15.10.1970
Sameinað þing: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. Alþ. hefur nú fengið að heyra grg. um helztu viðfangsefni ríkisstj., svo sem hæstv. forsrh. túlkaði þetta í máli sínu. Ræða hans var tvíþætt. Hún var í fyrsta lagi yfirlýsing um það, að meginstefnan hjá þessu nýskipaða rn. væri hin sama og 1959, við upphaf viðreisnarinnar, eins og hann orðaði það, þ.e.a.s. stefna hins nýja rn. er stefna viðreisnarstjórnarinnar, það er sama stefnan og við höfum búið við nú í rúman áratug. Hann dró saman megininnihald þessarar stefnu í gullfallegum orðum. Hann sagði, að tilgangur þessarar stefnu, sem mörkuð var 1959, hafi verið sá að tryggja heilbrigt efnahagslíf, tryggja örugga atvinnu og að tryggja það, að lífskjör batni. Þetta er ekki ljótt. En því miður er það svo um þessa stefnu, að eftirmæli hennar geta ekki orðið á annan veg en þann, að það má fela þau í setningunni: „Sporin hræða“. Það hefur ekki ríkt hér heilbrigt efnahagslíf og það er ekkert heilbrigðara nú heldur en áður á áratugnum. Öruggt atvinnulíf, jú, það er gott ástandið í atvinnulífinu nú í augnablikinu, en það er því miður að óbreyttri stefnu engin trygging fyrir því, að við horfum fram á öryggi atvinnulífs, jafnvel nú á komanda vetri. Við höfum nefnilega þreifað á því undir þessari stefnu, framkvæmd hennar, að undir eins og eitthvað slaknaði á um góðærið í landi voru, dundi yfir þjóðina ömurlegra ástand atvinnuleysis en við höfum áður kynnzt, og er ekki fullhætt við því, að ef árferði fer eitthvað niður fyrir meðallag, verði það niðurstaðan á ný, að atvinnuleysið haldi innreið sína? Ég tel fulla ástæðu til þess að óttast það. Og um markmiðið, að lífskjör batni, verð ég að segja það, að bati lífskjaranna í landinu er ekki sá, sem vænta hefði mátt í því góðæri, sem land og þjóð hefur búið við á þessu tímabili lengst af. Ég vil ekki fullyrða, að lífskjörin hafi orðið lakari, en þau hafa batnað minna en æskilegt hefði verið og gera mátti sér vonir um, miðað við árferði og aðstöðu.

Ég býst við því, að þjóðin hafi gert sér vonir um, að það kæmi hjá hæstv. forsrh. í stefnuyfirlýsingu hans fyrir hönd hins nýja rn. yfirlýsing um, að nú væri að einhverju verulegu leyti breytt um stefnu. Það væri ekki bara vitnað til gömlu viðreisnarinnar, því að það er ekki uppörvandi að horfast í augu við það, að sú stefna eigi að halda áfram óbreytt. Ég held, að þetta hafi valdið vonbrigðum og muni valda vonbrigðum hjá þjóðinni. A.m.k. varð ég fyrir vonbrigðum, þegar aðeins var sagt: Stefnan er hin sama og mótuð var 1959, og við höfum síðan búið við alls ófullnægjandi niðurstöður í þeim meginatriðum, sem hæstv. ráðh. lagði þó mesta áherzlu á. Ég hef einnig átt þess von, að nú, þegar hið nýja rn. hefur göngu sína og gerir grein fyrir stefnu sinni á næstu mánuðum, þá hefði samstarfsflokkur Sjálfstfl., sem með ríkisstj. stendur, gert grein fyrir því, hvort hann er að öllu leyti enn þá ráðinn í því að framfylgja stefnu viðreisnarinnar frá 1959 og ekkert beri þar á milli við hinn stjórnarflokkinn að því leyti. g hefði viljað vænta þess, að það hefði verið gert skýrt af forustumönnum Alþfl., hvort þeir ætluðu að ganga til næstu kosninga í bræðrabandi með Sjálfstfl. eða segja upp þeim félagsskap fyrir kosningar. Það er orðið það nálægt kosningum, að full ástæða væri til að óska þess, að gefin væri vitneskja um það. Ég minnist þess að vísu, að Alþýðublaðið hefur orðað þetta svo, að stjórnarflokkarnir séu ráðnir í því — það var gert í forsíðuleiðara fyrir nokkru síðan, þó aðeins fáum vikum — að stjórnarflokkarnir væru ráðnir í því að ganga með óbundnar hendur, ekki sem bandingjar, með óbundnar hendur til næstu kosninga varðandi framtíðarsamstarf. Þetta þýðir að mínu áliti, ef ég kann að lesa pólitískt mál, þá þýðir það það, að Alþfl. ætlar ekki að segja upp samstarfinu við Sjálfstfl. fyrir kosningar, en neyta meirihlutaaðstöðu með honum eftir kosningar, ef kjósendur svipta þá ekki þeirri aðstöðu.

Það var rétt, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., að það sköpuðust ný viðhorf með kjarasamningunum, sem gerðir voru í vor. Þar var viðurkennt, að launþegum bæri réttur til hlutdeildar í auknum þjóðartekjum. Menn deildu ekki um það, að þjóðartekjurnar hefðu vaxið, menn töldu, að það væri í raun og veru sjálfsagt, að launþegarnir í landinu fengju aukinn kaupmátt launa, hækkað kaup í krónutölu, svo að um munaði, og voru sannfærðir um það, að atvinnuvegirnir gætu undir því risið. En úr því að þeir voru sannfærðir um það, að atvinnuvegirnir gætu undir þessu risið — og það virtist mér vera yfirgnæfandi álit þjóðarinnar — þá hefðu einmitt ráðamenn þjóðarinnar átt að gera þegar í stað að gerðum þessum samningum ráðstafanir, sérhverjar ráðstafanir, sem tiltækar voru, til þess að hinn umsamdi kaupmáttur héldist óhaggaður og væri ekki af launþegunum tekinn. En því miður, og það harma ég mjög, hæstv. ríkisstj. hefur setið auðum höndum síðan á vordögum og ekkert aðhafzt til þess að fyrirbyggja, að kaupmáttur launanna, sem umsaminn var, væri skertur og rýrður með taumlausum verðhækkunum með nálega degi hverjum síðan. Ég álít, að ríkisstj. hefði átt þá þegar að grípa til mjög strangra aðgerða til að koma í veg fyrir verðhækkanir. Ég tel, að hún hefði átt að banna öllum opinberum stofnunum að hækka verðlag, banna að hækka verðlag á raforku, hitaveitugjöldum, póst- og símagjöldum og farmgjöldum, og hún hefði fyrst og fremst átt að tryggja það með brbl., að hin aukna krónutala launþeganna yrði ekki af þeim tekin með því að láta þá hækka í skattflokki við þessa breytingu, sem raunverulega var ekki kauphækkun í venjulegum skilningi, heldur eingöngu trygging á kaupmætti, sem launþegarnir höfðu áður notið, þegar velgengni ríkti í atvinnulífi okkar eins og nú. En ekkert af þessu var gert. Margt fleira hefði vafalaust mátt gera og átt að gera, en ekkert af þessu var gert.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði svo, að þegar nokkuð var umliðið frá þessari samningagerð, skrifaði ríkisstj. bréf til Alþýðusambandsins og óskaði eftir viðræðum um vandamál dýrtíðar og víxlverkana af áhrifum verðlags- og kaupgjaldshækkana og óskaði eftir því, að gengið yrði til rannsókna á orsökum þessara mála og reynt að komast að niðurstöðu um úrræði. En það var nokkuð langt frá samningsgerðinni liðið, þegar þetta gerðist. Þessu var vel tekið af hendi launþeganna, Alþýðusambandsins. Bændasamtökin óskuðu einnig eftir að eiga aðild að þessum viðræðum og hafa fengið þá aðild, og viðræðurnar hófust þann 20. ágúst s.l. Tíminn síðan hefur verið notaður til gagnaöflunar, og menn hafa skipzt á hugmyndum um þau vandamál, sem við blasa, en enn þá hefur ekkert gerzt annað en það, að nú seinustu dagana hefur verið nefnt töfraorð, verðstöðvun, eftir að nágrannaþjóðir okkar höfðu færzt það í fang að ráðast í svipaðar aðgerðir. En innihaldið í þessu orði vita menn nú ógjörla, því að fyrir því hefur engin grein verið gerð af hendi stjórnvalda, og það kom ekkert fram um innihald töfraorðsins í stefnuyfirlýsingu hæstv. forsrh., og ber að harma það. Nú standa þessar viðræður, sem hæstv. forsrh. vék að, viðræðurnar við launþegasamtökin, vinnuveitendasamtökin og Stéttarsamband bænda, enn þá yfir, og er í raun og veru komið að því að taka málefnalega afstöðu til þessara viðræðna, ef þær eiga að halda áfram. Það var einmitt það, sem miðstjórn Alþýðusambandsins gerði nú fyrir tæpri viku. Þá voru þessi mál rædd, viðræðurnar við ríkisstj., á tveimur miðstjórnarfundum og síðan gerð þar allitarleg ályktun, sem ekki hefur verið birt enn þá opinberlega og ég tel því rétt í sambandi við þessar umr. að hér verði birt. Þessi ályktun gerir það ljóst, með hvaða hætti miðstjórn Alþýðusambandsins vill standa að viðræðunum, sem staðið hafa síðan í ágúst í sumar, ef þeim verður haldið áfram. Ályktunin er, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Að fengnum upplýsingum, sem fram hafa komið í viðræðum fulltrúa Alþýðusambands Íslands og ríkisstj. um ástand og horfur í efnahagsmálum og hugmyndum, sem þar hefur verið hreyft af hálfu fulltrúa ríkisstj. ályktar miðstjórn Alþýðusambandsins eftirfarandi:

1. Ekki komi til greina nein skerðing á kjarasamningum verkalýðsfélaganna, og það sé grundvallarskilyrði fyrir hugsanlegu framhaldi viðræðna um efnahagsmál við ríkisstj. og vinnuveitendur, að því sé lýst yfir, að ekki verði beitt lögþvingunum í einu eða neinu formi til að breyta kjarasamningum verkalýðssamtakanna og samtaka vinnuveitenda frá 19. júní s.l. og síðar, hvorki varðandi greiðslur verðlagsbóta á laun né í öðrum atriðum.“

Í þessum 1. lið er þrennt tekið fram sem frumskilyrði fyrir framhaldi viðræðna: Í fyrsta lagi, að engin skerðing verði gerð á kjarasamningum verkalýðsfélaga. Þetta hefði nú varla þurft að taka fram, því að miðstjórn Alþýðusambandsins hefur vitanlega og auðskiljanlega engar minnstu heimildir til þess að breyta gerðum kjarasamningum annarra aðila, þ.e.a.s. verkalýðsfélaganna, og hefði því ekki átt eiginlega að þurfa að taka þetta fram. En samt var það nú gert til vonar og vara. Í öðru lagi að fá því yfir lýst, að ekki yrði beitt lögþvingunum í einu eða neinu formi til að breyta gerðum kjarasamningum né heldur á nokkurn hátt skertar vísitöluuppbætur samkv. ákvæðum samninganna. Ég vil líta svo á og treysta þar á drengskap hæstv. ríkisstj., að ekkert af þessu hafi að henni hvarflað, því að nú er verið að leysa gerðardóm, sem staðfestur var með brbl., með verulegri launahækkun til hærra launaðs fólks heldur en þess fólks, sem samið var fyrir í vor. Mér er heldur ekki ugglaust um, að það sé líka unnið að því, að jafnvel upp í hæsta topp embættismannakerfisins sé verið að ganga inn á allverulegar launahækkanir, kannske meiri en til láglaunafólksins s.l. vor. Og að þessu tvennu athuguðu held ég, að það sé með ólíkindum, ef það hefði hvarflað að ríkisstj. að lækka laun hinna lægst launuðu og rifta þannig gerðu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um þær ákvarðanir. Ég held því, að það verði auðgert fyrir hæstv. ríkisstj. að ganga að þessum 1. lið okkar samþykktar, þannig að viðræðurnar geti haldið áfram þess vegna.

En þá kemur 2. liður þessarar ályktunar, og hann er, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið: „Miðstjórnin er reiðubúin til að standa nú þegar að raunhæfum aðgerðum til verðstöðvunar með eftirgreindum hætti og eftir öðrum leiðum, sem til greina koma og stefna að hemlun verðbólgunnar.“

Þetta er skýr og afdráttarlaus yfirlýsing um það, að miðstjórn Alþýðusambandsins sé reiðubúin til þess að standa að raunhæfum aðgerðum til verðstöðvunar, sem allar miði að því að hemla verðbólguna, halda aftur af henni. Í þessu meginefni er ekki um að villast um vilja verkalýðssamtakanna. En það er sannfæring okkar, að það sé ekki nóg að kasta fram lítt undirbúinni löggjöf um verðstöðvun. Það gæti farið svo, að með slíkri löggjöf, ef ekkert annað væri gert, væri bara verðhækkunarvandamálinu safnað í poka, stóran drelli, sem yrði síðan svo þungur meðferðar á skömmum tíma, að innihaldið væri ekki viðráðanlegt, t.d. eftir 3 eða 6 mánuði, og þá væri verr farið en heima setið. (Gripið fram í: Það yrði sem sagt eftir kosningar.) Það yrði vafalaust ekki fyrr en eftir kosningar, nei, nei. Það er rétt. Það er byrjað að tala um verðstöðvun nú á þeim tíma, að henni er ætlað að veita hlé fram yfir kjördag, greinilega. En þess vegna er það skylda okkar í stjórnarandstöðunni einmitt að reyna af alefli að tryggja það, að þetta sé ekki bara hókus pókus og töfraformúla, sem einskis verð væri í reynd og þannig verið að koma sér hjá að axla byrðarnar fram að kjördegi.

Ég er sammála því, sem hér var sagt áðan, að það er kannske of djúpt í ár tekið, að kröfurnar séu um það að stöðva verðbólgu. Ég álít, að við þurfum ekki að láta okkur vera neitt órótt, þótt verðbólga hér þróist með svipuðum hraða og hún þróast hjá aðalviðskiptaþjóðum okkar. Nú hefur verið verðbólguþróun hjá þeim, og okkur mundi því nægja að leysa verðbólguvandamálið að svo miklu leyti, að við yrðum samstiga okkar viðskiptaþjóðum í öllum aðalatriðum að því er snertir verðbólgumálin. Strangari en þetta er ég nú ekki í garð ríkisstj. um raunhæfar aðgerðir til stöðvunar verðbólgu og dýrtíðar, en þetta er líka lágmarkskrafan sem ekki má undan víkjast og allir stjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir ættu að setja sér sem lágmarkstakmark. Við eigum að hemla dýrtíðina með öllum tiltækum ráðstöfunum þegar í stað og staðfesta þær aðgerðir síðan, ef þörf þykir á, með löggjöf. En skilyrðin, sem við teljum að verði að vera fyrir hendi til þess að þessi hemlun verði meira en nafnið tómt, eru eftirfarandi:

1. Að gildandi ákvæði í lögum um vald verðlagsnefndar og verðlagseftirlit verði ekki skert og sameiginlegum meiri hl. fulltrúa launþegasamtakanna og ríkisstj. í verðlagsnefnd verði beitt til strangs aðhalds varðandi þann hluta verðmyndunarkerfisins, sem n. hefur vald á, og til endurskoðunar á fyrri afgreiðslum n., sem mest orka tvímælis og ágreiningur hefur verið um milli fulltrúa launþegasamtakanna og fulltrúa ríkisstj.

Þetta er um álagningarmálin, fyrsta skilyrðið.

Þar hefur verið rýmkað meira en brýnasta nauðsyn hefur verið á fyrir kaupsýslunni í álagningarmálunum. Kaupsýslustéttirnar fengu tvenns konar kjarabót við samningana í vor. Aðra beint í sambandi við samningana í vor, en að öðru leyti vegna þróunar á heimsmarkaði. Það hefur verið verðbólguþróun í okkar nágrannalöndun. Innfluttar vörur hafa hækkað í verði. Við það getur ríkisstj. á hverjum tíma auðvitað alls ekkert ráðið og það er engin ásökun af minni hendi til núv. ríkisstj. varðandi það. En þetta þýðir það, að álagningargrundvöllur kaupsýslunnar hækkaði núna á þessu sumri og álagningin varð þess vegna rýmri hjá þeim í krónutölu að óbreyttum álagningarreglum heldur en áður var, samanborið við það, sem áður var. Það hefur verið sett á reikningsstokk, þetta. Og það er talið, að þetta eitt hefði farið langt til með að bera uppi þær kaupgjaldshækkanir, sem kaupsýslustéttirnar vitanlega urðu fyrir með samningunum í vor, — langt til.

En það er annað, sem gerðist með því stóra stökki krónubreytinga í launum, sem átti sér stað með samningunum í vor. Og það var það, að fyrir samningana höfðu kaupsýslustéttirnar fyrir framan búðarborðin hjá sér kaupgetulítið fólk, en eftir samningana var þetta fólk með allt upp í 17% aukna kaupgetu. Og það er allt annað fyrir kaupsýslustéttirnar að hafa fólk með nokkra kaupgetu fyrir framan búðarborðin hjá sér heldur en hafa fólk, sem ekkert getur keypt. A.m.k. hefði ég, ef ég hefði setið í ráðherrastóli í þessum mikla vanda verðbólguþróunarinnar, haldið því mjög að kaupsýslustéttunum, að þær yrðu að gæta hófs að þessu leyti og taka þetta hvort tveggja til greina um tíma a.m.k., meðan þjóðin gerði allsherjarátak til þess að reyna að stöðva sig á verðbólgubraut og vildi forðast það að lenda út í enn eina gengislækkunina. Nei, í stað þessa hefur verið af fulltrúa ríkisstj. sem oddamanni í verðlagsnefnd fallizt á hækkaða álagningu, og núna að undanförnu hafa staðið átök í þessari nefnd, þýðingarmiklu nefnd, um verðlagninguna á stórri innflutningsgrein, olíunni, og enn talin nauðsyn á að mati hæstv. ríkisstj. að hækka álagninguna þar, þrátt fyrir það, að gögn sýni, að olíufélögin hafa s.l. ár skilað feikilegum arði, gróða. Ég tel, að hvað sem kaupsýslustéttunum líður að þessu leyti, þá megi ekki taka svona lauslega og linlega á álagningarmálunum, ef á að sameina þjóðina um strangar aðgerðir til þess að reyna að fóta sig á stöðvun verðbólgu og dýrtíðar.

Enn annað skilyrði, sem miðstjórnin telur að verði að vera fyrir hendi, er þetta, að sérstakar ráðstafanir verði gerðar til að hindra allar verðhækkanir, sem opinberir aðilar ráða úrslutum um og nokkur raunhæf tök eru á að koma í veg fyrir. Þetta yrði auðvitað að meta í hverju tilfelli, hvar væru raunhæf tök á að gera slíkar ráðstafanir, og láta þar ekkert undan dragast, sem fært þætti til stöðvunar.

Í þriðja lagi, — og þá kem ég að þýðingarmiklu atriði, sem þyrfti talsverðan manndóm til þess að taka á sem skyldi, — að allar lögbundnar launa- og verðviðmiðanir við launataxta verkalýðsfélaga verði afnumdar með nýrri löggjöf, þ. á m. kjör opinberra starfsmanna og verðlag landbúnaðarvara, enda hljóti þá þessar starfsstéttir fullan samningsrétt hliðstæðan þeim, sem verkalýðssamtökunum er tryggður með gildandi löggjöf. Þetta er krafan um það, að horfið sé frá því „átomati“, að þegar laun verkamannsins eru leiðrétt og lagfærð, jafnvel þó að fyllstu rök séu til, þá er allt embættismannakerfið látið fara í gang í hækkuðum launum, ekki sömu krónutölu, heldur þrefalt fleiri krónum hjá þeim, sem hefur þrefalt hærri laun en verkamaðurinn, tvöfalt meiri hækkun í krónutölu hjá þeim embættismönnum, sem hafa tvöfalt hærri laun en verkamaðurinn o.s.frv., svo að þeir fá dýrtíðina bætta því betur sem þeir eru hærra launaðir. En þetta „átomatíska“ kerfi gerir það að verkum, að að því órofnu er lítt mögulegt að taka af viti eða festu á verðbólgu- og dýrtíðarmálunum í landinu. En þegar þetta kerfi væri leyst í sundur, þá er það jafnframt krafa okkar, að opinberir starfsmenn og bændastéttin fengju fullan, óskoraðan samningsrétt um sín launamál, eins og verkalýðurinn hefur, og það yrðu þessar stéttir að fá, ef „átomatíska“ kerfið væri höggvið í sundur.

Þá er það fjórða atriðið, að ítrustu greiðslugetu ríkissjóðs, svo og því fé, sem nú er varið til verðbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, verði beitt til verðlækkunar á grundvallarnauðsynjum almennings, svo sem lækkun söluskatts á lífsnauðsynjum og til aukningar fjölskyldubóta. Verðlagningarkerfi landbúnaðarins og fyrirkomulag niðurgreiðslna verði hvort tveggja tekið til endurskoðunar í fullu samráði við bændastéttina og með sameiginlega hagsmuni þeirra og neytendanna fyrir augum. Í þessum lið er komið inn á atriði, sem hæstv. ráðh. nefndi í sinni ræðu. Hann sagði, að það væri til athugunar, hvort hægt væri að verja því fé, sem nú færi í verðbætur á útfluttum landbúnaðarafurðum, á annan hátt betur til hagsmuna fyrir bændastéttina, skilst mér, og þá jafnframt ekki síður fyrir launþegana. Og þetta yrði að meta og ákveða í samráði við beztu fulltrúa bændastéttarinnar. Að því er þetta snertir virðist þá vilji manna fara nokkuð í svipaða átt.

Þá er það fimmta atriðið, að skattar og útsvör af almennum launatekjum verði lækkuð og skattaeftirlit hert. Það er álit okkar, að það sé nauðsynlegur liður í aðgerðum til að hefta dýrtíðina, að hinir lægst launuðu, menn með almennar launatekjur, verði ekki rúðir þeirri kjarabót, sem þeir fengu með samningunum, með því að hækka þá í skattflokkum. En það hefur gerzt þegar á þessu ári, af því að engar aðgerðir voru gerðar til að afstýra því.

Í sjötta lagi, að fyllsta aðhalds í rekstri ríkisins og ríkisstofnana verði gætt í því skyni, að unnt verði að beita sem mestu fjármagni og áhrifamestum aðgerðum í framangreindu skyni. Sumir miðstjórnarmanna — og það var einasti ágreiningurinn um þetta plagg — vildu, að þarna væri kveðið fastar að orði, ekki aðeins til fyllsta aðhalds í rekstri ríkis og ríkisstofnana, heldur og til niðurskurðar í ríkisbákninu. Og þar tek ég undir það, sem hér hefur verið sagt, að það er í raun og veru uggvænlegt, að gjöld ríkisins skuli vera búin að fylla 10 milljarða kr. og komin á annan tug milljarða. Það er uggvænlegt. Þar held ég að verði a.m.k. ekki ofmælt, að fyllsta aðhalds í rekstri ríkis og ríkisstofnana verði að gæta og jafnvel að grípa til niðurskurðarhnífsins, þar sem nokkrir möguleikar eru til að draga saman seglin.

Þessi ályktun er ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands í tilefni af þeim viðræðum, sem farið hafa fram síðan í ágústmánuði. En þar sem formaður og varaformaður Samtaka frjálslyndra og vinstri manna eiga sæti í miðstjórn Alþýðusambandsins og standa að þessari ályktun eins og aðrir miðstjórnarmenn, þá er þetta jafnframt stefnuyfirlýsing Samtaka frjálslyndra og vinstri manna að því er varðar þessa málaflokka, sem þarna er snert við.

Hinn þátturinn í ræðu hæstv. forsrh. var að kynna þingheimi þau mál sem hæst bæri og hæstv. ríkisstj. hefði þegar ákveðið eða væri ráðin í að flytja á þessu þingi. Ég skal ekki fara að nefna þessi einstöku mál, það, yrði of langt mál. Ég vil aðeins drepa þar á tvennt eða þrennt.

Það er landhelgismálið, sem gnæfir hátt yfir öll önnur mál af þeim, sem hæstv. ráðh. nefndi. Hann gerði þar lauslega grein fyrir kröfugerð ríkisstj. á alþjóðavettvangi, og hygg ég, að ekki verði ágreiningur um þá kröfugerð, enda ekki nýtt, eins og bent var á áðan. Og það er ég viss um, að ef staðið verður af einurð og djörfung að fyllsta málstað Íslands á innlendum og erlendum vettvangi, þá er ég alveg sannfærður um, að samstaða þjóðarinnar um þetta lífshagsmunamál hennar er örugg og trygg.

Ég held, að tímans vegna nefni ég ekki fleiri af þeim málum, sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir í sinni stefnuyfirlýsingu. Við munum taka í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna, sem á þingi eigum sæti, afstöðu til þeirra, eftir því sem þau verða rædd hér í þinginu.

Að lokum vil ég svo aðeins segja þetta, að ég lýsi því yfir fyrir hönd Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, að við, sem skipum þingflokk Samtakanna, erum í stjórnarandstöðu, þ.e. við erum andvígir þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið rúman seinasta áratuginn og nú hefur verið yfirlýst af hæstv. forsrh., að fylgt verði af stjórn hans. En höfuðeinkenni þessarar stefnu hafa verið æðisgengin verðbólga, dýrtíðarflóð og gengisfellingar með skömmu millibili. Þá hefur stjórnarstefnan strax, þegar eitthvað slaknaði á góðæri, leitt til víðtæks atvinnuleysis, sem er sá versti vágestur, sem borið getur að garði alþýðuheimilanna. Þessi afdráttarlausa yfirlýsing, sem ég nú hef gefið, varðar meginstefnuna og alveg sérstaklega stefnu ríkisstj. eins og hún hefur birzt á undanförnum árum í efnahagsmálunum. Hitt skal svo skýrt fram tekið, að við, sem sæti eigum á Alþingi Íslendinga fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna, munum styðja hvert það einstakt mál, sem stjórnin flytur, ef við teljum það horfa til framfara eða heilla fyrir land og lýð.