15.10.1970
Sameinað þing: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég get ekki annað séð heldur en það hafi legið beint við enda hefur það verið gert af öllum ræðumönnum hér í dag — að ræða um verðbólgu- og dýrtíðarvandamálið. Hæstv. ráðh. innleiddi sjálfur umr. um viðræðurnar við Alþýðusambandið í sinni frumræðu, bæði í fyrsta kafla hennar og í niðurlagsorðum ræðunnar, og ég hefði talið það algera vanrækslu af minni hendi, ef ég hefði ekki við þetta tækifæri gefið þingheimi vitneskju um það, hvernig þessar viðræður stæðu nú á milli ríkisstj. og Alþýðusambandsins. Og það var eingöngu gert með upplestri ályktunarinnar. Við erum búnir að draga — og það er algerlega óvenjulegt — við erum búnir að draga það síðan s.l. sunnudagskvöld að birta þessa ályktun að ósk hæstv. ráðh. En vitanlega verður svo þýðingarmikil ályktun sem þessi að birtast, og hvort það er gert í dag eða á morgun, held ég, að skipti ekki miklu máli, né heldur hvar hún er birt. Það hefur verið orðið við því að fara ekki í sjónvarp, útvarp og blöðin með þessa ályktun enn þá. En Alþingi Íslendinga átti sannarlega, þegar málið var til umr. að frumkvæði ráðh., rétt á því að fá að vita, hvernig málin stæðu.

Á fundi, sem hæstv. ráðh. segir nú, að boðaður verði á morgun um þessi mál, verður auðvitað ræðzt við um tilhögun viðræðnanna og um samstöðu eða ágreining um efnisatriðin. En það er þá í fyrsta sinn, sem komið er að efnislegum umr. um málið. Hingað til hefur þetta verið gagnasöfnun og skipzt á hugleiðingum, en ekki tillögum.

Varðandi það, að ágreiningur hafi verið um þessa ályktun, er það að segja, að á umræðustigi umr. voru á tveimur fundum — vörpuðu menn fram ýmsum fleiri hugmyndum en Guðmundur H. Garðarsson um það, í hvaða röð ætti að setja upp skilyrðin. Og aðeins var blæmunur um framsetningu efnis. Síðan voru þær till. afgreiddar, en þegar þessi ályktun var borin undir atkv., var ekkert mótatkv., ekki eitt einasta mótatkv. Ályktunin var því afgreidd einróma frá Alþýðusambandi Íslands. Hvað sem menn skrifa svo sínum ráðh. um annað, þá er það ekki rétt. Ályktunin var einróma samþ., ekkert mótatkv., og það er engin rödd á móti, þó að einn maður sitji hjá. Það kann að vera, að þessi miðstjórnarmaður, Guðmundur H. Garðarsson, hafi setið hjá, en einróma var ályktunin samþykkt.

Ég mótmæli því alveg, að það hafi verið óviðurkvæmilegt að skýra frá því, hvernig þessi mál stæðu, að þau væru komin núna á tímamót, ætti að fara að ræða þau efnislega og hefðu hingað til aðeins verið hugleiðingar og gagnakönnun, og afstaðan hjá launþegasamtökunum væri slík sem kom fram í þessari ítarlegu ályktun. Ég verð meira að segja að segja það, að ég bíð með nokkurri eftirvæntingu eftir því, hvort Alþfl. tekur undir þá stefnu, sem verkalýðsmálaarmur flokksins hefur markað með afstöðu til þessarar ályktunar um efnahags- og launamálin, eða hvort hann verður þar á öndverðum meiði vegna ríkisstjórnarsamstarfsins.