06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Eftir að hafa hlustað á hina dæmalausu ræðu Einars Ágústssonar hér í kvöld undrar engan, þótt hann lýsti því yfir, að Framsfl. þráði umfram allt ómengað loft. Víst er mengað loft slæmt, en verra er þó að vera haldinn jafnmenguðu hugarfari og birtist í endurtekningum hans á rangfærslum og ósannindum Tímans um vinnubrögð fjmrn., sem birzt hafa í 20 dálka langhundum blaðsins síðustu tvo sunnudaga. Ég hefði ekki að óreyndu trúað Einari Ágústssyni til svo ódrengilegs málflutnings. Það var næsta broslegt að heyra þennan hv. þm. tala um vinnu sína í fjmrn., en vita þó ekki einu sinni jafneinfalt atriði og það, að ríkisskattanefnd er sjálfstæður dómstóll, sem fjmrh. segir ekki fyrir verkum. Í fullu bróðerni segi ég Einari Ágústssyni það, að honum fer ekki vel að stæla málflutning Tómasar Karlssonar Tímaritstjóra.

Ingvar Gíslason hélt fram vaxandi launamisrétti síðustu árin. Það fær ekki staðizt, þegar skoðaðar eru skýrslur um meðallaun hinna ýmsu stétta. Hann ræddi einnig um áhuga Framsfl. á tryggingamálum, en mun hafa gleymt því, að þegar hin stóru átök í tryggingamálum voru gerð á dögum nýsköpunarstjórnarinnar, var það aðeins einn þm. Framsfl., einn einasti, sem studdi þá löggjöf.

Ágúst Þorvaldsson ræddi hið geigvænlega ríkisbákn. Á hverju einasta ári hefur Framsfl. flutt margar till. um aukningu þessa bákns og aldrei neina um sparnað. Við afgreiðslu síðustu fjárl. fluttu stjórnarandstæðingar till. um útgjaldahækkun, er nam 500 millj. kr.

Árásir Hannibals Valdimarssonar einu sinni enn og raunar fleiri hv. þm. hér í þessum umr. á samninga opinberra starfsmanna eru furðulegar, því að launamismunur samkv. þeim samningum er í samræmi við till. forustumanna Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og raunar var þeim mótmælt af háskólamönnum sem ófullnægjandi. Og nú hafa allir flokkar hér á Alþ., einnig flokkur hv. þm. Hannibals Valdimarssonar, ákveðið kjör alþm. í samræmi við þessa dæmalausu samninga.

Nú að loknu þriðja kjörtímabili viðreisnarstjórnarinnar er þjóðin í hraðri framfarasókn, eigi aðeins á efnahagssviðinu, heldur einnig varðandi menntun og félagslegar umbætur í þágu hinna verr settu. Okkur er að vísu sagt, að þessi sókn upp úr öldudalnum sé að engu leyti stjórnvöldum að þakka. Vissulega má ekki vanmeta hina miklu þýðingu aflabragða og stórhækkaðs verðlags á sjávarafurðum, en þar liggur þó ekki öll skýringin á hinni stórvaxandi velmegun. Án stefnunnar í efnahagsmálum hefði batinn í efnahagslífinu með engu móti getað orðið svo snöggur. Það er ekki heldur aðeins sjávarútvegurinn, sem hefur tekið fjörkipp. Stjórnarandstæðingar töldu íslenzkan iðnað ekki þola aðild að EFTA. Nýlega lýsti formaður Félags ísl. iðnrekenda því, að aldrei hefði verið eins mikil framleiðsluaukning í íslenzkum iðnaði og nú né meiri framfarahugur hjá iðnrekendum. Stjórnarandstæðingar börðust gegn bæði álbræðslunni og kísiliðjunni. Þessi tvö fyrirtæki munu í ár færa þjóðinni yfir einn milljarð í nettógjaldeyristekjur. Vegna gengisbreytinganna varð Ísland eftirsótt sem ferðamannaland. Margvísleg könnun er ýmist hafin eða í undirbúningi til nýtingar orkulinda landsins. Stefnt er markvisst að stækkun landhelginnar, þótt stjórnarandstæðingar hafi því miður fallið í þá freistni að gera þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar að kosningamáli, svo sem glöggt hefur komið fram hér í kvöld. Það er grár leikur með fjöregg þjóðarinnar.

Atvinnuleysi er úr sögunni, og vandinn er nú að forðast ofþenslu. Við eigum aftur orðið mjög myndarlegan gjaldeyrisvarasjóð. Sparifjármyndun hefur orðið meiri á s.l. ári en nokkurt ár áður, og hallarekstur ríkissjóðs hefur verið stöðvaður. Almenningur hefur þegar í stað fengið fulla hlutdeild í hinni bættu afkomu þjóðarbúsins með stórfelldum launahækkunum á síðasta ári. Kjarabætur, sem rúmast innan gjaldgetu atvinnuveganna hverju sinni, eru ætíð sjálfsagðar. Það viðurkenna allir nú, að of langt var gengið í kröfugerð á uppgangsárum sjávarútvegsins, árin 1965 og 1966, en þá vildu menn ekki fallast á, að hinar miklu verðhækkanir sjávarafurða gætu orðið skammgóður vermir. Nú eru hækkanirnar enn stórkostlegri. Vonandi reynast þær varanlegar. En allir ættu þó að vera það reynslunni ríkari að viðurkenna nauðsyn þess að leggja hluta þeirra til hliðar í þann verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, sem myndaður hefur verið.

Í kjaradeilunni í fyrra benti ríkisstj. á leið til þess að tryggja launþegum verulegar kjarabætur án nýrrar verðbólguhættu. Þeim ráðleggingum var ekki sinnt í hita sveitarstjórnarkosninganna, þar sem foringjar vinstri flokkanna vógu hver að öðrum margklofnir og efndu að ástæðulausu til allsherjarverkfalls, launþegum og þjóðinni allri til stórtjóns. Það er sannarlega eitt af mikilvægustu viðfangsefnum næstu ára að losna við þann vafasama heiður að eiga heimsmet í verkföllum.

Óvefengjanlegt er, að ef ekkert hefði verið aðhafzt, hefðu kjarasamningarnir frá í sumar orsakað nýja verðbólguöldu, sem innan skamms tíma hefði valdið ýmsum atvinnuvegum landsmanna óviðráðanlegum erfiðleikum og teflt í hættu þeim kjarabótum, sem launþegar töldu sig hafa tryggt sér. Æskilegast hefði verið að mæta þessum nýja vanda með kerfisbundnum efnahagsaðgerðum til langs tíma þegar á þessu hausti. Reynslan af viðræðum stjórnmálaflokkanna 1968 og frá samningunum s.l. vor í kosningahitanum þá gaf engar vonir um, að samstaða gæti orðið um slíkar aðgerðir nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Því var það, að Sjálfstfl. taldi ráðlegast að kjósa þegar s.l. haust, þannig að ríkisstj. gæti markað stefnu með heilt kjörtímabil fram undan. Um það varð ekki samkomulag milli stjórnarflokkanna. Því var grípið til verðstöðvunarinnar til þess að bægja upplausnarhættunni frá, þar til ríkisstj. eftir kosningar hefði gefizt tóm til að gera ráðstafanir til lengri tíma til að forðast nýtt verðbólguflóð. Gripið hefur verið til slíkra verðstöðvana í fleiri löndum einmitt á þessum vetri gegn verðbólgu og til að stuðla að kjarasamningum, sem ekki ógnuðu afkomu atvinnuveganna í þessum löndum.

Ég hygg fáa í alvöru halda því fram, að verðstöðvunin hafi ekki verið rétt spor, svo sem sakir stóðu í haust, enda er verðstöðvuninni oftast fundið það til foráttu af stjórnarandstæðingum, að hún sé kosningabeita. Að vísu hljóta menn þá að spyrja: Af hverju vildi Sjálfstfl. kjósa í haust, úr því að verðstöðvunin var svo ágæt kosningabeita í vor? Nei, sannleikurinn er sá, að þó að verðstöðvunin hafi verið þjóðarnauðsyn og öllum til góðs, þá er hún ekki lausn á meginvandamálinu, enda hefur enginn haldið því fram. Þó að stjórnarandstæðingar hafi í algeru ábyrgðarleysi reynt að espa launþega gegn verðstöðvuninni, þá vita þeir mætavel, að einmitt vegna verðstöðvunarinnar hefur tekizt að tryggja raungildi kauphækkananna á s.l. sumri mun betur en ella hefði orðið, þannig að kaupmáttur er nú meiri en nokkru sinni áður. Og þótt atvinnuvegirnir hafi verið bótalaust látnir taka á sig verulegar launahækkanir, þá hefði hagur þeirra orðið miklum mun verri, ef verðstöðvunin hefði ekki komið til, og hinar miklu niðurgreiðslur á búvörum hafa orðið til verulegra hagsbóta fyrir bændur. Ég hygg því, að ekki hefði betur verið hægt að þræða hinn gullna meðalveg varðandi hagsmuni hinna ýmsu stétta í sambandi við verðstöðvunina en gert var.

Þetta þing er nú á enda og kosningar nálgast. Alþ. hefur í vetur verið með meiri kosningabrag en nokkurt þing, sem ég man eftir, og hugsjónirnar hafa streymt fram í stríðum straumum. Víst er það gott, að stjórnmálamenn leggi sig fram og velferðarmál séu flutt á Alþ., en það þarf að gerast oftar en á kosningaþingum, ef menn ætlast til, að þeir verði teknir alvarlega. Þetta tillögumoldviðri hygg ég raunar að fæstir láti sig miklu skipta við kosningarnar í vor, heldur verði tvö mál efst í hugum flestra: annars vegar efnahagsþróunin og hins vegar landhelgismálið.

Um landhelgismálið voru fyrir nokkrum dögum sérstakar umr., sem útvarpað var, og hv. þm. Matthías Bjarnason ræddi það einnig hér í kvöld. Mun ég því ekki gera það að umtalsefni.

Stjórnarandstæðingar hafa mjög hampað að undanförnu og síðast hér í kvöld þeim ummælum prófessors Ólafs Björnssonar, að það væri hrollvekjandi að hugsa til þess, sem verða kynni að verðstöðvun lokinni næsta haust, og hefur verið reynt að færa þessa umsögn fram sem rök gegn verðstöðvuninni. Hér er um algeran misskilning að ræða. Ólafur Björnsson var einn af ráðunautum ríkisstj. við undirbúning verðstöðvunarlaganna og stóð að samþykkt þeirra með öllum öðrum þm. stjórnarflokkanna. Eftir því sem ég hef skilið orð prófessorsins, er hrollvekjan það, sem yfir efnahagskerfið hlyti að skella í haust, ef engar sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar að verðstöðvunartímabili loknu. Það liggur í augum uppi, að yrðu allar niðurgreiðslur felldar niður jafnhliða greiðslu fullra vísitölubóta á laun og jafnvel beinum launahækkunum í sambandi við nýja kjarasamninga, þá mundi holskefla skella yfir allt atvinnulíf þjóðarinnar. Þetta er einmitt nauðsynlegt að allir geri sér ljóst. Þótt í minna mæli væri, voru það sambærilegar hættur, sem vofðu yfir atvinnulífi þeirra Norðurlandaþjóða annarra, sem beitt hafa verðstöðvun í vetur einmitt í því skyni að fá dæmið allt íhugað við gerð nýrra kjarasamninga, sem fram undan voru í þeim löndum. Það er ekki núverandi ríkisstj., sem með verðstöðvunaraðgerðum sínum er völd að þeim vanda, sem horfast verður í augu við í haust, heldur hefur einmitt verðstöðvunin gert vandann viðráðanlegri, — vanda, sem til er orðinn fyrir það, að ekki var hlustað á ráðleggingar ríkisstj. Næsta haust verður auðvitað að kanna til hlítar, hvert sé burðarþol atvinnuveganna og hvernig kaupmáttur launanna verði tryggður á raunhæfan hátt. Þó að ekki verði hægt að halda áfram jafnstórfelldum niðurgreiðslum vöruverðs og nú eru framkvæmdar, er jafnfráleitt, að þær verði að mestu eða öllu leyti felldar niður. Allt þetta stóra dæmi verða samtök vinnumarkaðarins að taka til heildarathugunar ásamt verðandi ríkisstj. á næsta sumri, og til þeirra athugana gefst verulegt svigrúm. Þótt við mikinn vanda sé óneitanlega að fást, þá er efnahagsþróunin það hagstæð, að ég fæ ekki séð, að hér sé við meiri hrollvekju að fást en þjóðin hefur oft staðið andspænis í efnahagsmálum sínum. Það ræður að vísu úrslitum í þessum efnum, að ríkisstj. sé að völdum, sem hefur kjark til að mæta vandanum og beita. réttum hagstjórnaraðferðum, og forusta verkalýðshreyfingarinnar ekki sundurtætt af illvígum flokkadráttum. Umfram allt þarf að hafa það að leiðarljósi að hleypa verðbólguskriðunni ekki af stað á nýjan leik, því að met okkar á því sviði eru ekki síður óskemmtileg en verkfallsmetið.

En hvaða forustu á þjóðin að velja sér til að tryggja trausta stjórn og frjálslynda stjórnarstefnu? Núverandi stjórnarflokkar ljúka nú þriðja samstjórnartímabili sínu með fullum friði, en án nokkurra yfirlýsinga um samstjórn að loknum kosningum. Það eru ekki sett á svið nein kosningabrelluágreiningsmál, eins og verið hefur föst venja Framsóknar í samvinnu við aðra flokka. Núverandi stjórnarandstöðuflokkar klofna í æ fleiri einingar. Alþb. þríklofið og ungir framsóknarmenn, í óþökk flokksforustunnar taka upp beinar samstarfsviðræður við svokallaða frjálslynda vinstri menn og lýsa yfir, að þeir styðji aldrei samstarf Framsóknar við Sjálfstfl. Þá hefur Alþfl. í vetur tekið upp þá nýbreytni að efna til vinstri viðræðna. Sú mynd blasir því við augum kjósenda, að annars vegar er Sjálfstfl. sem máttarstoð hinna frjálslyndu lýðræðisafla í landinu, en hins vegar tætingslið vinstri flokkanna, sem gjarnan á sér þann draum að efna til nýrrar vinstri stjórnar, sem yrði hreinn óskapnaður miðað við þau mörgu og innbyrðis fjandsamlegu flokksbrot, sem að þeirri stjórn hlytu að standa. Umr. hafa í kvöld glöggt leitt í ljós ástríkið milli vinstri flokksbrotanna.

Það sýnist því nokkurn veginn augljóst, að allir þeir kjósendur, sem tryggja vilja landinu trausta stjórn og halda áfram þeirri frjálslyndu umbótastefnu, sem fylgt hefur verið síðasta áratug, hljóti að fylkja sér um Sjálfstfl., því að þótt hann megni ekki að stjórna einn, þá mun veruleg fylgisaukning hans staðfesta bezt, hvert þjóðin vill að stefnt sé, og þannig auðvelda Sjálfstfl. að fá til samstarfs þau öfl í öðrum flokkum, sem líkastar skoðanir hafa á æskilegri þjóðfélagsþróun. Þeir fimm árgangar æskufólks, sem nú kýs í fyrsta sinn til þings, geta ráðið örlögum þjóðarinnar við þessar kosningar. Góða nótt.