra sinna. Ef skóli í nútíma þjóðfélagi á að ná þessu mikla og mikilvæga marki, þarf vel til hans að vanda. Það er eitt af mikilvægustu verkefnum 8. áratugsins.

Þetta sjónarmið leiðir hugann að síðasta markmiðinu, sem mig langar til þess að nefna. Það hefur verið eitt helzta keppikefli nútímamannsins í iðnvæddu þjóðfélagi að bæta efnahag sinn og auka afkomuöryggi. Auðvitað á að halda því áfram. En það væri nauðsynlegt í vaxandi mæli, að menn gerðu sér grein fyrir því, að fleira er nauðsynlegt. Aukin velmegun verður að færa manninum meiri þroska, vaxandi hamingju í óspilltu umhverfi. Markmiðið á ekki aðeins að verða auðugra þjóðfélag, ekki aðeins réttlátara þjóðfélag, heldur einnig fegurra þjóðfélag. Þess vegna verður viðleitni til þess að bæta manninn og efla hagsæld hans að móta alla framfaraviðleitni á öllum sviðum, verða grundvöllur hennar og takmark. E.t.v. er þetta stærsta verkefnið, sem bíður á áratugnum, sem nú er nýbyrjaður, ekki aðeins okkar Íslendinga, heldur og allra efnaðra iðnaðarþjóða. Við verðum að gefa náttúrunni meiri gaum en við höfum gert. Við verðum að gera öll menningarverðmæti að almenningseign, bæta aðstöðu sérhvers manns til þess að njóta bæði þjóðlegra og alþjóðlegra menningarverðmæta, efla starfsskilyrði þeirra, sem þessi verðmæti skapa, og auka tengsl þeirra við hina, sem þeirra njóta. Iðnaðarþjóðfélagið verður að verða að menningarþjóðfélagi í stöðugt ríkara mæli.

Þetta eru meginviðfangsefnin, sem að mínum dómi verður við að fást á 8. áratugnum, aðalviðfangsefnin, sem við verður að glíma og vinna verður að skynsamlegri og réttlátri lausn á, ef okkur á að miða vel áfram á næstu 10 árum.

Kosningarnar í sumar geta haft örlagarík áhrif á það, hvort skilningur reynist hjá valdhöfum á þessum viðfangsefnum og hvernig á þeim verður tekið. Á öllum tímum og í öllum þjóðfélögum eru til afturhaldssamir menn, framfarasinnaðir menn og byltingarmenn. Ég held, að þau markmið, sem ég hef verið að lýsa, séu hvorki að skapi afturhaldsmanna né byltingarmanna. Þau eru markmið frjálslyndra framfarasinna. Alþfl. varð fyrstur íslenzkra stjórnmálaflokka til þess að gera þessi sjónarmið að sínum á flokksþingi sínu á s.l. hausti. En jafnaðarmannaflokkar í nálægum löndum ræða þessi mál nú í sívaxandi mæli, og á það raunar ekki aðeins við jafnaðarmannaflokkana, heldur einnig aðra frjálslynda flokka með nútímasjónarmið.

En er þá kannske hvergi að finna andstöðu við þessi sjónarmið? Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fáir viðurkenna, að þeir séu afturhaldsmenn. slíka menn má ekki kenna á því, að þeir berji sér á brjóst og segi: Ég aðhyllist afturhaldsstefnu, heldur af hinu, hverja stefnu þeir boða, hvað sem þeir kalla hana. Þeir menn, sem á liðnum áratug börðust gegn réttri gengisskráningu til þess að tryggja frjáls utanríkisviðskipti, þeir, sem börðust gegn virkjun fallvatna og iðnvæðingu, þeir, sem börðust gegn aðild Íslands að alþjóðlegu viðskiptasamstarfi, þeir voru og eru afturhaldsmenn, hvað sem þeir kalla sig. Og þeir, sem ýmist lýsa fylgi sínu við einræðisstjórnkerfi kommúnistaríkjanna eða hafa ekki hug til þess að afneita því, eru líka afturhaldsmenn, því að einræði hefur aldrei leitt til varanlegra framfara.

Byltingarmenn hika hins vegar ekki við að lýsa skoðun sinni. Þeir eru andvígir þjóðskipulaginu, kerfinu og vilja það feigt með valdbeitingu, ef svo ber undir. Slíkt fólk er hér til, og það villir yfirleitt ekki á sér heimildir. Það er þessu fólki í sjálfu sér til sóma, þótt skoðanirnar, sem það boðar, séu rangar og hættulegar. slíkt fólk mun hins vegar aldrei ná neinum ítökum í íslenzkum þjóðmálum nema þá óbeint með þeim hætti, að aðrir séu að sækjast eftir fylgi þess og hafi e.t.v. alls ekki skilning á skaðsemi ofbeldisskoðananna, jafnvel leynda, kannske ósjálfráða samúð með þeim.

Ég lýk þessu máli mínu með því að láta í ljós þá ósk, að í kosningunum í sumar megi gæfa Íslendinga verða slík að fela þeim forsjá mála sinna, sem telja má frjálslynda framfarasinna og trausta stuðningsmenn lýðræðis og frelsis. Alþfl. gengur bjartsýnn til þessara kosninga. Hann hefur reynt að vinna þau verk, sem honum hafa verið falin, af trúmennsku við þjóðina og málstað sinn. Það mun hann halda áfram að gera, hvort sem niðurstaða kosninganna leiðir til þess, að hann verður áfram aðili að ríkisstj. eða hverfur í stjórnarandstöðu. Afstöðu sína mun Alþfl. aldrei láta ráðast af öðru en því, hvað hann telur í mestu samræmi við þær hugsjónir, sem hann hefur barizt fyrir í meira en hálfa öld, af því, hvað hann telur þjóna bezt hagsmunum þess fólks, sem hann ber fyrir brjósti, því, sem hann telur rétt og satt og Íslendingum öllum til mestrar farsældar.