06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

Almennar stjórnmálaumræður

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Varla telst það frumlegt, að ég hef mál mitt á fullyrðingum að fordæmi hæstv. viðskrh. hér áðan, um að við Íslendingar stöndum nú á pólitískum vegamótum, en ég geri það samt, vegna þess að ég held, að það sé satt og rétt. Að baki eru viðreisnarárin, lengsta æviskeið samfellds ríkisstjórnarsamstarfs meðal þjóðarinnar og að sögn þeirra, sem þar hafa búið við eina sæng, hið ástríkasta og samhentasta, sem sögur fara af. Æviskeið, sem er orðið það langt, að yngstu árgangarnir, sem ganga að kjörborðinu í vor, voru tæplega byrjaðir að draga til stafs, þegar fyrsti sáttmáli núverandi stjórnarflokka var undirritaður. Enga þeirra undrar því lengur sú mikla furða, að flokkar með svo gerólík markmið, Alþfl., fyrrum brjóstvörn snauðrar alþýðu með fána jafnaðarstefnu við hún, og flokkur stóratvinnurekenda og fjáraflamanna, skuli hafa lifað svo lengi í sátt og samlyndi. En nú er úti það ævintýri, sem fáir hafa skilið nema sem grínsögu frá því undarlega landi, Íslandi. Það er eðlilegt, að afleiðingar þessa samstarfs eins og þær birtast í lífskjörum og lífsbaráttu þjóðarinnar séu nú teknar til endurmats. Og þetta endurmat er hafið einkanlega vegna þess, að til skjalanna er komið nýtt stjórnmálaafl, sem líklegt er, að ráði um það úrslitum í næstu kosningum, að gerbreytt viðhorf skapist. Þetta er engin tilviljun. Að því hlaut að reka, að þjóðin þyrmdi ekki lengur þeirri óstjórn og vanstjórn, sem með hverju árinu sem leið hefur hvílt æ þyngra á landi og lýð, og nú spyr maður mann: Er ekki orðin breytingar þörf? Hvað hefur viðreisnin fært þjóðinni í bættum lífskjörum, félagslegum og menningarlegum umbótum? Hvert stefnir hún í hinum stóru málum öllum, sem mestu ráða um framtíð hennar? Og enn spyrja menn með kaldar staðreyndir fyrir augum: Hvers vegna þarf íslenzk alþýða að una því að búa við lakari lífskjör en allar grannþjóðir hennar gera, mitt í mesta góðæristímabili, sem yfir Ísland hefur gengið? Hvers vegna þarf hún hér að setja árleg Evrópumet, ef ekki heimsmet, í verðbólgu? Hvers vegna neyðast íslenzkar vinnustéttir til þess að fórna sér í vonlitlu þrátefli um að halda sér á floti við mörk örbirgðar, með Norðurlandamet eða heimsmet í vinnudeilum að baki, sem í bezta falli bera þann árangur, að kjörin standa í stað? Hvers vegna þarf hún að una þessu, meðan þjóðin er meðal tekjuhæstu þjóða heims miðað við mannfjölda? Hvers vegna á hér að taka upp nýja stéttaskiptingu, þar sem vinnu- og framleiðslustéttir eru gerðar að efnalegum utangarðshópum, en þeir, sem arðinn hirða, og þjónar þeirra maka krókinn við elda ævintýralegra góðæra, eins og eitt stjórnarblaðanna lýsir aðstæðum þjóðarbúsins um þessar mundir? Hvers vegna eru menntunar- og skólamálin í slíku öngþveiti, að ástandi þeirra er nú lýst af einum helzta forustumanni stjórnarflokkanna, sem nú á bezta aldri er að hverfa af stjórnmálasviðinu, saddur pólitískra lífdaga, sem markaðstorgi hégómans, þar sem snobb og tildur ræður lögum og lofum? Hvers vegna er Ísland enn hersetið land á friðartímum? Hvers vegna bólar hvergi á sjálfstæðri íslenzkri utanríkisstefnu, sem fær sé um að tryggja íslenzka hagsmuni og skapa þjóðinni virðingu í samfélagi þjóðanna? Hvers vegna er landsbyggðin, þar sem meiri hluti þjóðarauðs skapast og framleiðslan fer fram, hlunnfarin í flestum greinum, sem úrslitum ráða? Því þarf hún að una því að búa við algjört misrétti í samgöngumálum, raforkumálum, skólamálum, una hærra verðlagi en þéttbýlismenn og þyngri álögum? Því þarf hún að búa við atvinnuleysi, skort á læknaþjónustu og fjölmörgu öðru, sem mótar hennar líf og kjör? Því eru íslenzkir bændur troðnir dýpra og dýpra í vonlaust skuldafen með vitminnstu en jafnframt dýrustu landbúnaðarpólitík, sem þekkt er meðal siðaðra manna?

Mál er að linni slíkum spurningum og svara leitað, og fyrsta svar mitt er þetta. Þetta er viðreisnin í verki, viðreisnin, sem núverandi stjórnarflokkar hófu með gullnum loforðum um afrek hennar, þar sem heitið var algerum straumhvörfum í íslenzku stjórnarfari, gagngerðri stefnubreytingu í efnahagsmálum þjóðarinnar, þannig að atvinnuvegunum yrði skapaður traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöllur en áður hafði þekkzt og þannig tryggð stöðvun verðbólgu, aukin þjóðarframleiðsla og síbatnandi lífskjör. Í kjölfarið var síðan lofað að afnema bótakerfi og uppbætur. Hallalausum ríkisbúskap var heitið, stórfelldri eflingu tryggingakerfisins, afnámi tekjuskatts af almennum launatekjum, jafnvægi í peningamálum, stöðvun skuldasöfnunar við útlönd, sem þegar hefði skapað þjóðinni óþolandi greiðslubyrði að þeirra dómi. Ég veit, hlustandi góður, að ég þarf ekki að rekja fyrir þér efndirnar í smáatriðum. Þú býrð við þær í dag og þarft ekki annað en skyggnast í eigin barm og íhuga hag þinn til að svara satt og rétt um þær, enda er svikalistinn orðinn lengri en svo, að mér endist kvöldið í kvöld og komandi nótt til að rekja hann, hvað þá að mér sé slíkt unnt í örstuttri ræðu. Á fátt eitt skal þó drepið og dæmin valin af handahóf í.

Ég beini fyrst athygli að launakjörum og hvernig þau hafa breytzt á síðasta áratugnum. Samkvæmt nýjustu rannsóknum kjararannsóknarnefndar hefur kaupmáttur verkamannakauptaxta frá árinu 1959 til ársins 1970 rýrnað um nálægt 9% miðað við verðlag á vöru og þjónustu annars vegar og kaup verkamanna fyrir greidda vinnustund hins vegar. Ef miðað er við vikukaup, er rýrnunin um það bil helmingi meiri. Það er þetta, sem Gylfi Þ. Gíslason, hæstv. viðskrh., er að hugsa um vafalaust, þegar hann segir, að verkamenn hafi haldið sínum hlut af auknum þjóðartekjum. Hið nýjasta í þessum efnum er svo það, að þær kjarabætur, sem verkalýðshreyfingin knúði fram á s.l. ári, hafa á því Alþ., sem nú er að ljúka störfum, verið skertar í grundvallaratriðum gerðra frjálsra samninga, líkt og kjör verkamanna væru lækkuð með lagaboði um a.m.k. 4–5%. Á sama tíma hafa laun opinberra starfsmanna verið hækkuð að meðaltali um 30–40% umfram laun láglaunafólks, en þó með þeim hætti, að hinir hæst launuðu hafa fengið í sinn hlut hækkun, sem nemur allt að tvöföldum verkamannalaunum, en hinir lægstu í embættismannakerfinu litlar sem engar bætur. Undir forustu skattameistarans Magnúsar Jónssonar, hæstv. fjmrh., er vitandi vits og af ráðnum hug stefnt að nýrri stéttaskiptingu í landinu, þar sem þeim, sem vinna hörðum höndum að framleiðsluverðmætum þjóðarinnar, er skipað á neðsta bekk, en lagður grunnur að myndun nýrrar stéttar launaburgeisa. Og yfir þetta leggur flokkur þeirra manna, sem kenna sig enn við jafnaðarstefnu, ljúfa blessun sína. Svo langt er hann leiddur. Um þennan þátt viðreisnarinnar skal það hér eitt sagt, að gegn þessum fáheyrða órétti mun íslenzk verkalýðshreyfing rísa þegar á þessu ári og hrinda af sér þeirri ósvinnu, sem hér er á ferðum. Mörgum finnst að vísu, að forusta verkalýðshreyfingarinnar hafi ekki staðið á verði gagnvart fólskuverkum viðreisnarflokkanna í þessum efnum, og ætla ég ekki að afsaka seinlæti hennar. En hvað sem hennar þætti líður í þessu máli, veit ég, að hér í okkar litla landi á stefna launajafnaðar yfirgnæfandi fylgi, og trúi, að launamisrétti verði ekki þolað og því hrundið fyrr en síðar. Fyrir því höfum við í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna barizt og munum berjast.

Skattamálin eru annar meginþáttur kjaramálanna, þáttur, sem er ákvarðandi fyrir lífskjörin og þau raunlaun, sem almenningur verður að framfleyta sér og sínum á. Lítum á þann þátt kjaramálanna í ljósi þeirra gullnu loforða, sem stjórnarflokkarnir gáfu við valdatöku sína. Árið 1960 námu tekjuskattar ásamt lítilfjörlegum eignasköttum til ríkisins 49 millj. kr. Á síðasta ári voru þeir orðnir 881.6 millj. kr. og höfðu því sem næst nítjánfaldazt. Á sama tíma hafði kaup verkamanna töluvert minna en fjórfaldazt. Þyngd almennra tekjuskatta hefur því sem næst fimmfaldazt á tímabilinu, þegar átti að afnema þá. Á sama tíma hafa sömu skattar á gróðafélögum létzt um meira en helming. Hlutfallstala þeirra hefur lækkað úr 40.6 í 17.9. En þetta eru aðeins tekjuskattarnir. Ótaldar eru þá breytingar á útsvörum og öðrum gjöldum til sveitarfélaga, sem í vor munu hækka a.m.k. um 50%, en reynt er að leyna með því að lögfesta nú á þessu þingi, að skattskrár skuli ekki lagðar fram fyrr en viku eftir kjördag. Og þetta er að ógleymdum skattinum, sem nú hvílir allra þyngst á öllum almenningi, söluskattinum, sem í ár nemur 3–4 milljörðum kr. Og enn er ekki nema hálfsögð sagan. Nú á síðustu dögum þingsins var knúin í gegn gerbreyting á skattakerfi hlutafélaga, sem færir þeim stórkostleg ný skattfríðindi með rýmkun fyrningarreglna, frestun skattgreiðslna í allt að 5 ár, ef þeir græða, og að auki stórfellt skattfrelsi hlutafjáreigenda. Við umr. í Ed. Alþ, lýsti fjmrh. því yfir mjög skilmerkilega, að sér hefði ekki komið til hugar að þrýsta þessu máli gegnum þingið nú, ef ekki hefði verið eindregið til þess mælzt af atvinnurekendum. Á hinn bóginn sagði hann þá einnig aðspurður, að engin ástæða væri til að hafa samráð við launþegasamtökin, þegar að því kæmi að ráða til varanlegra lykta skattheimtumálum þeirra. En fleira fólst enn í þessu pokahorni fjmrh. Svo er um hnúta búið, að hin nýja skattalöggjöf er til þess sniðin að ívilna stórkostlega hinum stóru og sterku atvinnurekendum, þrýsta þeim saman í öflugar og fjársterkar heildir hlutafélaga, en mismuna hins vegar hinum mörgu og tiltölulega smáu framleiðendum, sem leggja öll efni sín, heiður og velferð að veði í verkum sínum. Þeim, sem þann kost velja að standa eða falla með rekstri sínum, á að refsa með stórfellt óhagstæðari skattakjörum. Þannig er í dag komið fyrir flokki heilbrigðs einkaframtaks, flokknum, sem eitt sinn batt fána framtaks og áræðis einstaklinganna að húni, en nú er orðinn vesælt verkfæri stórburgeisanna einna, sem dreymir um, að 20 álverksmiðjur og annar erlendur stórrekstur leysi íslenzkt framtak af hólmi. Því segi ég við útvegsmenn og aðra þá fjölmörgu einstaklinga, sem halda enn uppi meiri hlutanum af framleiðslu þjóðarinnar: Þið eigið ekki lengur neina samleið með flokki fjármála- og peningavaldsins. Ykkar staður er við hlið hins vinnandi fólks til sjávar og sveita í baráttu beggja fyrir velferð íslenzkra framleiðslu stétta. Oft var þörf, en nú er nauðsyn, að þessir mikilvægustu hagsmunahópar snúi bökum saman og berjist sem bræður fyrir tilverurétti beggja.

Við vöggu viðreisnarinnar sagði Ólafur Thors eitthvað á þá leið, að allar efnahagsráðstafanir væru unnar fyrir gýg, ef ekki tækist að stöðva verðbólguna. Hvernig skyldi það hafa tekizt? Jú, vísítala vöru og þjónustu hefur hækkað um 380% frá 1959 til 1970 fyrst og fremst fyrir tilverknað fjögurra gengisfellinga og annarra þjóðráða stjórnarflokkanna, þjóðráða, sem færasti hagfræðingur stjórnarliðsins, Ólafur Björnsson prófessor, lagði nýlega þann dóm á, að fyrir löngu hefðu gengið sér til húðar og væru einskis nýt. Þessi sami heiðvirði og opinskái stjórnarsinni fram til þessa hikaði heldur ekki við að lýsa þeirri skoðun sinni á viðreisninni, að viðskilnaðinum, sem við blasir 1. september n.k., þegar gerviverðstöðvuninni lýkur og eytt hefur verið upp til agna þeim þremur og hálfum milljarði aukinnar skattheimtu, sem pínd verður af almenningi á þessu ári, yrði með engu orði betur lýst en því óttablandna orði hrollvekja. Og vissulega eru þetta orð að sönnu og lýsa í raun allri ævisögu viðreisnarinnar betur en gert yrði með orðalengingum.

Þær hillingar, sem brugðið var upp við upphaf stjórnarsamstarfsins og stór hluti þjóðarinnar trúði í krafti áróðursvélar Sjálfstfl., eru nú orðnar að hrollvekju, ekki aðeins í huga Ólafs Björnssonar, heldur mikils meiri hluta þjóðarinnar, sem finnur kaldan veruleika allra hinna sviknu fyrirheita brenna á kjörum sínum og vonum um mannsæmandi líf. En þá spyrja menn að vonum hvors tveggja í senn: Hvernig má það ske, að slík stjórn skuli geta tryggt sér þingræðislegan meiri hluta í full 12 ár? Og í annan stað: Hvernig verður hann felldur og hvað á þá við að taka, ef það tekst?

Svarið við þessari spurningu er að mínu viti og að áliti míns flokks í aðalatriðum þetta. Stjórnarandstaðan, sem var þar til fyrir skömmu bundin við Alþb. og Framsfl., hefur brugðizt. Hún hefur verið sjálfri sér sundurþykk og reynzt ófær og óhæf til að móta nokkra þá stefnu eða gera líklegt nokkurt það samstarf innan gamla flokkakerfisins, sem tendrað gæti vonir um, að nokkuð annað tæki við af vanstjórn viðreisnarflokkanna og óstjórn en nýr glundroði engu betri. Stefnuleysi Framsfl. annars vegar og hins vegar sá óhugnaður dekurs Alþb. við afturhaldskreddukenningar alræðissósíalisma, sem forusta hans er brennimerkt með, hafa einnig hindrað, að nokkrar tilhneigingar sköpuðust hjá Alþfl. til að yfirgefa þjónshlutverkið hjá Sjálfstfl. og reyna nýjar leiðir. Þannig hefur niðurstaðan orðið sú, að stjórnarflokkarnir hafa þrátt fyrir allt haldið velli í þremur alþingiskosningum allar götur frá 1959. Og enn er það með öllu vonlaust, að svo fari ekki enn nú í vor, ef það nýja afl, sem nú er komið til sögunnar, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, kemur ekki sem sigurvegari úr komandi kosningahríð. Ég segi við þjóðina, að undirrót þess, að flest hefur snúizt til verri vegar síðasta áratuginn þrátt fyrir hagstæðar ytri aðstæður, er sú, að núverandi flokkakerfi er úrelt, svarar ekki kröfum nýrra tíma og viðhorfa, gefur þjóðinni ekki þá valkosti, sem vandamál hennar krefjast. Því verður að velta þessu flokkakerfi í rústir og byggja upp nýtt, þar sem stærsta og viðamesta uppistaðan verði stór og voldugur flokkur verkalýðs- og framleiðslustéttanna, verði sá stjórnmálalegi bakhjarl stærstu og voldugustu fjöldasamtaka þjóðarinnar, verkalýðshreyfingar og samvinnuhreyfingar, sem til þarf til þess að skapa lýðræðisleg alþýðuvöld á Íslandi að þeirri fyrirmynd helzt, þar sem eru flokkar jafnaðarmanna á Norðurlöndum, sem þeir hafa gert að fremstu velferðarríkjum veraldar.

Við í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna erum kallaðir klofningsflokkur og fleiri ófögrum heitum. Við erum sagðir pólitískir hrossakaupmenn og ævintýramenn, vegna þess að við játum, að við erum ekki einfærir um að skapa þann stóra og sterka verkalýðsflokk, sem þjóðin þarfnast, og höfum því lagt kapp á viðræður við öll þau stjórnmálaöfl, sem okkur hafa þótt einhver líkindi til, að kynnu að vilja skilja grundvallarvandamál íslenzkrar flokkaskipunar og íslenzkrar alþýðuhreyfingar í stað þess að belgja okkur upp með þeim flokkshroka, sem allir gömlu flokkarnir eru haldnir, segjandi og hrópandi: Fallið fram og tilbiðjið mig, þá mun ykkur veitast öll heimsins dýrð. En á þennan veg fórust hv. þm. Einari Ágústssyni nú orð áðan eins og svo oft áður.

Víst er það rétt, að við erum klofningsmenn í þeim skilningi, að við trúum því, að það sé þjóðarnauðsyn að reiða öxi að því feyskna og fúna flokkakerfi, sem hér ríkir. En við erum sameiningarmenn í þeim eina rétta skilningi, að við ætlum okkur þann hlut að sameina alla íslenzka jafnaðar- og samvinnumenn í einum flokki, sem gæti bundið endi á það skaðlega og tilgangslausa þrátefli, sem ríkt hefur á milli íslenzkra alþýðustétta og ríkisvalds, sem þeim er andstætt og fjandsamlegt. Og þótt enn sé ekki liðið hálft annað ár frá því, að við hófum baráttu okkar fyrir þessum meginmarkmiðum, liggur mikill og örlagaríkur árangur að baki sameiningarbaráttu okkar. Viðræður okkar við Alþfl. báru að vísu ekki þann árangur, að hann rifi sig úr faðmlögum Sjálfstfl. En þær orkuðu þó því án allra tvímæla, að innan flokksins verða þeir með hverjum degi fleiri, sem sjá og skilja, að forusta hans leiðir hann til pólitískrar glötunar, ef óbreyttri stefnu verður haldið. Skörðin, sem flokkur okkar hjó í fylgi Alþfl. í bæjarstjórnarkosningunum á s.l. ári urðu miklum hluta flokksins slík lexía, að hún gleymist þeim ekki. Og þeir hinir sömu skilja líka, að fornri stefnu flokksins verður nú bezt þjónað með því, að þeir fylki sér í vor í enn ríkara mæli undir sameiningarstefnu samtaka okkar. Af því þarf Alþfl. að læra aðra lexíu hinni fyrri lærdómsríkari, til þess að sameiningarstefnan hljóti þar úrslitavald.

Fyrir tveim vikum lauk fyrsta þætti samstarfsviðræðna flokks okkar við Samband ungra framsóknarmanna, sem þjóðarathygli hefur vakið. Í viðræðulok varð fullt samkomulag um stefnu og markmið íslenzkrar vinstri hreyfingar. Hin sameiginlega yfirlýsing er vafalaust tímamótamarkandi fyrir þróun íslenzkra stjórnmála, því að þar er mörkuð skýrum dráttum stefna þess íslenzka jafnaðar- og samvinnumannaflokks, sem koma hlýtur og koma verður. En það er lærdómsríkt tímanna tákn að slíkan sáttmála er Samband ungra framsóknarmanna gerði við flokk okkar, hefur því ekki enn tekizt að gera við sinn eigin flokk, Framsfl. og forustu hans, en hlotið fyrir djörfung sína og tryggð við hugsjónir flokksins harða gagnrýni og beinar og óbeinar árásir. Þessar viðræður sýna og sanna, að ungir framsóknarmenn og fjöldi skoðanabræðra þeirra í Framsfl. og meðal þeirra, sem honum hafa fylgt í kosningum, eiga meira sameiginlegt með flokki okkar en þeirri forustu, sem nú ræður í Framsfl. Sú staðreynd mun vissulega heldur ekki láta sig án vitnisburðar í komandi kosningum.

Ástæðulaust er að láta með öllu ógetið þeirrar ólgu, sem nú ríkir í Sjálfstfl., sem nú minnir mest á stjórnlaust rekald í sjóum stjórnmálanna eftir fráfall hins sterka foringja síns. Einnig þar er fjöldi mætra manna og kvenna, sem skilur nauðsyn hvors tveggja gerbreyttrar stjórnarstefnu og nýrrar flokkaskipunar og á því alla samleið með flokki okkar og stefnu hans í þeim höfuðmálum, sem nú eru uppi.

Ég sagði í upphafi máls míns, að viðreisnin væri að baki. Sú fullyrðing er þó óhjákvæmilega bundin því skilyrði, að SF komi sem sigurvegari úr kosningunum í vor, því að ella halda stjórnarflokkarnir velli og sínu striki norður og niður. En jafnframt og kannski fyrst og fremst eru kosningarnar prófsteinn á það, hvort þjóðin vill lengur una því flokkakerfi, sem nú hefur staðið óbreytt í fulla þrjá tugi ára, flokkakerfi, sem tryggt hefur Sjálfstfl. nær óslitið forræði fyrir þjóðmálum allt þetta tímabil. Er ekki kominn tími til að breyta hér um og losa um þá hemla, sem nú hafa allt of lengi hindrað eðlilega og æskilega stjórnmálaþróun, og sækja til betra og fullkomnara þjóðfélags? Sért þú, góður tilheyrandi, ánægður með árangurinn af starfi og stefnu gömlu flokkanna, veitir þú þeim að sjálfsögðu brautargengi í kosningunum í vor. En viljir þú breytingu, hlýtur þú að stuðla að því, að SF verði úrslitaafl á Alþingi Íslendinga að kosningum loknum og fái hrundið fram á næstu árum sameiginlegum hugsjónum og áformum jafnaðarmanna og samvinnumanna um að skapa þjóðinni og allri alþýðu nýja forustu voldugs verkalýðsflokks. Hefur þú ekki allt að vinna, en engu að tapa, að þau áform megi takast? Þeirri spurningu ætla ég ekki að svara fyrir þig. Það gerir þín eigin sannfæring og henni er líka bezt treystandi.