30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

Skýrsla um utanríkismál

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar ég flutti aðra skýrslu mína um utanríkismál fyrir réttu ári, var þess óskað, eins og kom fram í umr. að skýrslan yrði lögð fram nokkru áður en umr. færi fram, þannig að hv. þm. hefðu haft tækifæri til að kynna sér hana fyrir umr. Þetta hefur nú verið gert, og hafa því nú allir hv. þm. fengið ræðuna vélritaða á barð sitt til lesturs. Skýrsluna ber að skoða sem framsöguræðu mína í málinu eins og áður, og þarf ég því litlu eða engu við að bæta. Það þjónar ekki neinum tilgangi að fara að lesa upp þessa skýrslu, því að það mundi taka um það bil 2 klukkutíma, og hv. þm. hafa haft tækifæri til að lesa skýrsluna. Að vísu skal ég leyfa mér að bæta við, að skýrslan er samin í febrúarmánuði s.l., og hefur því ýmislegt gerzt síðan á sviði utanríkismála, sem rétt hefði verið að taka með. En það verður þá gert, eftir því sem ástæða gefst til í umr. Ég hef í þetta skiptið látið fylgja með þrjú fskj.: Í fyrsta lagi þær fjórar afmælisályktanir allsherjarþingsins, sem samþykktar voru nú fyrir árámótin. Í öðru lagi ályktanir þrjár frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna varðandi hafið. Og í þriðja lagi íslenzka þýðingu á c-hluta ályktunar nr. 2750 um undirbúning þriðju hafréttarráðstefnunnar. Fleira sé ég ekki ástæðu til að segja um þetta mál að svo stöddu.