06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

Almennar stjórnmálaumræður

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þá er síðasta. þingi þessa kjörtímabils að ljúka. Hinn pólitíski dómsdagur verður 13. júní í vor. Þeim degi kvíðir ríkisstj. Þá verða liðin tólf og hálft ár síðan núv. valdasamsteypa hóf ráðsmennsku sína í þjóðarbúinu. Enn mun sú hugsjón gnæfa yfir allt annað í hugum þeirra, sem ráðherrastólana hafa skipað, að þeir muni eiga þar athvarf saman að næstu kosningum loknum, þó að nú sé talið henta að gefa ekki yfirlýsingar um slíkt.

Kosningaundirbúningur valdhafanna er með sama hætti og 1967. Svokölluð verðstöðvun var sett á nú eins og þá; nokkur lög sett nú eins og þá, sem lofa fólkinu ýmsum fríðindum, sem ekki eru þó látin taka gildi fyrr en nokkrum mánuðum eftir kosningar. Þannig komast þeir hjá að fara beint ofan í vasa skattborgaranna nú strax. Gull og grænir skógar verða sýndir almenningi í hillingum, og sagt verður við kjósendur: Allt þetta skal ég gefa yður á árinu 1972. Þess vegna eru ýmis lög, eins og t.d. hin nýju tryggingalög ekki látin taka gildi, hvað auknar bætur snertir, fyrr en sex og hálfum mánuði eftir kosningar. Loforð eru gefin, en efndir geymdar. Þeir vona, að sætur hljómur kosningaloforða og verðstöðvunarhjal lengi setuna í valdastólunum enn um 4 ár.

En sem betur fer gætir þess nú víða, að þjóðin er að vakna af þeim pólitíska dvala, sem viðreisnarsöngur valdhafanna hefur fært hana í. Mörgum er nú að verða ljós hættan af skuldasöfnun stjórnarinnar erlendis, sem aukizt hefur jafnt og þétt á hinum mestu framleiðni- og velgengnisárum, sem yfir land vort hafa komið. Um slíkt bera vitni alþjóðlegar skýrslur, sem sýna, að þjóðarframleiðslan hefur hin síðari ár verið meiri hér að meðaltali á íbúa en í flestum öðrum löndum heims. Á 10 árum, frá 1960–1969, óx skuldasúpan erlendis um rúmlega helming, og eru þá umreiknaðar til núverandi gengis skuldatölur 1960. Þá voru erlendar skuldir á núverandi gengi 5746 millj. kr., en í árslok 1969 eru erlendar skuldir 11 726 millj. kr. Þær hafa þá aukizt um 100%. Greiðslubyrði þjóðarinnar af þessum erlendu lánum var í hlutfalli við tekjur af vörum og þjónustu 9.9% árið 1960, en 17% árið 1969. Það er um 70% hækkun. Allar þessar tölur er að finna í 2. hefti Fjármálatíðinda 1970. Sú þjóð, sem verður að greiða öðrum þjóðum vegna skulda 17% af öllu, sem hún fær fyrir útflutning sinn, sú þjóð er komin út á hálan ís, ef eitthvað ber út af með framleiðslu, verðlag eða markaði.

Þá vil ég minnast hér á hina miklu aukningu í starfsmannakerfi ríkisins, sem margir þegnar landsins horfa á með vaxandi andúð, sem eðlilegt er. Meginhlutinn af öllum þeim geysilega háu sköttum, sem ríkisvaldið leggur á þegnana, bæði beint og óbeint, fer til þess að borga laun. Embættismannabáknið stækkar með hverju ári. Stundum fjölgar svo að hundruðum skiptir á ári. Á sama tíma fækkar þeim, sem stunda framleiðslustörfin til lands og sjávar. Talið er, að hundruð manna vanti nú til starfa á fiskiflotanum, og leitað hefur verið í útlöndum eftir fólki. Hvað getur slíkur búskapur gengið lengi? Að þeim fækki, sem afla þjóðarteknanna, en hinum fjölgi að sama skapi eða meira, sem þarf að launa við lítt arðbær eða óarðbær störf.

Framleiðslustörfin þarf að auka og hjálpa atvinnuvegunum til að gera þessi störf sem arðbærust fyrir þá, sem þau stunda. Hins vegar þarf að skipuleggja alla opinbera þjónustu ríkis og sveitarfélaga, þannig að stöðvuð verði hin sífellda útþensla, sem þar hefur farið vaxandi á hverju ári síðasta áratug. Ríkisstj. hefur verið á sífelldum flótta undan því verkefni að stöðva þann ofvöxt, enda sýna verkin merkin. Það skal játað, að hér er um verk að ræða, sem bæði krefst áræðis og góðrar samstöðu valdhafa og Alþingis. En í staðinn fyrir að takast á við þennan vanda virðast valdhafarnir hafa verið í kapphlaupi um að hlaða undir gæðinga sína í ríkiskerfinu og fjölga þeim. slíkri stjórn á þjóðin ekki að una lengur, og hverjir sem valdhafar verða að kosningum loknum, þá á þjóðin að heimta af þeim með harðri hendi, að á þessu. sviði verði breytt um starfshætti.

Það, sem landbúnaðinn skortir umfram allt annað nú, er stóraukið lánsfé til langs tíma með vægum vöxtum. Í landinu búa um 5000 bændur, og fólkið í sveitum landsins er nú ekki orðið nema um 10% af þjóðinni. Framleiðsluverðmæti landbúnaðarins er eitthvað yfir 4 milljarða kr. með núgildandi grundvallarverði. Um 90% af þessari framleiðslu er notað af þjóðinni sjálfri. Allir hljóta því að sjá hina miklu þýðingu, sem starf bændastéttarinnar hefur fyrir þjóðarbúskapinn. Þó að ýmislegt hafi verið gert fyrr og síðar bændum og landbúnaði til stuðnings af hálfu hins opinbera með löggjöf, þá þarf nú að taka þau mál nýjum tökum í samræmi við breyttar aðstæður. Hinar miklu gengisfellingar, sem ríkisstj. hefur fjórum sinnum á valdatíma sínum beitt sér fyrir og síhækkandi sköttum í alls konar myndum, hefur leitt til gífurlega aukinnar fjármagnsþarfar hjá bændum. Með tilliti til reynslunnar af þessum aðgerðum þarf að taka vandamál landbúnaðarins til nýrrar, gagngerðrar endurskoðunar og búa svo um hnútana, að eðlileg kynslóðaskipti geti farið fram á jörðum og bændastéttin geti átt allgreiðan aðgang að eðlilegri fyrirgreiðslu um rekstrarfé.

Telja má, að skipta þurfi árlega um ábúendur á 200–250 jörðum, ef frumbýlingar eiga hvergi aðgang að lánum til bústofns- og jarðakaupa nema í veðdeild Búnaðarbankans, sem er nær félaus. Hámarkslán þar eru 200 þús. kr. til kaupa á jörð, og ættu allir að sjá, að slíkt hirðuleysi valdhafanna um fyrirgreiðslu við þá, sem vilja og þurfa að kaupa jörð, hlýtur að leiða til þess fyrr en varir, að landbúnaðurinn bíður af því varanlegt tjón og ungu bændaefnin verða að hrökklast úr sveitunum. Þeir, sem vilja kaupa fiskibát, þeir eiga betri fyrirgreiðslu að fagna, þar sem þeim eru tryggð 90% að láni af bátsverði, og ber að fagna svo góðri fyrirgreiðslu. Þeir, sem nú hefja búskap, geta varla byrjað með minna stofnfé en 3–4 millj. kr. Af því er jarðarverð ekki minna en helmingur. 200 þús. kr. til slíkrar fjárfestingar bjargar fáum. Eðlileg lífskjör og traustur landbúnaður geta ekki þróazt í sveitunum nema rösklegar aðgerðir löggjafans komi til á fjármálasviðinu og heilbrigðu fjárfestingar- og rekstrarlánakerfi verði komið á laggirnar. Núverandi valdhafar hafa brugðizt því hlutverki.

Enn munu þessir sömu valdhafar keppa að því marki að geta einir öllu ráðið næstu 4 ár í viðbót við þau 12, sem þeir hafa setið að völdum. Ráðh. hafa gránað á hár og guggnað á svip við allt gengisfellingabröltið, og sýnist nú mörgum, að hvíld í náð væri sú gjöf til þeirra, sem þjóðinni væri bæði sæmd og hagurinn beztur að veita þeim í næstu kosningum.

Það eru ýmsir farnir að tala mjög um, hvort við Íslendingar séum raunverulega lýðræðisþjóð, þegar sömu flokkar eru látnir fara svo lengi með völd óslitið og ekki sízt, þegar tekið er tillit til valdskiptingarinnar. Alþfl., sem ekki hefur á bak við sig nema 9 þm. og 15.7% atkvæðamagnsins, hefur þrjá ráðh. af sjö og ræður öllu til jafns við hinn stjórnarflokkinn, sem hefur þó 23 þm. og 37.5% atkvæða. Þetta er sú útgáfa af lýðræði, sem Íslendingar búa við og verða látnir hala framvegis, ef þjóðin ekki tekur sig til og minnkar fylgi þessara flokka í vor. Hinir flokkarnir á Alþ., Framsfl. með 18 þm. og 28.1% atkvæðafylgi þjóðarinnar og Alþb., sem fékk 17.6% atkv., eiga ekki einn einasta nefndarformann á Alþ. eða nefndarskrifara, hvað þá þingforseta. slíkt þingræði og lýðræði er nú orðið ekki þekkt hjá öðrum þjóðum, sem við lýðræði búa. Það verður að leita til Spánar, þar sem Franco ríkir, eða til Portúgal, þar sem Salazar drap lýðræðið með þrásetu, til að finna slíkt. Engin rödd hefur opinberlega heyrzt frá stjórnarflokkunum um að breyta þurfi þessu. Hins vegar lét menntmrh., formaður Alþfl., þá fyrirætlan ríkisstj. uppi í vetur, að hún mundi beita sér fyrir því að sameina deildir Alþ. í eina málstofu, en slík breyting á stjórnarskránni hefði það í för með sér, að þá væri hægt að mynda þingmeirihluta með 31 þm. í staðinn fyrir, að nú þarf til þess 32 þm. Ríkisstj. gæti þannig hangið við völd með eins atkvæðis meiri hl. á þingi. Þannig getur valdasýkin leitt menn af lýðræðisbrautinni út á refilstigu, og þannig hafa sumir stjórnmálamenn í öðrum löndum gert lýðræðishugsjónina að tröppu upp í hásæti einræðisins.

Þjóðin hefur þá skyldu við sjálfa sig, land sitt og niðja að koma í veg fyrir áframhaldandi þrásetu núverandi valdhafa. Þetta verður hún að gera með því að fækka þm. stjórnarflokkanna í vor, en fjölga þess í stað þm. Framsfl. Ég heiti á alla, sem unna lýðræði, virða Alþ. og vilja veg þess og gengi sem mest, að hjálpa til við það að efla fylgi Framsfl. Þá geta þeir búizt við, að ný vinnubrögð verði tekin upp á Alþ., þar sem hlutur flokkanna í störfum og stjórn Alþ. verði gerður jafnari, og hér verði tekin upp lýðræðislegrí vinnubrögð við stjórn á málum þjóðarinnar en þau, sem nú ríkja. — Góða nótt.