15.10.1970
Sameinað þing: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Forustumenn þingflokkanna hafa talað eftir þá ræðu, sem ég flutti hér fyrir hönd ríkisstj. Það hefur ekkert sérstakt komið fram yfirleitt í þeirra máli, sem gæti komið á óvart. Ég get fallizt á það sjónarmið, sem þeir settu fram, að eðlilegt væri, að mál þau, sem ég vitnaði til um afstöðu ríkisstj. og flutt mundu verða á þinginu, yrðu rædd á milli flokkanna, þegar þau verða flutt, og eins önnur mál, sem boðuð hafa verið af stjórnarandstöðu, að umr. um þau hefjist þá. Þess vegna skal ég ekki á þessum vettvangi fara út í neinar frekari deilur um málin.

Menn hafa gert í stórum dráttum grein fyrir afstöðu sinna flokka, eins og má teljast alveg eðlilegt á slíkum vettvangi eins og þessum.

Ég vil aðeins út af ræðu hv. 9. þm. Reykv. segja það, að ég held, að það sé mjög varasamt, að þessi hv. þm. blandi sér of mikið saman sem forseta Alþýðusambands Íslands og sem pólitískum forustumanni Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, eins og það heitir nú víst, því að auðvitað er hann ekki forseti Alþýðusambands Íslands sem slíkur. Og viðræður ríkisstj. við Alþýðusambandið eru ekki við frjálslynda vinstri menn, heldur við Alþýðusambandið sem stéttasamtök, samtök alþýðunnar í landinu, launþegasamtökin. Ég hefði heldur óskað að fá tækifæri til þess að ræða ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins sérstaklega við fulltrúa Alþýðusambandsins, sem sæti eiga í viðræðunefndinni við ríkisstj. Mér var kunnugt um, að það mun hafa verið fast eftir því gengið, að þessi ályktun væri birt, og mér var ljóst, að það var auðvitað engin ástæða til og ekki hægt fyrir mig að standa neitt gegn því. Hvort hún er birt hér á þingi eða í blöðum, skiptir heldur ekki máli. Ég tel heldur miður að fara að gera grein fyrir efni hennar og rökræða efni hennar hér í þingsölunum, þar sem menn tala sem pólitískir aðilar. Og án þess að ég skuli hins vegar fara lengra út í þetta, þá vil ég segja það, að ríkisstj. hefur skilið þessa ályktun þannig, að í henni felist þó, að Alþýðusamband Íslands vilji halda áfram viðræðum við ríkisstj. ásamt fulltrúum Vinnuveitendasambands Íslands og bænda um aðgerðir til þess að stöðva eða hemla verðbólguna vegna víxlhækkana kaupgjalds og verðlags, og hefur svarað Alþýðusambandinu bréflega 13. okt. Og í framhaldi af því svari hefur verið boðaður á morgun næsti viðræðufundur þessara aðila kl. 4 síðdegis. En ég vil leyfa mér að lesa svarbréf ríkisstj., sem er stutt og svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef móttekið bréf Alþýðusambands Íslands, dags. 11. okt. s.l. ásamt ályktun miðstjórnar sambandsins vegna viðræðna fulltrúa Alþýðusambandsins við ríkisstj. um verðbólguvandamál vegna víxlhækkana á kaupi og verðlagi, sbr. bréf ríkisstj. til yðar, dags. 1. júlí s.l. Ríkisstj. metur mikils, að miðstjórn Alþýðusambandsins er reiðubúin til að standa nú þegar að raunhæfum aðgerðum til verðstöðvunar, eins og segir í ályktuninni, með tilgreindum hætti og eftir öðrum leiðum, sem til greina koma og stefna að hemlun verðbólguþróunar. Benda verður á, að ýmis atriði ályktunarinnar verður að telja liggja utan þeirra marka, sem viðræðunum um verðbólguvandamálið voru settar, og mundu tæpast snerta verðstöðvunarákvarðanir nú. Engu að síður mætti ræða þau mál sérstaklega. Ríkisstj. lítur á ályktun miðstjórnarinnar þannig, að umr. þær, sem stofnað var til milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj., geti nú haldið áfram, en skiptast þurfi jafnframt á skoðunum um skilning tiltekinna atriða ályktunarinnar. Forsrh. mun ræða við fulltrúa aðila um hentara form viðræðnanna til jákvæðs árangurs.“

Ég hef einmitt hugsað mér það á fundinum á morgun, að við ræddum þar saman um hentara form viðræðnanna, því að það er, að ég hygg, óhjákvæmilegt til jákvæðs árangurs að hafa nokkuð annað form á viðræðunum, bæði fámennari fundi heldur en við höfum haft, sem ég mun ræða við aðila um, og einnig þurfa að fara fram fundir við hina einstöku aðila og ríkisstj. út af fyrir sig, og þar mun ég bera mig saman við fulltrúa þessara aðila á þessum fundi, sem er á morgun. Fleira skal ég svo ekki um þetta segja.

En ég vil aðeins árétta eitt, að hv. 9. þm. Reykv. sagði, að aðeins hefði verið ágreiningur um eitt atriði í ályktun Alþýðusambandsstjórnarinnar, í lok hennar, þar sem talað er um, að fyllsta aðhalds sé gætt í rekstri ríkisins. Sumir hefðu viljað kveða sterkara að orði. Það er sjálfsagt rétt frá skýrt. En ég hygg, að það hafi verið ágreiningur um fleira, því að mér barst bréf, dags. 12. okt., frá einum miðstjórnarmanni, Guðmundi H. Garðarssyni, sem ég tel nauðsynlegt, að fram komi hér í tilefni þessara ummæla, en þar segir svo m.a.

„Að gefnu tilefni vegna samþykktar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, 11. okt. óskar undirritaður, að eftirfarandi komi fram:

Kafli I í ályktun miðstjórnar um kjarasamninga verkalýðssamtakanna var samþykktur í einu hljóði. Um kafla Il“ — það var um verðlagsmálin m.a. „varð ekki eindregin samstaða, þar sem undirritaður lagði fram svo hljóðandi brtt.: Þar sem núverandi skipan verðlagsmála leysir ekki þann meginvanda, sem þjóðin stendur frammi fyrir, heldur hefur gagnstæð áhrif til hins verra fyrir neytendur til frambúðar, legg ég til, að 1. tölul. Il. kafla falli niður, en í stað þess komi, að komið verði á tímabundinni verðstöðvun.

Brtt. var felld með meginþorra atkv. gegn einu, þ.e. atkv. undirritaðs“ — sem er Guðmundur H. Garðarsson.

Að endingu, vegna þess, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði um viðræður, sem nú fara fram — ég veit ekki, hversu langt þær eru komnar eða hvort það er komið til ákvörðunar um verðlagningu olíu, — þá held ég, að mér sé alveg óhætt að fullyrða, að það sé verulega á misskilningi byggt, að þar sé verið að tala um hækkaða álagningu á olíu vegna gróða á s.l. ári, það sé þess vegna mjög hæpið að viðhafa slík ummæli hér og gæti valdið misskilningi hjá þeim, sem ekki þekkja betur til málanna. Ég held, að ekki hafi komið fram nein till. um hækkaða álagningu á olíunni og málið að öðru leyti sé allverulega miklu flóknara en hér er gefið í skyn. En ég vil sem sagt ekki, hvorki af tilefni minnar ræðu né annars, efna til umr. nú um þessi mál fram yfir það, sem ég þegar hef sagt vegna ræðu hv. 9. þm. Reykv.