06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

Almennar stjórnmálaumræður

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Já, vaxtarbroddurinn í íslenzkum stjórnmálum er hjá Alþb., sagði Magnús Kjartansson áðan. Ég vil segja, að þessu sé þveröfugt farið. Flokkurinn er dauðkalinn í toppinn. Magnús Kjartansson, 6. þm. Reykv., hefur mikið álit á sjálfum sér. Allt telur hann sig vita bezt. Í öllum málum hefur hann talið sig geta vísað veginn. Svo þreyttir hafa alþm. orðið á þessum sjálfumglaða manni, að næst hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur hann í vetur talað yfir tómustum sal. Um hann hefur þessi þingvísa verið kveðin:

Furðuefni er Magnús mér,

metnað þannig svalar:

til að heyra í sjálfum sér

sýknt og heilagt talar.

Góðir hlustendur. Vegir liggja til allra átta, segir í kunnum dægurlagatexta. Við stöndum daglega í þeim sporum að verða að taka ákvarðanir um úrræði og leiðir í ýmsum málum. Oft kannski svo dagsdaglegum, að við finnum varla fyrir ákvörðunum okkar. Við tökum þær samkv. venjubundnum bætti. Stundum eru málin hins vegar svo óvænt, að við hrökkvum við undan ábyrgðinni, sem á okkur er lögð. Við hikum, hugsum okkur um, hvaða úrræði á að velja, hvaða leið á að taka. Hér er það, sem lífsskoðanir okkar og lífsreynsla eru kvödd til ráðuneytis og aðstoðar við töku ákvörðunar, ef við erum hugsandi fólk, en gerumst sporgöngumenn á fjöldans slóð, ef okkur skortir manndóm og þrek til að taka eigin ákvarðanir. Pólitík? Hvaða tík er nú það? sagði karlinn. Stjórnmál, pólitík, hafa mörg hæðiyrði hlotið, og fjöldi manna fullyrðir, að það sé mannskemmandi að koma nærri pólitík. Þó er hún óumdeilanlega eitt þeirra mála, sem menn verða nauðugir viljugir að taka afstöðu til. Hún grípur inn í líf hvers einasta manns í þjóðfélaginu, uppfræðslu hans, félagsleg hlunnindi, atvinnu, efnahag. Hver einasti kjósandi í landinu hefur sín áhrif á hina voðalegu „tík“, pólitíkina. Jafnvel það að sitja heima á kjördegi hefur pólitískar afleiðingar. Og pólitíkin krefst þess, að menn taki afstöðu, taki ákvarðanir, stórar og afdrifaríkar ákvarðanir. Það heitir að kjósa, kjósa sér stjórn á uppfræðslu barna sinna, lífsafkomu þeirra og sinni, félagslegum réttindum, atvinnuháttum o.s.frv. Margir hugleiða vel þá ákvörðun sína að kjósa, vega og meta vandlega, hver áhrif þessi flokkur eða hinn hefur haft á líf þeirra og þjóðarheildina. Aðrir kasta höndum til þessa undirstöðuatriðis þess stjórnarfars, sem við köllum lýðræði. slíkt er mjög miður farið.

Nú er að ljúka einu kjörtímabili enn. Enn standa kjósendur landsins frammi fyrir þeirri örlagaríku ákvörðun að kjósa, kjósa sér stjórn yfir fræðslumál sín, atvinnuhætti, félagsmál, sambúð við aðrar þjóðir. Vegir liggja til allra átta. Að ákveða sig, taka ákvörðun með einum flokki fram yfir annan, er mikill ábyrgðarhluti og ákveðinn trúnaður við þjóðfélag sitt. Ugglaust bognar einhver undir þessari ábyrgð, eins og margur hefur gert fyrr, kýs fremur eftir venju en vandlegri íhugun. Það er léttara að feta slóð fjöldans og vanans en brjóta sér braut. Þó eru það þeir, sem hugsa og hugleiða, sem að lokum bera uppi merkin. Alþfl. hefur alltaf talað fyrst og fremst til slíkra kjósenda, en forðazt lýðskrum og tilfinningaáslátt. Hann vill leysa þjóðfélagsvandamálin eftir leiðum lýðræðissósíalismans, jafnaðarstefnunnar, og freista þess að ná um það sem viðtækastri samstöðu án ofríkis. Alþfl. hefur ekki að boðorði allt eða ekkert. Fæstum gefst að taka framfarabrautina á sjö mílna skóm. Flestir verða að fara hana fetið og verða ekki menn að minni. Þetta gildir jafnt um þjóðir sem einstaklinga.

Nú haldið þið kannski, ágætu hlustendur, að ég muni taka að berja stríðsbumbur, hella úr skálum reiðinnar yfir andstæðinga Alþfl. og finna þeim allt til foráttu. En þeim sem hún rar í slíkt orðaregn verð ég að valda vonbrigðum. Ég miða mál mitt við hinn almenna hlustanda, sem veit jafn vel og ég, að allir flokkar hafa til síns ágætis nokkuð og allir sínar veiku hliðar, og í öllum flokkum eru ágætismenn og líka gallagripir. Flokkar eru myndaðir af mönnum og svona er nú einu sinni mannleg náttúra. Menn gera sér ekki flokkamun, svo að miklu nemi. Ég ætla hins vegar að biðja ykkur að lita með mér á nokkur mál, sem Aþfl. hefur haft forustu um í núverandi stjórnarsamstarfi og rifja þannig upp í stórum dráttum, hvernig flokkurinn starfar.

Lítum fyrst á menntamálin. Þar hefur Alþfl. um mörg ár farið með æðstu yfirstjórn. Þar hafa geysilegar umbreytingar átt sér stað, vísast þó hvergi eins og í sveitum landsins. Þegar Alþfl. tók við yfirstjórn skólamálanna, bjuggu margar sveitir enn við farskólastigið, aðrar við mjög lélegan skólahúsnæðiskost. Nú eru víðast risin glæsileg skólahús yfir skyldunámsstigið, vísir kominn að námskostnaðarsjóði til að jafna námsaðstöðu ungmenna og vaxandi alúð lögð við kennaranám, svo að kennsla megi hvarvetna verða sem bezt. Sams konar þróun hefur orðið í kaupstöðum og kauptúnum og möguleikar til fjölbreyttara náms verið auknir stórlega. Auðvitað veit Alþfl. vel, að hann hefur ekki einn unnið þetta stórvirki í skólamálum landsins. Hann hefur notið ágætrar samvinnu samstarfsflokks til þessa, einnig fjölmargra mætra einstaklinga úr stjórnarandstöðuflokkunum. En Alþfl. hefur óumdeilanlega haft alla forustu um málin, og honum er það stolt og gleði að hafa getað það fyrir tilstyrk kjósenda sinna.

Alþfl. hefur um allmörg ár farið með yfirstjórn húsnæðismálanna hér á landi. Þar hafa þau undur gerzt að segja má, að meginhluti fullorðinna íslendinga séu kóngar og drottningar í eigin höllum. Ég veit, að ykkur finnst í fyrstu, að þetta séu gífuryrði. En hugsið ykkur um. Ég veit, að þið skuldið svo og svo mikið í íbúðum ykkar mörg hver, en í sárafáum löndum, ef nokkru, býr jafnstór hluti þjóðarinnar í eigin húsnæði og á Íslandi. Þetta hefur þjóðinni tekizt fyrir einstæða atorku sína og fyrir geysileg fjárframlög á vegum hins opinbera til byggingamála. Engum er ljósara en Alþfl., að hér er enn mikið verk að vinna, og engum er ljósara en honum, að til þess, sem gert hefur verið, hefur hann notið ágætrar aðstoðar samstarfsflokks og fjölmargra einstaklinga í stjórnarandstöðu, sem skilið hafa mikilvægi þeirra mála. Er. yfirstjórnina hefur Alþfl. haft og í ýmsum úrræðum hefur hann átt algert frumkvæði. Þar hefur félagshyggja og samhjálparhugsjón jafnaðarstefnunnar vísað veginn.

Næst nefni ég stjórn Alþfl. á sjávarútvegsmálum um mörg undanfarin ár. Undir hans yfirstjórn hefur veiðifloti landsmanna verið endurbyggður að meginhluta, fiskleit og ýmiss konar rannsóknir á hafinu umhverfis landið og lífinu þar verið aukið að miklum mun, veiðitækni landsmanna aukin stórlega. Má fullyrða, að hefði ekki verið vakað hér á verðinum, svo sem raun ber vitni, hefðum við hlotið óbætanlegt efnahagslegt áfall, þegar síldveiðarnar brugðust. Auðvitað vann Alþfl. ekki einn þetta björgunar- og sóknarstarf, en hann hafði forustuna um það. Yfirstjórnin var hans.

Loks vil ég svo minnast á almannatryggingar sem dæmi um, hvernig Alþfl. stendur að málum, þótt ég viti, að það sé gagnvart hv. stjórnarandstöðu eins og að strjúka ketti öfugt við hárin. Fyrst skulum við minnast þess, að allar umtalsverðar lagasetningar varðandi almannatryggingar hafa verið settar undir félagsmálastjórn Alþfl. Fyrst 1936 í samvinnu við Framsfl., 1946 í samvinnu við Sjálfstfl. og Sósfl. og síðan allar umtalsverðar breytingar í samvinnu við Sjálfstfl. Alþfl. hefur þokað almannatryggingunum fram til betri vegar í áföngum. Stærstu áfangaárin síðan 1946 eru 1961, 1964 og nú 1971. Engum er ljósara en Alþfl., að langt er í land, unz þessi mál komast í fullnægjandi horf. Áfram þarf þrotlaust að vinna. Næsti áfangi þarf að verða sá, að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga verði svo hár, að hann ásamt öðrum hugsanlegum örorku- og eftirlaunum manna verði nægur til lífsviðurværis. En menn skulu minnast þess, að allt frá upphali og fram til þessa dags hefur elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga aðeins verið hugsaður sem stuðningslífeyrir, aldrei fullnægjandi lífeyrir til að lifa af. Það var draumur margra, að lífeyrir fyrir alla landsmenn, byggður upp eftir nokkuð öðru kerfi en almannatryggingar, skyldi brúa bilið. Því miður hefur sá lífeyrissjóður ekki komizt á, heldur vaxa nú upp ýmiss konar sérlífeyrissjóðir, og kann að verða vandleyst framkvæmdaatriði að koma þeim eftirlaunamálum öllum vel heim og saman.

Eins og landsmenn hafa fylgzt með, hefur Alþ. nú samþykkt talsverðar endurbætur á almannatryggingalögunum. hessar eru helztar: Bætur hækka almennt, nema fjölskyldubætur, um 20%, barnalífeyrir þó um 40%. Þetta eru grunnbætur, þ.e. verði hækkanir á almennu kaupi verkafólks, hækka almennar tryggingabætur hlutfallslega að auki jafnmikið. Þá er barnalífeyrir greiddur til 17 ára aldurs í stað 16 ára, og menn verða ekki iðgjaldsskyldir til almannatrygginga fyrr en við 17 ára aldur í stað 16 áður. Greiða ber ekklum barnalífeyri, sem var aðeins heimild til áður. Ekkjubótatími lengist úr 3 og 9 mánuðum upp í 6 og 12 mánuði. Ekkjulífeyrisréttur er rýmkaður þannig, að ekkja kemst á fullan ekkjulífeyri við sextugsaldur í stað 65 ára nú. Elli- og örorkulífeyrisþegar, sem fara á sjúkrahús, skulu halda óskertum bótum í 4 mánuði í stað eins áður. Tekjulausum elli- og örorkulífeyrisþegum eru tryggðar vissar lágmarksbætur um 1120 kr. á mánuði auk venjulegs elli- og örorkulífeyris. Þá eru ýmsar heimildarbætur rýmkaðar og sjúkrasamlagsréttindi aukin. Loks verður stofnuð innan Tryggingastofnunarinnar deild, sem annast skal velferðarmál aldraðra. Er enginn vafi á, að í höndum hæfra manna til slíkrar umsjár getur hér orðið um mikið hagsmunamál aldraðs fólks að ræða, og mun Alþfl. vaka vel yfir því.

Þar sem breytingar þær, sem ég nú hef lýst, og bótahækkanir taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 1972, hafa andstæðingar Alþfl. kallað þær 9 mánaða kosningavíxil, auk þess sem þeir þykjast hafa viljað margt betur. Alþfl. mun minnast þess við fyrsta tækifæri, að hann á nú vísa hauka í horni um meiri endurbætur, þar sem stjórnarandstaðan er. Þá verður gott að eiga góða að. Hitt þykir skynsamlegt nú að ætla sér af. Alþfl. veit sem sé, þótt öðrum gleymist það í kosningaglímuskjálfta, að allar bótahækkanir þarf að greiða einhvers staðar frá. Ríkið þarf auknar álögur til framlagsins, sveitarfélög þurfa að leggja hærri útsvör á vegna síns framlags, iðgjaldagreiðendur, fólkið á aldrinum 17–67 ára, þurfa að bera hærri iðgjöld. Um þá gjaldendur þarf líka að hugsa. Á þá leggst í ár stórhækkað iðgjald vegna mikilla bótahækkana á s.l. ári sökum kaupgjaldsbreytinga þá. Alls hækkuðu bótagreiðslur um 26% á s.l. ári og 8.2% í ársbyrjun nú. Hér er því alls um umtalsverðar bótahækkanir að ræða, þótt andstæðingar Alþfl. reyni að fela það.

Ég minni á, að þó að grunnkaupshækkanir bótanna taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1972, hefur kaupmáttur bóta ekki dregizt aftur úr kaupmætti almennra launa verkafólks, en það er sá samanburður, sem hafður hefur verið til hliðsjónar. Ég minni á þetta vegna hæðilegra orða forseta Alþýðusambands Íslands við umr. um mál þetta hér í deild, hv. 9. þm. Reykv., Hannibals Valdimarssonar, um vesaldóm Alþfl. í forsvari fyrir bótaþega. Varla hefur þessi ágæti verkalýðsforingi ætlað að hæða forustu sína í leiðinni í kaupgjaldsmálum. Því hefur hann með öllum sínum dugnaði ekki náð nema að halda hlutfallslega í við almannatryggingabæturnar undir stjórn hinna „vesælu“ Alþfl.-manna? mætti gjarnan spyrja. Það sannast stundum, að þeir sletta skyrinu, sem sízt mega. Og það er gott að skjóta því að hér vegna ræðu hv. 6. landsk., Geirs Gunnarssonar. Hann var að tala um, hve bætur almannatrygginga væru lágar og auvirðilegar. Sjálfur lét hann sér sæma að vera ekki við við atkvgr., þegar greitt var atkv. um ýmis atriði varðandi almannatryggingalögin.

Stjórnarandstöðunni verður tíðrætt um þá voðalegu kollsteypu, sem hér verði, þegar verðstöðvun lýkur 1. september n.k. Enginn veit í dag, hver hún verður eða hvort hún verður nokkur. Þar ræður aflafengur landsmanna sem og markaðsverð mestu um. En verði umtalsverðar almennar kauphækkanir á tímabilinu 1. september til 31. desember í ár, hefur núv. tryggingamálaráðh., Eggert G. Þorsteinsson, lýst yfir, að ráði Alþfl. þá tryggingamálum, muni almannatryggingabætur hækkaðar þegar í stað hlutfallslega við kauphækkun. Ég leyfi mér að skora á forsvarsmenn hinna flokkanna að gefa sams konar yfirlýsingar. Það verður eftir því tekið, ef þeir gera það ekki.

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur. Innan fárra vikna verðið þið, kjósendur góðir, að taka mikilvæga ákvörðun fyrir ykkur sjálf og þjóðina alla og kjósa okkur stjórn yfir land og þjóð um næstu 4 ár. Vegir liggja til allra átta. En það er ekki hollt, að engir ráði för og velji ekki, hvaða veg á að taka. Forustan skiptir sem sé höfuðmáli. Alþfl. hefur sannað ykkur á 50 ára ferli sínum, að honum má treysta til hollra verka fyrir þjóðina. Hann rekur aldrei ævintýrapólitík. Þið vitið alltaf, hvað þið veljið, þegar þið veljið hann. — Góða nótt.