15.10.1970
Sameinað þing: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar við að kvöldi sunnudagsins s.l. — nú er fimmtudagur — gengum frá þessari ályktun, þá var talið rétt að birta hæstv. ríkisstj. ályktunina með hraði. Það var sent með ályktunina á sunnudagskvöld til hæstv. ráðh. Þar með var ályktunin komin í hendur þess aðila, sem hún var stíluð til. Síðan var það vafalaust hugmynd miðstjórnarmanna, að hún yrði birt, eftir að hæstv. ríkisstj. hefði fengið svigrúm til þess að kynna sér efni hennar, sem gat þá orðið strax á mánudagsmorguninn. Ég hef a.m.k. ekki vanizt þeim vinnubrögðum hjá Alþýðusambandi Íslands að liggja á samþykktum sínum sem leyndarmáli, þýðingarmiklum málum dögum saman. Vitanlega átti þessi ályktun erindi til almennings og ekkert síður inn á Alþ., þegar þetta mál væri til umr., heldur en annars staðar, úr því að ekki var búið að birta hana í fjölmiðlunum áður. Og það er fyrst á morgun, föstudag, sem þessi þýðingarmikla ályktun getur komið til birtingar fyrir þjóðinni, — föstudag, gerð á sunnudagskvöld og send þá þegar á stundinni til hæstv. ráðh. Ég veit sannast að segja ekki, undan hverju hæstv. ráðh. er að kvarta í þessu efni. Það verða engar hömlur með umr., sem hér hafa farið fram, lagðar á það, hvaða skilning menn leggja í ályktunina á morgun, þegar nefndin og ríkisstjórnarfulltrúarnir og vinnuveitendafulltrúarnir ræðast við. Það er þá aðeins það, að efni ályktunarinnar liggur kannske aðeins ljósar fyrir en þegar þeir koma á þann fund, en að engu leyti getur það skaðað nokkurn aðila.