06.04.1971
Sameinað þing: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ósköp var hann Benedikt Gröndal, þetta prúðmenni hversdagslega, fokreiður hér áðan. Ég verð að segja það, að ég get ekki orða bundizt, þegar Alþfl.-menn iðka þá list að brigzla mér um aðgerðaleysi í tryggingamálum á dögum vinstri stjórnarinnar. Þetta eru vísvitandi ósannindi, sem þeir fara með, því að það var Alþfl. sjálfur, Guðmundur Í. Guðmundsson fyrir hans hönd, sem fór með tryggingarnar á þeim árum, og ber því alla ábyrgð á aðgerðaleysi þeirra ára í tryggingamálum. Benedikt Gröndal sagði, að ég hefði úthúðað Alþfl. En það rétta er, að ég fordæmdi það 12 ára umskiptingshlutverk, sem forusta Alþfl. hefur leikið og leikur enn í sambúðinni við höfuðandstæðing allrar jafnaðarstefnu, þ.e. íhaldið. Þetta fordæmdi ég.

Ég veit ástæðuna til reiðikastsins hjá Benedikt Gröndal. Það var samvizkubitið, sem olli reiði Benedikts Gröndals. Um viðræðurnar við Alþfl. er það sannleikanum samkvæmt, að Samtök frjálslyndra og vinstri manna buðust alls ekki til að ganga í Alþfl., heldur að við sameinuðumst í nýjum jafnaðarmannaflokki, ef samstaða næðist um málefni. Alþfl. boðaði til þessara viðræðna, en þegar á hólminn kom, fór hann undan í flæmingi, og ekki náðist neinn árangur, og það er hans sök. Hitt eru alger og ruddaleg ósannindi, að rætt hafi verið um þingsæti fyrir okkur Björn Jónsson, og vísa ég þeim orðum til föðurhúsanna.

Hv. þm. Matthías Bjarnason sagði hér í kvöld, að vegna þess að við Íslendingar hefðum átt hlut að till. um, að kvödd yrði saman alþjóðleg ráðstefna um landhelgismál, værum við skuldbundnir til að færa ekki út landhelgina fyrr en að ráðstefnunni lokinni. Út af þessu vil ég segja þetta: Brasilía var einnig í fararbroddi þeirra þjóða, sem frumkvæði áttu að ráðstefnunni, en samkv. nýlegri skýrslu um utanríkismál, sem Emil Jónsson flutti hér á dögunum á Alþ., kemur það fram, að Brasilíumenn sáu þó ekkert því til fyrirstöðu að færa út landhelgi sína í desember s.l., þ.e.a.s. desember 1970, í 200 mílur. Og þegar er kunnugt um fjölmörg önnur ríki, sem vinna nú að undirbúningi útfærslu fiskveiðilögsögu sinnar á þessu ári og því næsta, hvað sem ráðstefnunni líður. Það er þetta, sem hæstv. utanrrh. kallar siðlausa ævintýrapólitík, þegar við Íslendingar eigum sjálfir í hlut.

Það vakti athygli mína í kvöld, að Karl Guðjónsson tilkynnti opinberlega, að hann yrði í kjöri fyrir Alþfl. í Suðurlandskjördæmi eða alþýðuflokksfélögin, eins og hann vildi nú heldur kalla það, í Suðurlandskjördæmi. Þetta kom mér dálítið á óvart, því að ekki er mjög langt síðan þessi hv. þm. tilkynnti mér sem formanni Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, að hann kæmi í slaginn með okkur, hvort sem væri sem óbreyttur liðsmaður eða til framboðs. Karl bjóst við að verða spurður að því, hvort hann væri hættur að vera stjórnarandstæðingur og sé orðinn stuðningsmaður stjórnarinnar. Hann segir stjórnarsamninginn útrunninn á kjördegi, og það er rétt. En eftir kjördag verður Karl væntanlega í þingflokki Alþfl., og vil ég þá vona, að hann verði ekki til þess að ráða úrslitum um áframhaldandi stjórnarsamstarf íhalds og Alþfl. og máski til að framlengja það. Það væri ógæfuhlutverk. Ég vildi óska honum betra hlutskiptis og þá sérstaklega vænta þess, að hann leggi sameiningarmálunum lið, þótt Alþfl. væri ekki til viðtals um þau mál nú fyrir kosningar. Einnig vil ég vona, að Karl Guðjónsson styðji áfram stefnu Samtaka frjálslyndra og vinstri manna í landhelgismálinu, sem hann fyrir skemmstu staðfesti með undirskrift sinni, en berjist gegn þokuafstöðu Alþfl. í því þýðingarmikla máli. Það er a.m.k. von mín.

Magnús Kjartansson taldi, að seinleg viðbrögð verkalýðssamtakanna gegn launaárás stjórnarinnar mundu vera afleiðingar af kjöri Hannibals og Björns í forustu Alþýðusamband Íslands. En undarlegt er það, að það hafa þó einmitt verið forustumenn kommúnista í verkalýðshreyfingunni, sem seinast og deigast hafa búizt til viðnáms og gagnsóknar gagnvart launaskerðingu ríkisstj. Þetta þykir máske ótrúleg saga, en sönn er hún engu að síður. Og þetta veit Magnús Kjartansson af sérstökum ástæðum allra manna bezt. Svo hljóðandi hógvær og raunhæf till. Björns Jónssonar varð að baráttumáli flokksbræðra Magnúsar Kjartanssonar í stjórn Alþýðusambands Íslands út af þessum málum, með leyfi hæstv. forseta:

„Sameiginlegur fundur miðstjórnar Alþýðusambands Íslands og samninganefndar allra landssambanda innan þess, svæðasambanda og stærstu verkalýðsfélaga, sem ekki eiga aðild að landssamböndum, álykta að fengnu neikvæðu svari Vinnuveitendasambands Íslands við þeirri kröfu að bæta í kaupi þá skerðingu, sem varð á launum vegna lögþvingaðra breytinga á greiðslu verðlagsbóta, að beina því til allra sambandsfélaga innan ASÍ, að þau leggi algert bann við allri yfirvinnu félaga sinna og standi það bann þar til breyting hefur orðið á framangreindri afstöðu Vinnuveitendasambandsins. Væntir fundurinn þess fastlega, að ekkert sambandsfélag skerist úr leik í þessum óhjákvæmilegu aðgerðum, til þess að samningsbundnu kaupi verði uppi haldið og gerðir samningar virtir.“

Tillögumaðurinn var Björn Jónsson. Þessari till. beitti Eðvarð Sigurðsson sér fastlega á móti, og í krafti síns stóra félags, Dagsbrúnar, tókst honum að fá hana fellda. Þetta er sannleikur málsins. Og má svo Magnús Kjartansson halda áfram brigzlum í garð okkar Björns Jónssonar í þessu máli.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það líður nú að lokum þessara umr. Þingslit eru fyrirhuguð á morgun og gengið verður til örlagaríkra kosninga eftir röska tvo mánuði. Og því vil ég segja þetta: Ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. hefur stjórnað landinu í 121/2 ár. Allir eru orðnir hundleiðir á ráðh., og það sem alvarlegra er, stjórnarstefnan er gjaldþrota fyrirtæki. Úrræði hennar hafa gengið sér til húðar. Rassinn er úr buxum stjórnarinnar, og þannig til fara ganga hæstv. ráðh. nú fram fyrir kjósendur. Höfuðmál kosninganna er að sjálfsögðu það, að stjórnarflokkarnir missi meiri hluta sinn og að stjórnin falli.

Menn hafa verið að brigzla Samtökum frjálslyndra og vinstri manna um aukna sundrungu á vinstri væng stjórnmálanna, og mundi því tilkoma okkar firra stjórnina falli. Þetta er annaðhvort sagt af mikilli fávizku eða a.m.k. að óathuguðu máli, nema hvort tveggja sé, og skal ég nú sýna fram á hið rétta í því máli.

Framsfl. og Alþb. gamla, sem var miklu öflugra en núv. Alþb., reyndu við tvennar kosningar að svipta stjórnarflokkana meiri hl. og reyndust þess ómegnug í bæði skiptin. Enginn getur því látið sér detta í hug, að Framsókn og Alþb. nýja geti fellt stjórnina. Þetta vita raunar allir. Nú má stjórnarliðið ekki við því að missa einn einasta þm. Þá hafa þeir ekki stjórnhæfan meiri hluta. Það er því augljóst mál, að fái frjálslyndir vinstri menn einn þm. kjörinn, fylgja því aldrei færri en þrír uppbótarþm., þ.e. fjögurra manna þingflokkur. Það þýðir aldrei minna en tvo þm. úr liði stjórnarflokkanna, og þar með væri stjórnin fallin. Takist okkur hins vegar að ná þremur þm. kosnum, mundum við aldrei fá færri en tvo uppbótarþm., eða alls 5 manna þingflokk. Nú heiti ég þess vegna á alla, sem vilja fall stjórnarinnar, að veita Samtökum frjálslyndra traust og stuðning í kosningunum, því að það er einasta leiðin til að létta því stjórnarfari af þjóðinni, sem þjakað hefur hana í 121/2 ár. Nú er sannarlega mál, að því linni.

Okkur hefur þegar orðið nokkuð ágengt í sameiningarmálunum. Allir vita, að sameining vinstri aflanna verður aldrei á þann veg, að vinstri menn í öðrum flokkum gangi inn í Framsfl., ekki heldur með því, að menn gangi inn í Alþfl., og því síður með því, að menn leggi leið sína í hinn fjarstýrða kommúnistaflokk, Alþb. Einasta færa leiðin í sameiningarmálum vinstri manna er sú, sem Samtök frjálslyndra beita sér fyrir, nefnilega að knýja vinstri flokkana til að ganga upp í nýja einingu, nýjan jafnaðar- og verkamannaflokk líkrar gerðar og alþýðuflokkarnir á Norðurlöndum og í Bretlandi. Þar með verða hin sundruðu flokksbrot að sjálfsögðu sjálf að hverfa af sviðinu. Þetta er það, sem við erum að gera og er einasta leiðin til þess, að íhaldið geti ekki haldið áfram hér völdum og ráðið lögum og lofum í landi. Þetta er það, sem allir sameiningarmenn, hvar í flokki sem þeir hafa verið og eru, eiga að styðja, þ.e.a.s. Samtök vinstri manna eru leiðandi aflið til að knýja þetta fram. Og til þess eru samtök okkar stofnuð öllu öðru fremur.

Við erum að vísu berhent, erum févana. Við höfum ekkert á að treysta í þessum kosningum nema fólkið sjálft, en á það treysti ég líka, og því hef ég áður treyst, og það hefur aldrei brugðizt mér. Því geng ég og flokkur minn, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, ótrauð og örugg til kosninganna. Allt er komið undir frumkvæði, áhuga og ötulu starfi hvers einstaks manns og allra hinna mörgu um landið allt. Víst erum við ekki vel vopnum búin til bardagans nema málefnalega, og það er þó aðalatriðið. Því segjum við örugg og sigurviss: Ef sverð þitt er stutt, þá gakk þú bara feti framar.

Að svo mæltu býð ég góða nótt og segi við samherja mína og stuðningsmenn um allt land: Komið heil hildar til. — Góða nótt.