06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Núv. stjórnarflokkar hafa óskorað ráðið landinu síðan 1958. Þetta er orðið langt stjórnartímabil og hefur á ýmsu gengið um hag landsmanna og afkomu þjóðarbúsins. Sveiflur á aflabrögðum og viðskiptakjörum hafa verið miklar. Þær breytingar, sem í hina betri átt miða, hafa verið miklum mun stærri og tímabilið í heild því verið okkur mjög hagstætt. En við höfum líka mætt tímabundnu verðfalli á útflutningi, þrengingum markaða og minnkandi afla. Stjórnvöld landsins hafa því fengið mikil tækifæri til að sýna ráðsnilld sína og búhyggindi, bæði í góðæri og þegar vanda bar að höndum. Og þar frá er skemmst að segja, að þau virðast hafa fundið eitt og sama aðalráðið, sem við á í báðum tilvikunum: Gengisfellingu íslenzkra peninga. Krónan var verðfelld gagnvart erlendri mynt 1960 og aftur 1961. Einnig var gengisfelling 1967 og 1968. Þegar stjórnin settist að völdum fyrir 12 árum, kostaði Bandaríkjadalur 16.50 kr. Nú kostar hann 88 kr. Gagnvart þeirri mynt voru þá 19 aurar svipað verðmæti og krónan er nú.

Fyrri tvær gengisfellingarnar voru gerðar í góðæri. Þær voru hugsjónalegar ráðstafanir fjármálavaldsins. Hinar síðari voru framkvæmdar vegna efnahagslegra erfiðleika. Auðvitað valda svona stórfelldar verðbreytingar peninganna nýjum og geigvænlegum erfiðleikum á ýmsum sviðum, og þeim verður mörgum að mæta með stjórnmálalegum aðgerðum. Alvarlegustu mistök stjórnvaldanna í sambandi við síðustu gengisfellingu voru þau að rýra umsaminn skiptahlut fiskimanna að verðgildi langt umfram það, sem talizt gat vera þeirra hluti í almennu framlagi þjóðarþegnanna, vegna vandans, sem að steðjaði, þegar afli minnkaði og markaðir útflutnings skiluðu lækkandi verði og þrengdust. Þessi mistök hafa nú verið leiðrétt að nokkru, en sú leiðrétting hefur valdið þjóðinni miklu framleiðslutapi, og má í þessu sambandi minna menn á hið langa togaraverkfall fyrr á þessu ári og stórstöðvun bátaflotans eftir áramótin í fyrravetur.

Ég hef verið í stjórnarandstöðu við ríkisstj. allt kjörtímabilið og er enn. Ræður þar úrslitum sú ótvíræða viðleitni stjórnarinnar að gera alltaf hagsmuni þeirra, sem fjármagn eiga í atvinnurekstrinum, að sínum málstað og ganga á móti vinnustéttunum jafnvel með því að skekkja með lagaboðum gerða samninga þessara aðila hinum síðartöldu í óhag. Þetta er auðvitað bein afleiðing af því, að stjórnin er mynduð af tveimur flokkum, öðrum stórum og hinum litlum. Sá stóri er forsvarsaðili fyrir fjármagnið, en hinn minni fyrir vinnuaflið eða svo á hann að vera samkv. stefnuskrá sinni og bókuðum markmiðum, þótt ýmsum þyki slaklega hafa verið þar að unnið um skeið.

Stjórnarandstaðan, sem í flestum atriðum telur sig vera í forsvari fyrir vinnandi fólk, hefur ekki náð árangri í baráttu sinni, svo að teljandi sé. Ekki verður þó talið, að hún hafi svo mjög legið á liði sínu í viðleitninni til að bæta hag vinnustéttanna, a.m.k. hvorki í ræðu né riti. Á pólitíska sviðinu hefur hún verið hávær og í engu sparað fullyrðingar né stóryrði um andstæðingana, en fremur hefur hún látið stjórnast af óþokka á stjórnarathöfnum en raunsæi, er til uppbyggingar horfði. Stappar þar sums staðar nærri, að boðuð hafi verið af þeim, sem róttækastir vilja telja sig, meiri íhaldssemi en sjálft íhaldið mundi vilja láta bendla sig við. Til þess að finna þessum orðum mínum stað vil ég aðeins nefna tvö mál. Annars vegar er innganga Íslands í EFTA. Þar var það útreiknanlegt dæmi, að Íslendingar gátu aldrei haft annað en hag af þátttöku í þessu fríverzlunarbandalagi. Samningurinn um það er uppsegjanlegur með eins árs fyrirvara og gefur engum framandi fyrirtækjum sérstöðu á Íslandi, því að erlendir aðilar hafa hér engin réttindi umfram það, sem Íslendingar sjálfir samþykkja. Engu að síður var stór hluti stjórnarandstöðunnar á þingi ólmur á móti samningunum af einhverjum trúarlegum ástæðum. Þá trú leyfi ég mér að nefna íhaldssemi. EFTA-þátttakan hefur nú þegar eftir hið fyrsta ár létt verulega undir með útvegi og landbúnaði, en einkum þó iðnaði, og það er hún, sem á verulegan þátt í að kveða niður draug atvinnuleysisins, sem orðinn var hér býsna áleitinn, en nú er góðu heilli sá vomur aðeins með litlu lífsmarki. Að hinu leytinu má minna á virkjun Þjórsár, sem nú þegar skilar frá sér mikilli orku og er enn í uppbyggingu. Öll afstaða til þeirra mannvirkja hefur til þessa verið mjög neikvæð hjá hluta stjórnarandstöðunnar, af því að stærsti kaupandi orkunnar, svissneska álfélagið í Straumi, er henni ekki að skapi. Ég er þeirrar skoðunar, að því félagi sé seld raforka á lægra verði en réttlætanlegt er. En að hægt sé að gleðjast af þeim sökum og fyllast fögnuði í hvert skipti, sem fréttist um klakaburð í Þjórsá og erfiðleika við orkuframleiðslu af þeim sökum, eins og eitt dagblaðanna jafnan gerir, það er neikvæðari pólitík en svo, að ég geri mér von um, að hún byggi nokkru sinni upp það stjórnmálaafl, sem komið geti íslenzkum vinnustéttum að liði.

Ekki verður ríkisstj. talið það til tekna, þótt einnig sé augljóst, að illa hefur til tekizt, þar sem stjórnarandstaðan hefur ráðið og beitt valdi sínu, sem sagt í verkalýðshreyfingunni og kaupgjaldsbaráttu hennar. Það vantar ekki, að þar hafa verið settar fram kröfur og hótanir. Sjaldnast hafa hótanirnar þó verið framkvæmdar, en þó hefur svo oft komið til verkfalla, að erlendir aðilar, sem kannað hafa tíðni verkfalla og vinnutruflana af þeim toga, telja, að Íslendingar séu heimsmeistarar í þeirri grein og hafa birt niðurstöður sínar í blöðum. Um árangurinn vita svo allir. Almennu verkalaunin á Íslandi eru svo lág, að af daglaunum eins manns er ekki hægt að framfæra fjölskyldu af meðalstærð. Þrátt fyrir þessar staðreyndir mætir það andspyrnu í forustu verkalýðs,hreyfingarinnar, að henni sé gefinn kostur á að hafa í sinni þjónustu hagstofnun undir eigin stjórn til að gera sér raunhæfa grein fyrir stöðu í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Það þykir hættulegt. Máski gæti það komið kaupgjaldsbaráttunni út af því stigi hálfpólitískra upphlaupa, sem hún öðrum þræði hefur verið á um skeið og sumir vilja telja eðli hennar og tilgang og bregðast heldur illa við, þegar aðrir og verkfallsréttarlausir aðilar ná árangri í sinni kjarabaráttu.

Hin pólitíska flokkagreining á Íslandi er um þessar mundir nálægt því hálfrar aldar gömul að stofni til. Þá var atvinnustéttaskipting með allt öðrum hætti í landinu en nú er, bændaþjóðfélag að mestu. Flokkarnir þrír studdust einkum við fjármagnseigendur, bændastétt og verkalýð. Verkalýðsflokkurinn er nú illu heilli skiptur í margar greinar, og þess gjalda vinnustéttirnar í dag. Hann klofnaði fljótlega í tvennt eftir því, hvert menn vildu sækja sínar þjóðfélagsfyrirmyndir. Þá var í sköpun nýtt þjóðfélag eftir byltinguna í Rússlandi austur þar, og bundu margir vonir við það sem fyrirmynd, en aðrir töldu það fremur víti til varnáðar, og leiðir flokksmanna skildust að. Hið rússneska þjóðfélag er líka komið yfir hálfa öld í aldri og hefur slitið öllum barnsskóm. Ekki þarf lengur að líta til þess sem óráðins hlutar í von eða vantrú. Það hefur sýnt bæði styrk sinn og veikleika, og nú munu þeir næsta fáir, Íslendingarnir, sem kysu að búa í íslenzku þjóðfélagi, sem væri af rússnesku gerðinni. Þar með er raunar fallin öll forsenda fyrir því að halda hinni pólitísku sundrungu áfram í þeirri hreyfingu, sem vill standa að baráttu fyrir blómlegum hag íslenzku vinnustéttanna, íslenzkrar alþýðu.

Á þessum vetri barst mínum gamla þingflokki boð um viðræður um framtíð vinstri hreyfingar á Íslandi. Þegar það fékkst ekki rætt á þingflokksfundi, heldur var svarað afgæðingi í nafni alls þingflokksins þrátt fyrir mín mótmæli, fann ég, að ég átti ekki lengur heima í þeim röðum, og skildu þar leiðir. Ég tel mikla nauðsyn til þess bera, að málsvarar íslenzkrar alþýðu láti ekki afgamalt argaþras um ágæti rússnesku byltingarinnar 1917 og þess þjóðfélags, sem upp af henni spratt, halda sér sundruðum, heldur taki að vinna saman, því að verkefnin blasa svo sannarlega við. Sjálfur var ég lengi meðal þeirra, sem töldu rússneska þjóðfélagið til fyrirmyndar. Þau viðhorf hafa verið að breytast á síðari árum. En þótt hinir fyrri félagar mínir á Alþ. hafi gert mér ósætt á sínum bekkjum, hefur það í engu breytt viðhorfum mínum til þjóðmála. Ég hef um hríð starfað sem utanflokkamaður á Alþ. og utan flokka ætla ég að vera, þar til alþýðuhreyfin in á Íslandi nær að sameina eitthvað krafta sína.

Í komandi kosningum hafa alþýðuflokksfélögin á Suðurlandi boðið mér að skipa efsta sæti á framboðslista sínum, þótt ég sé ekki þeirra flokksmaður. Þetta boð hef ég um skeið haft til athugunar og nú ákveðið að taka því. Ég tel boðið órækan vott þess, að vilji er mikill fyrir því hjá alþýðu landsins, að kraftar vinstri manna nái að sameinast til starfa í þjóðmálum á þann hátt, að gamlar kreddur og margfyrndar ýfingar verði ekki látnar ráða ferðinni, heldur verði snúið beint að þörfum íslenzkrar alþýðu eins og þær eru í dag, og það er mér vissulega vel að skapi að vinna að því. Ætlar þú þá að gerast stuðningsmaður ríkisstj.? er spurning, sem mér þætti eðlilegt, að til mín væri beint. Þar er því til að svara auk þess, sem ég hef áður sagt í þessari tölu, að núverandi stjórnarsamningur er útrunninn við lok kjörtímabilsins, og eftir kosningar hlýtur því að koma til nýrrar samningsgerðar einhverra manna eða flokka um nýja stjórnarmyndun. Nú er svo ástatt, að allir flokkar telja sig geta gengið til samstarfs við hvern sem er, ef þeir ná því fram í stjórnarsáttmála, sem þeim hverjum um sig finnst mestu máli skipta. Þetta á einnig við um mig. En ég get hins vegar ekki á sama hátt og flokkarnir vitnað til einhverrar prentaðrar langloku með frómum óskum, sem þeir kalla stefnuskrá, og sagt: Þetta tel ég mín mál. Ég get að sjálfsögðu ekki heldur rakið hér viðhorf mín til margra málaflokka, en engu að síður vil ég greina frá því hér og nú, hvað mér er efst í huga um verkefni stjórnvalda á næstu mánuðum.

Starfsmat er nú látið ráða miklu um lífskjör hópa fólks. Ekki verður það talið óeðlilegt, enda þótt þess sé tæpast að vænta, að þess háttar mat verði óumdeilt eða samþykkt af öllum. Ég tel, að framleiðslustörf í íslenzku þjóðfélagi, einkum störf að útflutningsframleiðslunni til sjós og lands, séu vanmetin og vanborguð. Fólkið, sem að þeim vinnur, býr ekki við þau kjör, sem svara til þess, hvað hlutverkið í þjóðfélaginu er mikilvægt. Þessa skekkju í því, sem kalla mætti hið almenna starfsmat, tel ég, að nýjum stjórnvöldum beri að leiðrétta. Það væri hvort tveggja í senn réttlætismál gagnvart vinnandi fólki og hagsmunamál alls þjóðfélagsins. — Góða nótt.