06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Samvöxnu tvíburarnir frá Síam voru mikið umtalaðir fyrir nokkrum árum, en hér hafa nú verið til umr. í kvöld samvöxnu tvíburarnir í íslenzkum stjórnmálum, Sjálfstfl. og Alþfl., sem nú hafa stjórnað landinu í 121/2 ár og búa sig undir að bæta 4 árum við þá samsiglingu, ef kjósendur lofa. Það dregur auðvitað hver dám af sínum sessunaut, hvað þá heldur þegar saman er sængað í einingu andans og bandi friðarins á annan áratug samfleytt eins og í þessu einstæða tilfelli, enda taldi vitur og orðvar Alþfl.-maður fyrir skemmstu, að svo ömurlega væri nú komið, að kjósendur Alþfl. gætu ekki lengur greint hann, þ.e.a.s. Alþfl., verkalýðs- og jafnaðarmannaflokkinn, frá flokki atvinnurekenda og auðmanna, Sjálfstfl. Þetta reyndist rétt vera í seinustu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, og kynni þó svo að fara, að fleirum fataðist aðgreiningin í alþingiskosningunum í vor.

Alþfl. hefur lýst því yfir, að samstarf hans og Sjálfstfl. verði órofið allt fram til kjördags, en úr því verði hann með óbundnar hendur, eins og það er orðað. Já, einmitt það, með óbundnar hendur. Nú hefur Alþfl. þó bundið sig á einn og sama streng með Sjálfstfl. í stærsta framtíðarmáli íslenzku þjóðarinnar, landhelgismálinu. Þau tengsl standa þó a.m.k. eitthvað fram yfir kjördaginn, og einhverjir leyniþræðir kynnu líka að finnast aðrir, ef vel væri leitað.

Í rauninni eru kosningarnar 13. júní þjóðaratkvgr. um landhelgismálið. Kjörtímabil þeirrar ríkisstj., sem myndast upp úr kosningunum, er til 1975, en örlög málsins ráðast á miðju kjörtímabilinu á fyrirhugaðri alþjóðaráðstefnu um landhelgismál 1973. Málið verður því í höndum væntanlegrar ríkisstj. Til hennar þyrfti því vel að vanda.

Alþfl.-ráðherrann Emil Jónsson kallar það siðlausa ævintýrapólitík að segja brezka samningnum upp. Þau orð sanna fullkomlega, að núverandi stjórnarflokkar taka ekki í mál neina uppsögn á þessum helga samningi. En það er augljóst mál, og nú bið ég ykkur, góðir hlustendur, að taka vel eftir, að það verður engum, bókstaflega engum aðgerðum fram komið í landhelgismálinu til stækkunar út fyrir 12 mílur, meðan brezka samningnum hefur ekki verið sagt upp. Um það er tómt mál að tala. Þess vegna er það staðreynd þrátt fyrir alla orðafroðuna í landhelgistillögu stjórnarflokkanna, að hún er ekki um neinar aðgerðir, enda er í henni vandlega forðazt að nefna, hvað skuli gert eða hvenær. Allt er þetta svífandi. Nefnd skal kosin til að semja frv. og unnið skal áfram að málinu o.s.frv. Nákvæmlega sama og sagt hefur verið í s.l. 13 ár allt frá 1958 og leitt hefur til algers aðgerðarleysis í landhelgismáli Íslendinga. En sama væri hversu stór orð væru höfð um stækkun íslenzkrar landhelgi af þeim, sem ekki vilja segja brezka samningnum upp. Þeir, sem þá afstöðu hafa, geta engu um þokað. Þeir geta ekki stækkað íslenzka landhelgi um eina einustu mílu, hvað þá meir. Þeir af vinum landhelgismálsins, sem láta það henda sig að kjósa stjórnarflokkana þann 13. júní, eru því vitandi eða óvitandi að biðja um aðgerðarleysi í landhelgismálinu. Svona ljóst liggur málið fyrir.

Ég vil víkja örlítið nánar að siðleysisbrigzlum Emils Jónssonar utanrrh. í garð okkar stjórnarandstæðinga í landhelgismálinu, ef við leyfum okkur að segja brezka samningnum upp, þótt með rúmum fyrirvara sé. Við höfum sett tímatakmarkið 1. september 1972. Þangað til eru eitthvað um 17 mánuðir. Við getum því ætlað okkur mjög rúman tíma til viðræðna við Breta og Þjóðverja um landhelgismálið og síðan sagt samningunum upp, ef viðræðurnar bera ekki árangur, með hálfs til allt að eins árs fyrirvara. En hvernig hefur þetta gerzt áður, þegar við höfum stækkað landhelgi okkar einhliða? Jú, árið 1.950 var reglugerð gefin út 22. apríl, og hún gekk í gildi 1. júní. Fresturinn var maímánuður og 8 dagar af apríl. Var þetta siðleysispólitík hjá Ólafi Thors? Ég leyfi mér að spyrja um það. Hafi svo verið, er það þó víst, að Emil Jónsson var stuðningsmaður og þátttakandi í því siðleysi. Og hvernig gekk það til árið 1952? Jú, þá var reglugerð gefin út 19. marz, og hún tók gildi 15. maí eftir tæpa tvo mánuði. Enn má spyrja: Var þetta siðlaus ævintýrapólitík hjá þeim mætu mönnum Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni? Ég segi nei. En fullvíst er um hitt, að þá var siðferði hæstv. ráðh. Emils Jónssonar ekki á hærra stigi en það og ævintýramennska hans í pólitík slík, að hann tók þátt í þessu af lífi og sál. Kannski er lítil stoð í því að vitna til ársins 1958, þegar við tókum okkur 12 mílna landhelgi, því að þá sátu nú aðrir herrar víð stýri. En í það sinn var sami háttur á hafður. Reglugerð var út gefin þann 30. júní, sem tók gildi 1. september, eða eftir rétta tvo mánuði. Vera má, að það þyki við hæfi að stimpla það sem siðlausa ævintýrapólitík, en þá átti Alþfl. samt utanrrh. og varð ekki annars vart en Emil Jónsson legði fyllilega samþykki sitt á allar þær aðgerðir.

Nei, hæstv. utanrrh. Það duga engin fáryrði um stjórnarandstæðinga til þess að fela blygðun og aumingjaskap ríkisstj. vegna brezka samningsins, því að það er hann, sem nú herðir að og útilokar allar aðgerðir, sé honum ekki sagt upp. Undansláttur í landhelgismálinu er þjóðarvoði, því að reynslan viða um heim hefur sýnt það, að það er hægt að útrýma heilum fiskstofnum með þeirri veiðitækni, sem nú tíðkast. Útgerðarmaðurinn Einar Sigurðsson ríki rakti þetta ágætlega í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum, um eyðingu fiskstofnanna hvers á fætur öðrum. En svo spurði hann: Hvenær kemur að þorskinum? Já, hvenær skyldi koma að þorskinum? Eigum við kannski að bíða með aðgerðir, skipa nefndir og vinna áfram að málinu, þangað til þorskstofninum á landgrunni Íslands hefur verið eytt af útlendum veiðiflotum rétt við nefið á okkur?

Íslendingar hafa algera sérstöðu meðal allra þjóða heims. Engin þjóð á líf sitt og tilveru undir fiskimiðunum við strendur landsins, eins og við. Allt okkar efnahagslíf byggist á fiskimiðunum kringum landið. Áður en varir gætum við búið við fisklaust haf, ef við höfum ekki mannrænu til að losa okkur af klafa brezka samningsins og helga okkur landgrunnið allt, öll íslenzk fiskimið fyrir Íslendinga eina. Í því efni er, líkt og sjómenn segja stundum, að duga eða drepast. Sannleikurinn er sá, að siðlaus ævintýrapólitík er það eitt í landhelgismálinu að gera ekki neitt.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að tryggingamálunum. Mér tókst í örstuttu sjónvarpsviðtali einhvern tíma í vetur að vekja þjóðina til vitundar um, hvílík smánarkjör öldruðu fólki er ætlað að búa við. Öll íhaldshersingin á Íslandi tók snöggt viðbragð. Morgunblaðið játaði strax í hjartnæmri grein, að það væri skömm að þessu. Vísir tárfelldi dag eftir dag af hjartagæzku og samúð með öldruðum og Alþýðublaðið tilkynnti í snatri, að það væri verið að laga þetta. Mikil ósköp, öll tryggingalöggjöfin væri í endurskoðun. Alþfl. hefði náð samkomulagi við Sjálfstfl. um svo stórfelldar lagfæringar á tryggingunum, að hann mætti vel við una. Og svo leið tíminn nálega fram að þingslitum, en þá sást hin endurskoðaða tryggingalöggjöf. Mikill var fögnuðurinn í Alþýðublaðinu, og stærsta stríðsletur tekið fram: Bylting í tryggingamálum. Og Morgunblaðið og Vísir fögnuðu ákaft, þótt færra væri þar talað um byltingu af skiljanlegum ástæðum.

En hver er þá raunveruleikinn? Jú, margvíslegar breytingar eru að sjálfsögðu í frv. til bóta, en engar grundvallarbreytingar er þar að finna, og fáránlegt er að kenna þessar breytingar við byltingu. Ellilífeyrir og örorkubætur hækka samkv. frv. um tæpar 1000 kr. á mánuði, úr 4900 kr. í eitthvað um 5880 kr. En svo lítil sem þessi tölulega hækkun er, verður þó enn minna úr henni, þegar betur er að gáð. Kannski verður hún engin, því að frv. á ekki að taka gildi fyrr en í byrjun næsta árs. Það er furðulegt gabb að setja lagaákvæði á pappír, en setja svo allt í frystigeymslu mánuðum saman, gera ákvæðin óvirk með ákvæðum um, að lögin skuli ekki taka gildi fyrr en eftir 9 mánuði. Þetta er samt sannleikur. Bætur almannatrygginga, þar á meðal ellilífeyrir og örorkubætur, eiga ekki að hækka um eyri fyrr en 1. janúar 1972.

Annað er í frv. jafnsvívirðilegt og þetta. Allir vita, að miklar kauphækkanir hljóta að verða upp úr 1. september næsta haust, þegar svokallaðri verðstöðvun lýkur. Og nú spyrja menn: Hækka þá ekki allar bætur almannatrygginganna sjálfkrafa frá sama tíma? Nei. Um það er skýrt ákvæði í frv., að slíkar hækkanir fái gamla fólkið og aðrir bótaþegar ekki fyrr en 6 mánuðum, hálfu ári, síðar. Miðað við almennar kauphækkanir 1. október n.k. mundi ellistyrkur þannig ekki hækka fyrr en 1. apríl 1972. Þannig er nú kostulega frá því gengið. En það, sem ég hygg þó, að öldruðu fólki, sem man gömlu fátækralöggjöfina, svíði sárast við þessa endurskoðuðu tryggingalöggjöf, er það, að viðbótargreiðslur við ellilífeyri skuli að hluta koma frá sveitarsjóði og bera því ótvírætt keim af beinum sveitarstyrk. Þá mun flestum finnast fáránlegt, að ríkisstj., sem er að fara frá, því að auðvitað fer hún frá, skuli gefa út slíka ávísun á næstu ríkisstj. og það, sem enn verra er, að það er engin innstæða til fyrir þessari 500 millj. kr. ávísun. Það er því einn liðurinn í hrollvekjunni miklu, sem núv. ríkisstj. horfist í augu við og skilur eftir sig að loknum 12 ára stjórnarferli.

Ömurlegastur vitnisburður er þetta þó um Alþfl., sem svo er orðinn villur vegar, að hann lýsir ánægju sinni yfir þessari úrlausn tryggingamálanna og virðist ætla að rifna af oflæti yfir því, sem hann kallar byltingarkenndar umbætur í tryggingamálum, sem þó eru fals eitt.

En það hefur nú gerzt rétt fyrir skömmu, að Sigurður Ingimundarson, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, sem með þessi mál á sérstaklega að fara í framkvæmd og hefur verið í þingflokki Alþfl., hefur nú hætt við að vera í framboði fyrir Alþfl. í þessum kosningum. Sú ákvörðun hygg ég, að segi sína sögu.

Ekki kemst ég hjá því að fara nokkrum orðum um launamálin og afskipti ríkisstj. af þeim. Þann 19. júní s.l. náðu verkamenn eftir langdregið samningaþóf, þriggja vikna fórnfreka verkfallsbaráttu, fram 15–18% kauphækkun. Þessi lagfæring gerði lítið betur en vinna upp þá skerðingu kaupmáttar, sem orðið hafði á erfiðleikaárunum 1967 og 1968. Hún var í algeru lágmarki þess, sem hægt var að sætta sig við. Síðan er kaup verkamanns, sem vinnur fullan vinnudag alla virka daga, rúmar 15 þús. kr. á mánuði. Verksmiðjuverkafólk nær þó tæpast þeirri launahæð, og sama má segja um lægra launað verzlunarfólk. Enginn hélt því fram, að atvinnuvegunum væri ofboðið með þessum samningum, og sízt hefur sú orðið raunin á seinni part ársins 1970 og það sem af er þessu ári. Aflabrögð hafa verið með eindæmum góð og verðlagsþróunin hagstæðari en nokkur bjartsýnismaður gat þá látið sig dreyma um. Og sízt er útlitið lakara þar, sem séð verður inn í næstu framtíð.

Ekki fer það þó á milli mála, að í okkar þjóðfélagi eiga launamálin að ákvarðast við frjálst samningaborð. Það er austantjaldsfyrirbæri, sem ekki á að þola hér, að ríkisvaldið ákveði kaupið. En samt gerðist það á Íslandi fáum mánuðum eftir samningagerðina, að ríkisstj. lækkaði kaup verkamanna með lagaboði um nokkra hundraðshluta. Að vísu skyldi verulegur hluti þessarar kauplækkunar greiddur niður fyrstu mánuðina til þess að draga úr reiði manna og koma í veg fyrir gagnráðstafanir verkamanna þegar í stað. En frá og með I. marz s.l. var náðinni lokið og niðurgreiðslum hætt og kauprán þetta komið til fullra framkvæmda. Þannig hefur ríkisstj. nú framkvæmt árásina á þá lægst launuðu í þjóðfélaginu í áföngum og sennilega komið áætlun sinni fram.

Á sama hátt hefur þessi sama ríkisstj. áður ráðizt á kjör sjómanna og breytt hefðbundnum hlutaskiptum þeirra með lagaboði. Hefur þetta ranglætisverk vakið réttláta og almenna reiði sjómannastéttarinnar, enda mun svo komið, að mikið vantar á, að nógu margir menn fáist á sjóinn. Er nú fjöldi báta bundinn við landfestar sökum mannaflaskorts. Má furðulegt heita, að Alþfl. skuli eiga hlut að og raunar gera það mögulegt að koma slíkum fólskuverkum fram gagnvart verkalýðssamtökunum og framleiðslustéttum þjóðarinnar.

Nú kynni einhver að segja: Svona nokkuð er ekki gert nema þegar þjóðin er í nauðum stödd og krefjast verður mikilla fórna af öllum. En í þessum tilfellum var hvorugu til að dreifa. Þegar ríkisstj. skerti laun hinna lægst launuðu með lagaboði, var ekkert neyðarástand ríkjandi, heldur veltiár og árgæzka í bezta lagi. Og þá var nú eitthvað annað en að hlutur allra væri skertur með valdboði. Á sama tíma og kauprán verkamanna átti sér stað, samdi ríkisstj. um meiri launahækkanir við þjónustustéttirnar, embættismannakerfið, en nokkur dæmi eru til um fyrr eða síðar. Þeir, sem lægst voru launaðir í þjónustu ríkisins, fá að vísu að sitja áfram með smánarlaun, en launahækkunin fór stighækkandi með hækkandi launum; þannig að þeir, sem hæst höfðu launin fyrir, fengu þau tvöfölduð og vel það og eru nú með yfir 100 þús. kr. á mánuði sumir hverjir. Í fyrstu töldu menn, að þeir, sem sitja á toppi embættismannakerfisins, hefðu fengið tvöföld verkamannalaun, bara í kauphækkun, en við nánari athugun kemur í ljós, að dæmi finnast um þreföld, þrenn verkamannslaun, 45 þús. kr., þrisvar sinnum 15 þús. á mánuði í launahækkun. Er þetta réttlætisverk? Á þetta svona að vera? Getur slík þróun gefið tryggingu fyrir sterku og réttlátu þjóðfélagi? Hér er vissulega um það að ræða að meta, hvers konar þjóðfélag við viljum stefna að að móta. Þjóðfélag misréttis og mikillar stéttaskiptingar, þjóðfélag fárra ríkra og fjölmennra öreigastétta eða þjóðfélag meiri jafnaðar en tíðkast með öðrum stærri og ríkari þjóðum? Það er spurningin. Hvort viljum við heldur? Hvert er þitt mat, hlustandi góður? Hvor þjóðfélagsmyndin er þér betur að skapi? Því getur þú svarað strax, ef þú vilt, og endanlega og ákveðið gerir þú það a.m.k. þann 13. júní í vor.

Því miður hafa alþýðustéttirnar á Íslandi, fólkið, sem fátækrahlutskiptið hreppir alla jafna, átt allt of ríkan þátt í því að efla til valds og þjóðfélagsáhrifa þá stjórnmálaflokka, sem í reynd virðast eiga sér hugsjón misréttisþjóðfélagsins sem æðsta takmark. Að vísu villa þeir á sér heimildir, koma ísmeygilegum og villandi áróðri sínum í krafti fjármagnsins til svo að segja hvers einasta manns. En verkin sýna þó merkin og blekkingarvefurinn er gagnsær, þegar þú gætir betur að. Eða sér ekki hver heilskyggn maður, hvernig jöfnuði þjóðfélagsins er háttað og þá ekki síður, hvert stefnt er af núverandi valdhöfum, Sjálfstfl. og flokki alþýðunnar? Og því spyr ég enn: Er þetta þín leið, kjósandi, til jafnaðar þjóðfélagsins?

Ekki fer það á milli mála, að ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. hefur með launabyltingu sinni gert tvennt í senn, ráðizt á lífskjör framleiðslustéttanna og stigið stórt skref í misréttisátt, áttina til nýrrar og ranglátari stéttaskiptingar. Þetta er að minni hyggju eitt af allra verstu og ódrengilegustu verkum núv. stjórnarflokka, og er þó af ýmsu að taka. Efnahagslegt misrétti í þjóðfélaginu er mjög alvarlegt, þegar til lengdar lætur. En annað enn verra fylgir í kjölfarið. Margvíslegt misrétti teygir sig nú þegar út um allt þjóðfélagið. Menningarlegt misrétti úti um landsbyggðina er þegar staðreynd. Stór svæði landsins eru læknislaus, prestslaus og sum héruð líka kennaralaus. Kostnaðurinn við að koma unglingum alþýðufólks til mennta er slíkur, að fæstum er fær í dreifbýlinu nema einstöku efnamanni. Ég óttast, að stjórnmálamenn bíði eftir, að vandamálið verði óviðráðanlegt, sagði ungur menntamaður nýlega í merkri blaðagrein, og hann bætti við: „Við erum að búa til menntunarlausa stétt, sem er sama og að búa til varanlega lágstétt, eins og fjöldaþjóðfélög nútímans eru byggð upp. Þetta verðum við að forðast, hvað sem það kostar. Það verður dýrara í framtíðinni að bregðast við þeim vandræðum, sem slík stétt skapar, en koma í veg fyrir myndun hennar nú. Það kann að vera, að þetta sé mikilvægasta verkefni okkar í dag, þó að fáir virðist enn skilja, hvílíkt grundvallarmál hér er á ferð.“

Við verðum að viðhalda menntun, ekki aðeins skólagöngu, heldur menntun, sem er stöðugur andlegur vöxtur, menntun, sem losar um hleypidóma, menntun, sem gerir okkur fært að skilja okkar stað í gangi lífsins og lífa þar eins og menn, ekki sem yfirstétt eða lágstétt, ríkir eða fátækir, lærðir eða voldugir, heldur eins og góðir menn með jafningjum sínum.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna munu vinna að auknum jöfnuði í þjóðfélaginu og þeir hafa valið sér kjörorðin: „menntun, heilbrigði, jöfnuður“. Undir þeim orðum munum við berjast í kosningunum í vor. Vegna þeirra markmiða, sem við höfum sett okkur, vegna sameiningarviðleitni okkar og ótvíræðrar og ákveðinnar afstöðu og krafna til lausnar landhelgismálsins biðjum við ykkur kjósendur um traust og stuðning á kjördegi.