15.10.1970
Sameinað þing: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég lét þess getið við setningu Alþingis, að ég mundi við fyrstu hentugleika gera hv. þingi grein fyrir helztu viðfangsefnum ríkisstj. og þeim málum, sem þegar væri vitað um, að hún mundi leggja fyrir þingið með flutningi frumvarpa eða með öðrum hætti. Ég mun nú um þessi mál fjalla. Enda þótt hér geti ekki verið um tæmandi grg. að ræða, er til ætlazt, að með henni gefist hv. þm. yfirlit viðfangsefna af hálfu ríkisstj. og þá ekki síður hv. stjórnarandstöðuflokkum, sem eðlilega hafa ekki verið hafðir með í ráðum, en engu að síður kemur til kasta þeirra að fjalla um meðferð málanna, eftir að Alþ. hefur starfsemi sína að nýju. Ég er sammála þeim sjónarmiðum, sem fram komu nýlega hjá formanni Framsfl. í sjónvarpsviðtali, að í þingræðislandi eins og Íslandi hefur stjórnarandstaðan sínu mikilvæga og jafnframt ábyrgðarmikla hlutverki að gegna.

Meginstefna ríkisstj. er hin sama og Ólafur Thors lýsti þegar í nóvember 1959 við upphaf samstarfs núverandi stjórnarflokka og Bjarni Benediktsson staðfesti síðar ítrekað fyrir hönd síns rn., að tryggja heilbrigðan grundvöll efnahagslífsins, svo að framleiðsla aukist sem örast, atvinna haldist almenn og örugg lífskjör geti enn farið batnandi. Eftir alvarlegar deilur aðila vinnumarkaðarins á liðnu vori og samningagerðir að lokum eftir löng verkföll mátti ljóst vera, að ný viðhorf sköpuðust þar af leiðandi. Af hálfu ríkisstj. hafði því verið lýst yfir og það er stefna ríkisstj., að launþegum beri rétt hlutdeild í auknum þjóðartekjum, en frá erfiðleikaárunum 1967 og 1968 hafði á öndverðu þessu ári orðið mikill bati í efnahagslífinu. Deilan stóð nú sem fyrr um það, hvað sé rétt hlutdeild, og sýnist sitt hverjum. Ríkisstj. lagði til málanna ábendingu um tilteknar kauphækkanir samfara hækkuðu gengi krónunnar, sem miðað væri við, að jafnvægi gæti haldizt. Eigi var á þá ábendingu fallizt og deilur leystar af samningsaðilum vinnumarkaðarins, fulltrúum launþega og atvinnurekenda. Enginn dómur skal á úrlausn mála lagður, en á það minnt, að ríkisstj. ritaði Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands bréf hinn 1. júlí, sem rétt þykir að tilfæra hér orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í gær, þriðjudaginn 30. júní 1970, var svo hljóðandi samþykkt gerð á fundi ríkisstj. Íslands: Þar sem margföld reynsla sýnir í fyrsta lagi, að víxlhækkanir á kaupi og verðlagi hafa mjög orðið til þess að draga úr gildi kauphækkana fyrir launþega jafnframt því, sem þær hafa ofþyngt atvinnuvegunum, svo að gagnráðstafanir hafa orðið óumflýjanlegar, og í öðru lagi, að mjög er áfátt um undirbúning og aðferðir við samningagerð í kaupgjaldsmálum, óskar ríkisstj. samstarfs við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands um rannsókn þessara vandamála og tillögugerð, er verða megi til varanlegra umbóta í þessum efnum. Svars við þessari málaleitan er vænzt svo fljótt sem við verður komið og reynist þau jákvæð, mun verða haft samráð við aðila um það, hvernig samstarfinu verði bezt háttað.“

Báðir aðilar svöruðu þessu bréfi ríkisstj. jákvætt og samkv. því hófust viðræður þessara þriggja aðila þann 20. ágúst. Fram komu óformleg tilmæli frá Stéttarsambandi bænda um aðild að viðræðunum, og var á það fallizt, að fulltrúar þess tækju þátt í þeim að því er varðaði þann þátt mála, er það snerti sérstaklega.

Eins og kunnugt er, hafa þessar viðræður staðið fram til þessa og mun haldið áfram. Að mestu leyti hefur tímanum verið varið til rannsókna vandamálanna. Engu að síður hefur á viðræðufundum verið varpað fram óformlegum hugmyndum að tillögugerð, en í alla staði óbindandi fyrir alla aðila. Aldrei hefur verið til þess ætlazt, að árangur slíkra viðræðna gæti leitt til samningagerðar milli viðkomandi aðila, sem réttilega hafa ekki aðstöðu eða umboð til slíks. Að því hefur fyrst og fremst verið stefnt að ná samstöðu um skilning vandamálanna og með þeim hætti að forðast óþarfar deilur um orðna hluti og líkleg áhrif þeirra á þróun mála. Vissulega hefur ætíð mátt vænta, að úrlausn mála kynni að horfa misjafnlega við, en af hálfu aðila talið mikilvægast, að raungildi kauphækkana, sem um var samið, gæti haldizt í sem ríkustum mæli í skjóli þess efnahagsbata, sem orðinn var og enn hefur haldizt og vonir standa til, að varðveitist. Ljóst er, að án nokkurra aðgerða stefnir að því, að raungildi launa minnki samfara minnkandi getu atvinnuvega til þess að rísa undir vaxandi tilkostnaði. Svara verður, hvort verðstöðvun í einni mynd eða annarri gæti, þegar á reynir, orðið til varðveizlu verðmæta fremur en fórna fyrir nokkurn eða þjóðfélagsþegnana í heild. Ríkisstj. vill leita svars við þessum vanda og telur sig hafa ástæðu til þess að ætla, að svipuð sjónarmið ríki hjá aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum bænda. Á þessu stigi verður ekki frekar fullyrt um árangur viðræðna eða úrlausn mála. Eins og kunnugt er, lagði ríkisstj. fyrir síðasta þing frv. til l. um verðgæzlu og samkeppnishömlur. Ekki er ósennilegt, að framvinda þessa máls samtvinnist tímabundnum verðstöðvunaraðgerðum, en ríkisstj. hafði þegar ákveðið að hefja undirbúning framkvæmda nýs verðgæzlukerfis í samræmi við meginsjónarmið þau, sem verðgæzlufrv. grundvallaðist á.

Frv. til fjárl. fyrir árið 1971 hefur þegar verið útbýtt í þinginu. Afgreiðslu þess verður lokið fyrir áramót. Í sambandi við umr. um fjárlagafrv. mun fjmrh. á næstunni gera grein fyrir ríkisfjármálunum og verður því ekki að þeim vikið nú. Ríkisstj. telur hagsmunagæzlu Íslendinga og réttarvernd á landgrunninu eitt veigamesta viðfangsefnið á næstunni. Leggja ber áherzlu á samstöðu landsmanna á þessum vettvangi, sbr. þáltill. frá 5. maí 1959, þar sem Alþ. lýsir yfir, að það telur Ísland eiga ótviræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi og að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948. Enn fremur skal vitnað til laga frá 24. marz 1969, um yfirráð íslenzka ríkisins yfir landgrunninu umhverfis Ísland, þar sem lýst er yfir, að íslenzka ríkið eigi fullan og óskoraðan yfirráðarétt yfir landgrunni Íslands að því er tekur til rannsókna á auðæfum landgrunnsins og vinnslu og nýtingu þeirra. Auka verður vísindarannsóknir og efla landhelgisgæzluna í tengslum við þetta lífshagsmunamál þjóðarinnar. Ríkisstj. hefur unnið að því undanfarin ár að kynna þetta mál og afla því fylgis og mun fylgja því eftir af fremsta megni. Rætt hefur verið um það hjá Sameinuðu þjóðunum að kalla saman þriðju alþjóðaráðstefnuna um lög hafsins, þar sem þetta mál verður eitt aðalmálið. Ákvörðun um þessa ráðstefnu verður væntanlega tekin á yfirstandandi allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, og um verksvið ráðstefnunnar, þegar til kemur. Þar mun þá málið verða flutt af Íslands hálfu með öllum þeim þunga, sem mögulegt er, en stefna ríkisstj. er í aðalatriðum eftirfarandi:

Ríkisstj. Íslands er því samþykk, að kvödd verði saman alþjóðleg ráðstefna varðandi réttarreglur á hafinu, enda verði verksvið hennar nægilega víðtækt til að fjalla um öll atriði varðandi réttindi strandríkis á svæðum, sem liggja að ströndum þess. Það er skoðun ríkisstj., að strandríki eigi rétt á að ákveða takmörk lögsögu sinnar innan sanngjarnra takmarka með hliðsjón af landfræðilegum, jarðfræðilegum, efnahagslegum og öðrum sjónarmiðum, er þýðingu hafa. Að því er Ísland varðar er lögsaga og umráð yfir landgrunni þess og hafinu yfir því sanngjörn og réttlát og verðskuldar viðurkenningu samfélagsþjóðanna.

Ríkisstj. telur tímabært, að haft sé samráð þingflokka um endurskoðun stjórnarskrárinnar með hliðsjón af þróun mála á aldarfjórðungsskeiði lýðveldisins. Endurskoða þarf kjördæmaskipun og kosningalöggjöf, svo að gætt sé meginsjónarmiða lýðræðis um jafnrétti þegnanna. Nauðsyn er að bæta starfsreglur Alþingis og starfsskilyrði þm. og í því sambandi að taka ákvarðanir um það, hvort hentara þætti, að Alþingi starfaði í einni málstofu, en deildaskipting yrði afnumin.

Ríkisstj. mun leggja fyrir þingið frv. til breytinga á skattalögum, en í því sambandi hefur því þegar verið lýst yfir af hálfu ríkisstj., að stefnt væri að því, að skattaleg aðstaða fyrirtækja hér á landi verði svipuð eða ekki lakari en gerist í löndum Fríverzlunarbandalagsins og að aðlögun íslenzkra fyrirtækja að breyttri samkeppnisaðstöðu, svo sem með samruna fyrirtækja eða hliðstæðri stækkun eininga, verði ekki skattalega torvelduð. Frv. um þetta efni, sem lagt var fyrir síðasta þing, hefur verið til athugunar í sumar hjá mþn. skipaðri þm. úr fjhn. Alþ., og embættismannanefnd hefur unnið að viðbótartill., bæði varðandi fyrirtækjaskatta og einnig endurskoðun ýmissa atriða varðandi skattgreiðslur einstaklinga. Vegna nýs fasteignamats er unnið að endurskoðun margvíslegrar löggjafar, þar sem gjöld eru miðuð við fasteignamat. Till. varðandi staðgreiðslukerfi skatta verður lögð fram, og loks er stefnt að því að geta gert þinginu grein fyrir virðisaukaskattkerfinu.

Ríkisstj. telur nauðsyn til bera að leggja aukið kapp á rannsóknir eða undirbúning þess að nýta sem bezt auðlindir landsins, svo sem orku fallvatna og jarðvarma, til aukinnar iðnþróunar og fjölþættara atvinnulífs í tengslum við stóriðju. Fyrir þingið verða lögð frv. til l. um virkjun við Sigöldu og Hrauneyjafoss í Tungnaá og um virkjun Lagarfoss, og til athugunar eru virkjunarmöguleikar fyrir Norðurl. v. í undirbúningi er ný rafvæðingaráætlun sveitanna, og að öðru leyti er frekar unnið að undirbúningsrannsóknum frekari virkjana, hagnýtingu bæði fallvatnanna og varmaorkunnar. Endurflutt er á þinginu frv. til l. um olíuhreinsunarstöð á Íslandi, sem ríkisstj. telur tímabært, að öðlist nú lagagildi, en um er að ræða stofnun undirbúningsfélags að byggingu olíuhreinsunarstöðvar, ef hagkvæm reyndist í rekstri og frá þjóðhagslegu sjónarmiði vegna erlendra viðskipta.

Ljóst er, að forða ber frá hvers konar náttúruspjöllum, sem að ófyrirsynju kynnu að stafa af atvinnuþróun til almennrar hagsældar, og hefur ríkisstj. þegar hlutazt til um rannsóknir af slíku tilefni, bæði varðandi fuglalíf við Þjórsárver og fiskirækt á Laxársvæðinu, en lofsvert er, hve orkuverin hafa á margan hátt af eigin frumkvæði stuðlað að fegrun umhverfis og náttúruvernd.

Fyrir þingið er lagt frv. til l. um lífeyrissjóð bænda, en jafnframt er í könnun aðstaða til lífeyrissjóðsstofnana fyrir aðrar stéttir og starfsgreinar, sem eigi njóta enn hlunninda lífeyrissjóða, þannig að lífeyrissjóðir starfi fyrir alla landsmenn. Settar verða reglur um ráðstöfun fjár lífeyrissjóðanna í samráði við fulltrúa sjóðsstjórnanna eða samtaka þeirra. Í tengslum við frv. um lífeyrissjóð bænda hefur verið flutt frv. til l. um breytingu á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Á vegum ríkisstj. er starfandi 7 manna n., sem skipuð var í samráði við stjórn Stéttarsambands bænda til þess að athuga og vinna að ýmsum þeim verkefnum, sem miklu skipta landbúnað og þá jafnframt almenna hagsmuni. Þar undir fellur athugun þess, hvort tiltækilegt sé að gera framleiðslu búvöru hagkvæmari og laga betur að þörfum neytenda, m.a. með því að stuðla að sérframleiðslu búvöru á vissum svæðum, enn fremur hvort æskilegra væri að nota það fjármagn, sem varið er til niðurgreiðslu og útflutningsuppbóta, með öðrum hætti en nú er gert, þannig að það komi bændum og þjóðarheildinni að betri notum. Sérstaklega sé athugað, hvort mögulegt sé að lækka framleiðslukostnað á búvörum og gera verðlagningarkerfið einfaldara. Hvort sú endurskoðun, sem að framan greinir, kæmi á einn eða annan hátt til kasta þingsins nú, er ekki ljóst enn þá. Fyrir þingið hefur þegar verið lagt frv. til l. um eflingu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Flutt verður frv. til l. um breytingu á vegalögum og endurskoðaða vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972.

Með bréfi, dags. 28. maí 1970, var skipuð n. til þess að endurskoða gildandi lög um almannatryggingar. Var gert ráð fyrir, að n. skilaði áliti svo tímanlega, að hægt verði að leggja niðurstöður hennar fyrir Alþingi það, sem nú hefur komið saman. Lögð verður áherzla á almenna hækkun tryggingabóta, m.a. til samræmis við verðhækkanir. Mjög er til athugunar breyting á ákvæðum um fjölskyldubætur, svo og á sjúkratryggingakerfinu auk ýmissa annarra lagfæringa á lögunum.

Í heilbrigðismálum verður haldið áfram að bæta þjónustu, m.a. með læknamiðstöðvum, en lög gera ráð fyrir frumkvæði heima í héruðum. Hraðað verði byggingu fæðingar- og kvensjúkdómadeildar, sem nú er hafin á landsspítalalóðinni, sem hefur verið stórum stækkuð með fyrirhuguðu nýju skipulagi, er rúmar bæði kennslustofnanir Háskólans, rannsóknarstofnanir og aðrar sjúkra- og heilbrigðisstofnanir.

Frv. til l. um dómsmálastörf, lögreglustjórn o.fl. var lagt fyrir síðasta þing, en ekki afgreitt. Hefur það verið í sérstakri endurskoðun í dómsmrn. á grundvelli margra umsagna og grg., sem bárust um málið. Það felur í sér breytta skipan lögreglumála og á rannsókn mála. Gert befur verið ráð fyrir að sameina á einum stað alla starfsemi lögreglunnar í Reykjavík, þegar lögreglustöðin nýja yrði að fullu tekin í notkun, sem verður á næsta ári. Að athugun lokinni yrði málið væntanlega lagt fyrir Alþingi að nýju. Fleiri atriði varðandi endurskoðun á skipan dómsmála og réttarfars eru í athugun. Unnið verður áfram að endurbótum í fangelsismálum á grundvelli þeirrar áætlunar, sem lögð var fram á Alþ. á s.l. ári.

Lögð verða fyrir Alþ. frv. til l. um skólakerfi og fræðsluskyldu og frv. til l. um grunnskóla, og er þeim ætlað að koma í stað gildandi laga um skólakerfi og fræðsluskyldu, laga um fræðslu barna og laga um gagnfræðanám. Enn fremur verður lagt fyrir Alþ. frv. um nýskipan á menntun kennara. Þá hefur verið skipuð n. til þess að semja frv. um réttindi og skyldur kennara á öllum skólastigum, og er til þess ætlazt, að það verði einnig lagt fyrir Alþ. En til athugunar er ítarlegt nál. um endurmenntun kennara. Þá verður jafnframt haldið áfram þeirri gagngeru endurskoðun, sem stendur yfir á námsefni barna- og gagnfræðaskóla, endurskipulagningu menntaskólanámsins á grundvelli hinna nýju menntaskólalaga og fjölgun námsleiða við Háskólann. N. starfar og að endurskoðun tæknináms í landinu. Þá verður endurflutt frv. til útvarpslaga. N. vinnur að endurskoðun laga um þjóðleikhús, og mun frv. um það efni lagt fyrir þingið. Á grundvelli laga frá síðasta þingi um félagsheimilasjóð er verið að endurskipuleggja fjármál hans.

Unnið er að áætlun iðnþróunaráforma og reglum um útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Hagnýta ber af kappi þá nýju möguleika, sem skapazt hafa við stofnun norræna iðnþróunarsjóðsins, við aðild Íslands að Fríverzlunarbandalaginu og á grundvelli laga frá síðasta þingi um útflutningslánasjóð og samkeppnislán og tryggingasjóð útflutningslána. Ríkisstj. mun fylgjast náið með hugsanlegum breytingum í efnahagssamstarfi Evrópuríkjanna og hafa í því sambandi samráð við fulltrúa stjórnarandstöðu í EFTA-nefndinni, sem og ríkisstj. Norðurlanda, en slík tengsl eru þegar fyrir hendi. Teknar hafa verið ákvarðanir um endurnýjun togaraflotans með nýtízku skuttogurum, en samhliða er stefnt að því áfram að efla innlendar skipasmíðar, þannig að við getum sjálfir annazt endurnýjun og viðhald fiskiskipaflotans og tekizt á hendur stærri viðfangsefni, ef henta þykir, á grundvelli fenginnar reynslu. Endurflutt er frv. til l. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins.

Í utanríkismálum mun ríkisstj. enn sem fyrr taka heils hugar þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna, norrænni samvinnu og friðarvörzlu Atlantshafsbandalagsins. Þótt hin minnstu ríki geti ekki skipt sköpum í átökum stórvelda, eru margvísleg áhrif til góðs á alþjóðavettvangi, er frá þeim stafa. Ríkisstj. er hlynnt þeim hugmyndum, sem fram hafa komið um öryggisráðstefnu Evrópu, enda sé ráðstefnan vandlega undirbúin og bæði Kanada og Bandaríkin aðilar ráðstefnunnar.

Herra forseti. Nú sem fyrr mun sitt sýnast hverjum um störf og stefnu ríkisstj. Ég hef ekki dregið dul á, að ég legg á það mikið kapp, að takast megi að ná sem víðtækastri samstöðu um úrlausn þeirra vandamála, sem hvað helzt er við að glíma nú og á næstunni. Á ég þá við aðgerðir til viðnáms þeim vanda, sem víxlhækkanir kaups og verðlags fela í sér með vaxandi verðbólgu. Ríkisstj. er það öðru fremur kappsmál, að ekki renni út í sandinn að ófyrirsynju sá bati, sem undanfarið hefur orðið í efnahagsmálum eftir erfið áföll. Ég vil hins vegar taka af öll tvímæli um það, að ríkisstj. mun ekki hika við að gera þær ráðstafanir í þessum málum, sem hún telur öllum almenningi og atvinnulífi fyrir beztu, enda þótt hún með því stuðningsliði, sem hún nýtur, verði ein um að bera ábyrgð þeirra gerða Hún mun kappkosta, að hver haldi sínu og á engan sé hallað, en gagnkvæmur skilningur aukist á því, að það er öllum fyrir beztu, að atvinnulíf eflist með hagkvæmum rekstri fyrirtækja, vaxandi framtaki og frelsi í viðskiptum, sem er öruggasta vörnin gegn atvinnuleysi og undirstaða almennrar velmegunar.