30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

Skýrsla um utanríkismál

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér skynsamleg aðferð að birta þm. skýrslu hæstv. ráðh. vélritaða, þannig að þeir eigi kost á því að kanna hana, áður en almenn umr. fer fram um utanríkismál. Það var óeðlilegur háttur, fannst mér, að hæstv. ráðh. kæmi hér og flytti skýrslu sína og síðan væri til þess ætlazt, að menn tækju upp almenna umr. þegar á eftir, án þess að hafa átt þess kost að gaumgæfa einstök atriði í skýrslu ráðh. Því tel ég þessi vinnubrögð vera tvímælalaust til bóta. Hins vegar sé ég ástæðu til þess að gagnrýna það, að mér finnst þessi skýrsla koma allt of seint fram. Hún var lögð fram í síðustu viku og er tekin til umr. í dag, þegar aðeins er eftir ein vika af þingtímanum og þegar annir eru svo miklar, að vandséð er, hvernig þm. eiga að fara að því að rækja brýnustu verkefni sín. slík vinnubrögð gefa til kynna, að hæstv. ráðh. sé fremur að fullnægja formsatriðum með því að leggja þessa skýrslu fram en hann hafi áhuga á því, að hér fari fram ítarleg og gaumgæfileg umr. um utanríkismálin. Ég hygg, að það væri miklu skynsamlegri aðferð að leggja skýrslu um utanríkismál fram snemma á þingtíma hverju sinni og láta henni þá fylgja almenna ályktun um stefnu ríkisstj. í utanríkismálum, en þm. ættu þess kost í sambandi við þann málatilbúnað að leggja fram sínar eigin till. um breytingar á utanríkismálum eða önnur atriði, sem þeir vildu vekja athygli á. Síðan væru þessi plögg lögð í hendur utanrmn. og á síðari hluta þingtímans kæmu þau síðan til formlegrar og þinglegrar afgreiðslu hér á hinu háa Alþ. Á þennan hátt held ég, að umr. um utanríkismál yrði mun málefnalegri og menn tækju þau mál alvarlegar en gert er nú til þessa.

En eins og nú er ástatt á hinu háa Alþ., þá er mjög erfitt að koma fram till, um utanríkismál og fá þær raunverulega teknar til meðferðar og afgreiddar hér á þinginu. Það líður mánuður eftir mánuð, án þess að till., sem hér eru lagðar fram um breytingar á stefnunni í utanríkismálum, fáist teknar til umr., hvað þá að þær fari til n. og fái endanlega afgreiðslu, og mun ég koma nánar að þessu atriði síðar. En í sambandi við skýrslu hæstv. ráðh. um utanríkismál á hverju ári hér á þingi, þá tel ég, að það eigi að vera algerlega óhjákvæmilegur hluti þeirrar skýrslu, að fjallað sé sérstaklega um þau vandamál, sem brenna heitt á okkur Íslendingum hverju sinni. Ég tel t.d., að það sé skylda hæstv. ráðh. að fjalla í hverri skýrslu um hersetu Bandaríkjanna á Íslandi, meta hana í samhengi við þróunina í alþjóðamálum og gera grein fyrir þeim rökum, sem talin eru réttlæta það, að það ástand haldist.

Eftir rúman mánuð eru liðin rétt 20 ár síðan Bandaríkin sendu hingað hernámslið öðru sinni. Og á þeim tíma hefur hin erlenda byggð á Miðnesheiði orðið sífellt varanlegri. Við Íslendingar megum aldrei gleyma því, að þetta ástand skerðir sjálfræði okkar og heilbrigðan þjóðarmetnað, og við megum aldrei líta á þetta sem neitt eðlilegt og varanlegt ástand. Þetta ástand á að hafa í huga okkar eins og sár kvika, ekki sízt í hugum þeirra, sem bera ábyrgð á þessu ástandi. En hæstv. utanrrh. virðist vera einn í hópi þeirra, sem ekki sjá mikið athugavert við þetta ástand og virðast telja, að það megi vel vera varanlegt. Á fyrstu síðunni í skýrslu hans er vikið að þessu í örstuttu máli. Hæstv. ráðh, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við teljum öryggismálum lands og þjóðar bezt borgið með varnarsamstarfi okkar við Bandaríkin innan ramma Atlantshafsbandalagsins. Engri þjóð hefur verið stoð í varnarlausu hlutleysi, og ekki getum við einir haldið hér uppi hervörnum. Þess vegna höldum við áfram þátttöku í varnarbandalagi vestrænna þjóða.“

Í þessu virðist það felast, að hæstv. ráðh. telur eðlilegt, að þetta ástand haldist til frambúðar, að hér á Íslandi verði tvíbýli um ófyrirsjáanlega framtíð, að ekki aðeins við Íslendingar búum hér í landinu, heldur einnig bandaríska stórveldið. Það er ekki gerð nein tilraun til þess að meta aðstæðurnar, engin tilraun til þess að lýsa yfir því, hvað gerast þurfi til þess, að þessi hæstv. ráðh. telji ráðlegt að vísa hinum erlenda her úr landi. Í staðinn koma aðeins þessar almennu og alkunnu röksemdir, að það geti engum verið stoð í varnarlausu hlutleysi. Svona almennar setningar er ósköp auðvelt að koma með. Það er hægt að segja, að það sé engin stoð í óvörðu hlutleysi, en ósköp auðvelt líka að segja, að það sé engin stoð í því að vera í hernaðarbandalagi, og það er hægt að nefna um það mörg hundruð dæma. Svona formúlur segja að sjálfsögðu ekki nokkurn skapaðan hlut. Það, sem til þarf, er raunsætt mat á aðstæðum hverju sinni. Og við skulum aldrei gleyma því, að markmið íslenzkrar utanríkisstefnu á að vera að tryggja það, að Íslendingar geti lifað einir og óháðir í landi sínu. Við höfum ekki náð markmiðum okkar, á meðan svo er ekki ástatt, og þetta eiga þeir menn sérstaklega að muna, sem bera ábyrgð á því, að herinn var kvaddur hingað.

Annað mál, sem eðlilegt er að fjalla um í sambandi við utanríkismál að þessu sinni, er að sjálfsögðu landhelgismálið, og um það er allítarlegur kafli í skýrslu hæstv. ráðh. Það mál verður rætt hér sérstaklega síðar í þessari viku og sé ég því ekki ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um það. Þó kemst ég ekki hjá því að gera aths. við ræðu þá, sem hæstv. utanrrh. hélt á þingi Sameinuðu þjóðanna í haust og vikið er að í skýrslu hans. Ég las þá ræðu, þegar hún var flutt, og ég gat ekki annað séð en í henni fælist það tilboð af okkar hálfu, að við værum reiðubúnir til þess að fallast á 12 mílur sem almenna reglu, ef við fengjum undanþágu frá henni. Hæstv. ráðh. segir í þessari gerð, sem birt er í skýrslunni núna: „Í sérstökum tilfellum, þegar þjóð byggir afkomu sína að langmestu leyti á fiskveiðum undan ströndum, eru 12 mílur ekki nóg.“ Þetta er aðeins í sérstökum tilfellum og ef þjóð á afkomu sína að langmestu leyti undir fiskveiðum. Það eru ekki margar þjóðir í heiminum, sem þannig er ástatt um. Ætli það séu öllu fleiri sjálfstæð ríki en Ísland, sem þarna er um að ræða? En ef við ætlum að byggja stefnu okkar á því að fara fram á undanþágu fyrir okkur eina frá almennri reglu, þá held ég, að við séum að sigla málum okkar í algert óefni. Þarna verðum við tvímælalaust að styðjast við þær þjóðir, sem beita sér fyrir því, að landhelgismörkin verði sem rúmust, og tengja saman annars vegar fiskveiðilandhelgina og hins vegar landgrunnið. slíkar þjóðir eru nú 20–30 talsins í heiminum og þær kynna þessa sérstöku stefnu, sem við eigum tvímælalaust að fylgja. Og við eigum ekki að láta okkur nægja að fara fram á einhverja undantekningu fyrir okkur eina. Ég minnist á þetta vegna þess, að ég óttast, að þetta sé hin raunverulega afstaða hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. Að vísu verða höfð uppi fögur orð í kosningabaráttunni núna næstu mánuði. En ef þessi hæstv. ríkisstj. heldur á málunum þar á eftir, þá er ég hræddur um, að þetta sjónarmið komi upp á nýjan leik, að við eigum að fara fram á undanþágur fyrir okkur eina.

Ég sagði áðan, að það væri erfitt að koma á framfæri till. um utanríkismál á hinu háa Alþingi. 2. des. s.l. flutti ég ásamt hv. þm. Sigurvin Einarssyni till. til þál. um breytta stefnu í utanríkismálum. Síðan eru liðnir 4 mánuðir, og þessi till. er ekki enn komin til umr. hér á þingi. Fyrst liðu margar vikur án þess að hennar væri getið í hinni prentuðu dagskrá. Síðan hefur hún oft verið á dagskránni, en hún hefur ekki komið til umr., og nú er útséð um, að það gerir hún ekki í þeirri viku, sem eftir er, enda mundi það litt stoða, því að utanrmn., sem átti að fjalla um hana, mundi að sjálfsögðu ekki hafa ráðrúm til þess. Vinnubrögð af þessu tagi tel ég algerlega fráleit, og við eigum ekki að una því, alþm., að þannig sé farið með mál okkar. Ég veit, að hæstv. forseti ber því við, að það sé erfitt að koma fram málum í Sþ., vegna þess að við þm. segjum svo margt um fsp. Vissulega er það rétt, að við fjöllum oft og lengi um fsp. En ég veit ekki til þess, að það standi á þm. að koma hér til funda til þess að afgreiða mál, þegar eftir því er leitað. Ef hæstv. forseti hefði haldið fundi til þess að afgreiða þau mál, sem hér hafa verið lögð fram, þá veit ég, að þm. hefðu komið og tekið þátt í þeim störfum, þannig að þessi vinnubrögð hafa strandað einvörðungu á hæstv. forseta Sþ. Og mér finnst, að svona vinnubrögðum eigum við ekki að una öllu lengur.

En fyrst hér er almenn umr. um utanríkismál, þá vildi ég víkja nokkuð að þeim atriðum, sem við hv. þm. Sigurvin Einarsson gerðum till. um, og þá líka vegna þess, að um þau atriði öll er fjallað í vissum köflum í ræðu hæstv. utanrrh.

Fyrsta till., sem við fluttum, var sú, að Alþ. ályktaði að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi, að ríkisstj. í Peking verði falið að fara með umboð Kína hjá Sameinuðu þjóðunum og í öðrum alþjóðasamtökum. Það er alkunna, að þetta hefur verið mikið deilumál á alþjóðavettvangi um langt skeið, og það, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta mál, einkenndist því miður af sams konar ruglingi og það, sem hann hefur áður sagt um það á undanförnum þingum. Það, sem ráðh. bar einkum við, var það, að það væri erfitt að fela Pekingstjórninni aðild að Sameinuðu þjóðunum, vegna þess að það jafngilti því, að stjórnarvöld á Formósu yrðu gerð afturreka úr samtökum Sameinuðu þjóðanna, og Íslendingar gætu ekki verið sammála því að víkja nokkurri þjóð úr Sameinuðu þjóðunum. Þetta er meginatriðið í því, sem hæstv. ráðh. segir í skýrslu sinni. En þetta er, eins og ég sagði áðan, byggt á málefnalegum ruglingi. Kína er aðili að Sameinuðu þjóðunum, stofnaðili Sameinuðu þjóðanna, og þar að auki í stórveldahópi, á sjálfkrafa aðild að Öryggisráðinu. Þar er ekki um að ræða aðild neinnar ríkisstj., heldur aðild Kína. Eftir að Kína gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum, varð borgarastyrjöld í landinu. Sú borgarastyrjöld var leidd til lykta 1949, og eftir það hefur stjórnin í Peking farið með öll völd í Kína nema á eynni Formósu. Og að sjálfsögðu bar þá að veita Pekingstjórninni aðild að þessum alþjóðasamtökum. Hvort sem mönnum líkaði það betur eða verr, þá var það staðreynd, að það var ríkisstj. landsins. Nú er alls ekki um það að ræða, að þarna séu tvö ríki, annars vegar meginland Kína, en hins vegar Formósa. Það er sameiginleg afstaða ríkisstj. á báðum stöðunum, að það sé aðeins um að ræða eitt kínverskt ríki og meginlandið og Formósa séu sama ríkið. Það getur ekki verið nema ein sendinefnd fyrir hvert ríki hjá Sameinuðu þjóðunum. Ef Pekingstjórninni er falið að fara með aðild Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, þá liggur það í hlutarins eðli, að sendimennirnir frá Formósu, sem telja sig vera fulltrúa alls Kínaveldis einnig, hljóta að víkja. Þetta liggur í hlutarins eðli. Einhvern tíma síðar gæti komið upp það viðhorf, að það yrði stofnað ríki á Formósu. Ef það viðhorf kemur upp, þá verður það að sjálfsögðu vandamál, sem verður að taka afstöðu til. Ríki verða að ákveða, hvort þau vilja viðurkenna það ríki, og síðan verður að ákveða, hvort menn vilja taka það inn í Sameinuðu þjóðirnar. En þannig er ástandið ekki núna, og það þýðir ekki fyrir okkur Íslendinga að fara að búa til eitthvert fræðilegt dæmi, sem alls ekki er á dagskrá. Það, sem um er að ræða, er aðeins þetta: Hverjir eiga að fara með umboð Kína hjá Sameinuðu þjóðunum? Ástæðan fyrir því, að ríkisstj. í Peking hefur verið haldið utan Sameinuðu þjóðanna í meira en tvo áratugi, er einvörðungu pólitísk og tengd stórveldishagsmunum Bandaríkjanna. Bandaríkin hafa á þessu tímabili komið sér upp mjög öflugum herstöðvahring umhverfis Kína og háð þar baráttu, sem hefur beinzt gegn Kínverjum. Þar hafa m.a. verið háðar mjög háskalegar stórstyrjaldir, sem hafa greinilega beinzt gegn Kína. En almennt séð gengur þessi afstaða til aðildar Pekingstjórnarinnar að Sameinuðu þjóðunum í berhögg við hagsmuni friðar og öryggis í heiminum. Það er ekki unnt að halda uppi þeirri starfsemi, sem Sameinuðu þjóðirnar eiga að rækja, nema öll helztu ríki hnattarins eigi aðild að þeim samtökum. Með því að halda Pekingstjórninni utan við hafa Sameinuðu þjóðirnar verið að dæma sig úr leik á mjög mikilvægum hluta hnattarins. Þetta er staðreynd, sem æ fleiri ríki hafa verið að viðurkenna á undanförnum árum, einnig flest ríki Atlantshafsbandalagsins. Það er nú svo komið, að mikill meiri hluti af ríkjum Atlantshafsbandalagsins hafa annaðhvort tekið upp stjórnmálasamband við Kína eða undirbúa að gera það, þ.e.a.s. Pekingstjórnina. Og Ísland er að skera sig úr á ákaflega ömurlegan hátt. Á sínum tíma var því lýst sem sameiginlegri afstöðu Norðurlanda, að Norðurlönd mundu styðja aðild Pekingstjórnarinnar að Sameinuðu þjóðunum. En eftir þessa yfirlýsingu skárust Íslendingar úr leik og hafa síðan fylgt Bandaríkjunum innan Sameinuðu þjóðanna. Í þeirri atkvgr., sem fór fram nú í haust, gerðist það í fyrsta skipti, að meiri hluti ríkja innan Sameinuðu þjóðanna greiddi atkv. með því, að Pekingstjórnin fengi aðild að þessum samtökum. En áður var búin að fara fram önnur atkvgr. um till. þess efnis, að það þyrfti 2/3 atkv., og það var hin raunverulega atkvgr. um aðild Kína, vegna þess að það var vitað, að meiri hluti þjóðanna vildi þetta. Og þá var það Ísland, sem greiddi atkv. með þessari bandarísku till. Ég held, að ekkert dæmi sé ljósara en þetta um það, hvað afstaða ríkisstj. Íslands er ósjálfstæð gagnvart hinu bandaríska stórveldi.

Nú bendir margt til þess, að Bandaríkin séu að gefast upp á þessari stefnu sinni, vegna þess að bandamenn þeirra hafa verið að hverfa frá henni einn af öðrum í sívaxandi mæli. Og raunar kom það fram í skýrslu hæstv. ráðh., að einnig hann er að verða hikandi. Á bls. 29 í skýrslunni fann ég þessi fróðlegu ummæli, með leyfi hæstv. forseta:

„Ábyrgir aðilar færa nú rök fyrir því, að tími sé til kominn að viðurkenna Pekingstjórnina og gefa henni kost á sæti Kína í Sameinuðu þjóðunum. Heyrast þessar raddir einnig í auknum mæli í Bandaríkjunum. Í febrúarmánuði í fyrra sagði Nixon forseti í yfirlitsskýrslu um utanríkismál, að stjórn sín væri reiðubúin til að stofna til eðlilegra samskipta við alþýðulýðveldið í reynd.“

Ábyrgir aðilar færa nú rök að þessu, segir hæstv. ráðh. En það eru liðin meira en 20 ár síðan þjóðir eins og Bretar og Danir og Norðmenn og Hollendingar viðurkenndu Pekingstjórnina. Telur hæstv. ráðh., að þarna sé ekki um ábyrga aðila að ræða? Síðan 1964 hafa Frakkar haft stjórnmálasamband við ríkisstj. í Peking. Telur hæstv. ráðh., að franska stjórnin sé ekki ábyrg? Er afstaða þessa hæstv. ráðh. svo þröng, að hann sjái hvergi neina ábyrga aðila í alþjóðamálum nema þeir séu bandarískir? En það hik, sem er á ummælum hæstv. ráðh. að þessu sinni í fyrsta skipti, við skulum vona, að það beri það með sér, að Íslendingar muni nú senn taka upp sjálfstæðari afstöðu á þessu sviði en þeir hafa gert að undanförnu.

Önnur till., sem við hv. þm. Sigurvin Einarsson bárum hér fram, var sú, að Alþ. ályktaði að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi, að bæði þýzku ríkin fái aðild að Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðasamtökum og hljóti sömu stöðu að alþjóðalögum og tíðkast í eðlilegum samskiptum ríkja. Hér er vikið að máli, sem hefur verið hættulegasta vandamálið í Evrópu síðan heimsstyrjöldinni lauk. Lengi vel var sú stefna ríkjandi í Vestur-Þýzkalandi, að stjórnarvöld þar kröfðust umboðs fyrir allt Þýzkaland og neituðu að viðurkenna ríkjandi landamæri. Þau gerðu þannig í rauninni landakröfur til Póllands og til Sovétríkjanna. Og þetta voru einu landakröfurnar, sem uppi voru í Evrópu. Þess vegna tel ég, að þær breytingar, sem nú hafa orðið á utanríkisstefnu Vestur-Þýzkalands, séu mjög mikilvægur atburður. Vestur-þýzka stjórnin hefur í samningum við Sovétríkin og við Pólland viðurkennt ríkjandi landamæri í Evrópu, og þó að þeir samningar hafi ekki verið formlega fullgiltir enn þá, þá eru þeir engu að síður endanlegir. Og jafnframt hafa farið fram umr. um bætt samskipti þýzku ríkjanna beggja. Í skýrslu hæstv. utanrrh. var farið viðurkenningarorðum um þessar tilraunir, en kvartað undan því, að hægt gengi, einkanlega að því er varðar samskipti þýzku ríkjanna og framtíð Berlínar. Ég held, að ástæðan fyrir því, hversu hægt gengur, sé sú, að samningar um þetta geta ekki tekizt, nema þeir séu gerðir af tveimur jafnréttháum aðilum. Ég held, að það sé orðið algerlega úrelt sjónarmið að neita að viðurkenna þá staðreynd, að þýzku ríkin eru tvö. Hvort sem mönnum líkar þetta betur eða verr, þá er það staðreynd. Með þessu er ég ekki að halda því fram, að þýzk ríki verði tvö um alla framtíð. Það verður vafalaust ekki. En sameining þeirra getur aðeins farið fram með samningum jafnrétthárra aðila.

Ég held, að það sé ákaflega röng stefna að ríghalda sér við það, að NATO-ríki megi ekki viðurkenna þá óhjákvæmilegu staðreynd, að Austur-Þýzkaland er til, og taka upp eðlileg samskipti við það ríki. Ég held, að það sé forsenda allrar skynsamlegrar stefnu í utanríkismálum og á öðrum sviðum að viðurkenna staðreyndir. Það er alkunna, að vestur-þýzka stjórnin á í miklum erfiðleikum með að framkvæma stefnu sína, vegna þess að hún á í heimalandi sínu í höggi við mjög volduga og hættulega andstæðinga og hún verður að taka tillit til þeirra í athöfnum sínum. Þess vegna held ég, að það mundi hjálpa vestur-þýzku stjórninni mjög mikið, ef önnur nágrannaríki hennar í Evrópu stuðluðu að því að koma á eðlilegum samskiptum við þýzku ríkin bæði og þrýstu á það, að menn viðurkenndu þessa óhjákvæmilegu staðreynd, að þessi ríki eru tvö. Á þessu er nú vaxandi skilningur. M.a. er vaxandi skilningur á þessu hjá svokölluðum flokksbræðrum hæstv. utanrrh. á Norðurlöndum. Bæði fyrir norska þinginu og því danska liggja nú till. fluttar af sósíaldemókrötum um aðgerðir, sem miða að því, að austur-þýzka ríkisstj. verði viðurkennd stig af stigi. Og ég tel, að við Íslendingar eigum að stuðla að eðlilegri þróun á þessu sviði ásamt öðrum.

Tengd þessu vandamáli er hugmyndin um öryggisráðstefnu Evrópu. Um það fjallaði kafli í skýrslu hæstv. ráðh., en allt fannst mér umtal hans um það efni vera furðulega neikvætt og ámóta neikvætt og þeirra bandarískra stjórnmálamanna, sem nú eru einna íhaldssamastir. Það kom greinilega fram í skýrslu hæstv. ráðh., að forsenda sú, sem hann sér fyrir samkomulagi í Evrópu, er, að haldið verði þeim áhrifasvæðum og þeim valdakerfum, sem nú eru í Evrópu, að haldið sé áfram Atlantshafsbandalaginu og Varsjárbandalaginu. Þau eiga að halda áfram að vera þarna eins og eins konar alþjóðlegt herlið. Um þessi atriði segir hæstv. ráðh. mjög lærdómsríkar setningar. Hann segir á bls. 17 í skýrslu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Vestur-Evrópuríkin álíta bandarísku hersveitirnar vera tryggingu fyrir haldgóðum vörnum Atlantshafsbandalagsins á meginlandi Evrópu. Ekkert getur komið í stað þessa framlags Norður-Ameríku til sameiginlegra varna Evrópu.“

Þannig á Evrópa um langa framtíð að búa við það hlutskipti, að hernámslið sé í ýmsum löndum hennar og þarna sé um að ræða íhlutun stórveldis um mjög veigamikla þætti. En raunverulegar hugmyndir um öryggi og frið í Evrópu eru bundnar þveröfugri þróun, einmitt þeirri þróun, að hernaðarbandalögin leysist upp, að sjálfræði einstakra ríkja aukist, einnig þeirra ríkja, sem smæst eru. En einmitt í þessu viðhorfi hæstv. ráðh. hvað þetta atriði snertir kemur fram heildareinkenni á þessari skýrslu hans. Hún einkennist af því, að þar er ekki um að ræða neinar nýjar og ferskar hugmyndir, engin tilraun til þess að endurmeta nein mál frá breyttum aðstæðum. Þarna er aðeins verið að ítreka viðhorf kalda stríðsins, þær röksemdir, sem gaddfreðnastar eru. Raunar talar hæstv. ráðh. á einum stað í skýrslu sinni um meginreglur í samskiptum þjóða og þar víkur hann að öðru en hervaldi. Hæstv. ráðh, segir á bls. 16, með leyfi hæstv. forseta:

„Á hinn bóginn vilja Vesturlönd tala um meginreglur í samskiptum þjóða. Þessar reglur eru alkunnar, og eftir innrásina í Tékkóslóvakíu hefur oftsinnis verið lögð áherzla á þær í yfirlýsingum utanríkisráðherrafunda Atlantshafsbandalagsins. Friður verður að byggjast á fullveldi, jafnrétti, pólitísku sjálfstæði og landsyfirráðum sérhvers Evrópuríkis, enda verði viðurkenndur réttur allra Evrópuþjóða til að móta eigin framtíð án erlendrar íhlutunar, utanaðkomandi þvingana eða ógnana í þá veru. Íhlutunarréttur í innanríkismálum, hvert svo sem pólitískt stjórnkerfi þjóðarinnar er, verður ekki viðurkenndur. Eins og gefur að skilja, stangast þetta á við Bresnevkenninguna svonefndu, sem notuð hefur verið til að réttlæta innrásina í Tékkóslóvakíu.“

Þær reglur, sem hæstv. ráðh. talar hér um, eru í beinni andstöðu við þá valstefnu, sem hann segist þó aðhyllast í öðrum hlutum skýrslu sinnar. Ég er sammála því, að þessar reglur voru þverbrotnar með innrásinni í Tékkóslóvakíu á sama hátt og þær hafa verið þverbrotnar í Grikklandi. En þetta eru ekki aðeins reglur, sem eiga að gilda um Evrópuþjóðir, eins og hæstv. ráðh. segir. Þetta eru reglur, sem eiga að gilda um allan heim. Og þessar reglur hafa hvergi verið þverbrotnar á jafngrimmilegan hátt og með jafnógnarlegum afleiðingum og í Indókína. Um það atriði fjallar 3. till. okkar hv. þm. Sigurvins Einarssonar. Till. okkar um það atriði er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi, að Bandaríkin hætti styrjaldaraðgerðum sínum í Indókína og kalli heri sína heim, svo að landsmenn fái sjálfir aðstöðu til þess að leysa vandamál sín.“

Í skýrslu hæstv. ráðh. er minnzt á styrjöldina í Indókína í mjög stuttu máli. Um það atriði segir hæstv. ráðh. á bls. 19, þar sem hann er að lýsa alvarlegum horfum á ýmsum sviðum heimsmála og segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Er þar fyrst til að taka og það alvarlegasta, að styrjöldin í Víetnam heldur áfram og færist jafnvel út til nágrannalandanna, en ekkert miðar í samkomulagsátt í viðræðum styrjaldaraðilanna í París. Þetta er nokkurn veginn sama ástand og fyrir ári. Þó hafa Bandaríkjamenn dregið lið sitt til baka frá Víetnam og hafið heimflutning þess, en þar eru fréttirnar ískyggilegar, sem borizt hafa upp á síðkastið frá Suðaustur-Asíu.“

Þetta er allt og sumt. Þarna er ekki að finna neitt mat, þarna er ekki að finna neina afstöðu. Og þessi hlutlausu orð hæstv. ráðh. brjóta gersamlega í bága við sívaxandi fordæmingu innan Bandaríkjanna og utan og einnig við afstöðu mikils meiri hluta íslenzku þjóðarinnar. Ástæða er til þess að minna á það, að þessi afstaða hæstv. ráðh. gengur einnig í berhögg við þá stefnu, sem svokallaðir flokksbræður hans annars staðar á Norðurlöndum aðhyllast. Ég þarf ekki að minna á afstöðu Svía. En nú nýlega gerðist það, að stofnuð var ný stjórn í Noregi, stjórn Verkamannaflokksins. Eftir fyrsta fund þeirrar stjórnar taldi hún það tímabært að tilkynna, að hún mundi gera það eitt af fyrstu verkum sínum að viðurkenna ríkisstj. í Norður-Víetnam. Þessi viðurkenning er að sjálfsögðu ekki sprottin af einhverjum efnahagslegum áhuga eða verzlunaráhuga. Þarna er um að ræða pólitíska athöfn. Verkmannaflokkurinn norski taldi tímabært, að hann léti það í ljós á eins skýran hátt og hann gæti, að hann er andvígur styrjaldarrekstri Bandaríkjanna í Víetnam. Og fyrir danska þinginu hefur legið hliðstæð till. að undanförnu, flutt að frumkvæði sósíaldemókrata, rökstudd á þingi af Hækkerup, sem naumast verður talinn úr vinstri armi þess flokks. Í hinum hlutlausu orðum hæstv. ráðh. birtist sú afstaða að lita á styrjöldina í Indókína sem óumbreytanlegt ástand, sem eðlilegt ástand, sem menn verði samdauna og hætti að taka eftir. Ég vildi því leyfa mér að nota þetta tækifæri hér til þess að rifja upp í stuttu máli nokkrar staðreyndir um þessa styrjöld, hvernig á henni stendur og af hverju hún hefur einkennzt.

Átökin í Víetnam eru upphaflega tilkomin vegna þess, að nýlenduþjóðirnar notuðu tækifærið í síðustu heimsstyrjöld til að tryggja sér frelsi, og þetta er veigamesta afleiðing heimsstyrjaldarinnar síðustu. Nýlenduveldi, sem áður teygðu áhrif sín um jarðarkringluna og voru svo víðlend, að sólin settist aldrei til viðar innan þeirra, hafa molnað í sundur. Þjóðir, sem hafa innan endimarka sinna meiri hluta mannkynsins, hafa náð stjórnarfarslegu sjálfstæði á tiltölulega stuttum tíma. En það ríki, sem átti upptökin að þessum umskiptum var Víetnam. Það lýsti yfir sjálfstæði þegar 2. sept. 1945, fyrst allra fyrri nýlendna. Víetnam hafði þá verið frönsk nýlenda síðan á síðari hluta 19. aldar eða í rúm 80 ár. Hins vegar höfðu Víetnamar aldrei unað þessu hlutskipti, og snemma á styrjaldarárunum stofnuðu þeir þjóðfrelsissamtök, sem fljótlega náðu miklum árangri. Og haustið 1945 tók Þjóðfrelsisfylkingin öll völd í landinu.

Víetnamar treystu því, að sigur Bandamanna, sem heitið höfðu öllum þjóðum frelsi og sjálfstæði í heimsstyrjöldinni, mundi tryggja þeim til frambúðar þann árangur, sem þeir unnu fyrir sjálfir. Sjálfstæðisyfirlýsingu sína sendu þeir Sameinuðu þjóðunum og stjórnum stórveldanna: Bandaríkjanna, Sovétríkjanna, Bretlands, Kína og Frakklands, jafnframt því sem farið var fram á viðurkenningu á fullveldi landsins. En Víetnamar fengu fljótlega að sanna það, að fyrirheitin um fullveldi allra þjóða áttu ekki sjálfkrafa við um fyrri nýlendur. Ekkert svar barst við bréfum og orðsendingum hinnar nýju stjórnar í Hanoi. Ekkert ríki fékkst til að viðurkenna það, að Víetnamar ættu rétt á að stjórna landi sínu sjálfir. Leiðtogar stórveldanna, sem unnið höfðu sigur í heimsstyrjöldinni, voru önnum kafnir við að koma á fastri skipan á hnettinum, og aðferð þeirra var sú gamalkunna að skipta heiminum í áhrifasvæði.

Frakkar voru í hópi sigurvegaranna í heimsstyrjöldinni, og því var talið sjálfsagt, að þeir héldu fyrri landssvæðum sínum, þ. á m. Víetnam. Hins vegar skorti Frakka herafla til þess að taka landið af heimamönnum og því ákváðu Truman, Stalin og Attlee í Potsdam 1945, að kínverskir og brezkir herir skyldu taka Víetnam og afhenda Frökkum síðan landið. Víetnamar brugðust þannig við þessum atburðum, að þeir reyndu að ná samningum við Frakka um heimastjórn, en Frakkar höfðu ekki einu sinni áhuga á því að standa að slíkum samningum af heilindum. Því sá Þjóðfrelsisfylkingin þann kost vænstan að halda baráttu sinni áfram þegar árið 1946. Og þar með hófst sú styrjöld, sem Frakkar nefndu síðar La Guerre salle, stríðið sauruga. Sú styrjöld stóð í 8 ár, allt til miðs árs 1954, en þá höfðu Víetnamar unnið eftirminnilegan sigur á frönskum hersveitum við fjallavirkið Dien Bien Phu og höfðu mikinn meiri hluta landsins á valdi sínu. Þó töldu hersveitir Frakka og erlendra málaliða þeirra 225 þús. manna. Mannfall hafði orðið mikið þau 8 ár, sem styrjöldin hafði geisað. Frakkar sögðust hafa misst nærri 100 þús. fallna og yfir 100 þús. særða. Talið er, að Þjóðfrelsisfylkingin hafi misst 200–300 þús. manna, en ótalin hundruð þúsunda af óbreyttum borgurum höfðu misst lífið í hernaðarátökum eða af hungri.

Um lok þessarar saurugu styrjaldar var samið á ráðstefnu í Genf 1954. Ákveðið var, að vopnahléi skyldi komið þannig á, að landinu skyldi skipt til bráðabirgða um 17. breiddarbaug. Herir Þjóðfrelsisfylkingarinnar skyldu kallaðir til norðurhlutans, en herir Frakka til suðurhlutans. Sérstök áherzla var lögð á það, að hér væri ekki um skiptingu landsins að ræða, heldur einvörðungu bráðabirgðaráðstöfun til þess að auðvelda vopnahléið. Um það voru sérstök ákvæði, að landið skyldi sameinað að loknum almennum kosningum, sem áttu að fara fram í síðasta lagi í júli 1956. Ástæða er til að leggja sérstaka áherzlu á þessar staðreyndir. Í Víetnam var ekki verið að skipta landi milli tveggja stríðandi aðila, þannig að hvor héldi yfirráðasvæði sínu, eins og oft tíðkast, þegar vopnahlé er samið. Þjóðfrelsisfylkingin hafði ekki síður verið áhrifarík í suðurhlutanum en í norðurhlutanum og Frakkar ekki síður athafnasamir í nyrðra en syðra hlutanum. Skiptingin var aðeins aðferð til þess að stöðva vopnaviðskipti með því að flytja þjóðfrelsisherina norður fyrir markallnuna og frönsku herina suður fyrir hana. Þegar forustumenn Þjóðfrelsisfylkingarinnar og herir þeirra héldu inn í Hanoi í október 1954, voru aðeins sumir þeirra að snúa heim. Um 140 þús. af hermönnum Þjóðfrelsisfylkingarinnar voru að yfirgefa heimili sín í suðurhlutanum. Þessar staðreyndir verða menn sérstaklega að muna, því í almennum áróðri nú um þessar mundir er oft talað um Norður-Víetnam og Suður-Víetnam sem tvö óskyld ríki, jafnvel óskyldar þjóðir. Staðreyndin er hin, að í Genfarsamningunum var ákveðið, að ríkið skyldi verða eitt, enda eru Víetnamar ein þjóð með sameiginlega tungu og menningu.

Stórveldin stóðu að samningum þeim, sem gerðir voru í Genf. En það vakti þegar athygli og ugg, að Bandaríkjastjórn neitaði að lýsa yfir aðild að þessum samningum. Og þetta var þeim mun alvarlegra sem Bandaríkin höfðu árin á undan verið vaxandi aðili að styrjaldaraðgerðum Frakka með því að láta Frökkum í té fjármagn og vopn. Á árunum Í950-1954 lögðu Bandaríkin fram 2.6 milljarða dollara til þess að standa undir kostnaðinum af styrjöld Frakka í Víetnam, en það voru 80% kostnaðarins. Aðstoðin nam 800 millj. dollara á árunum 1950 til 1952, en 1800 millj. á árunum 1953 og 1954. Hér var bæði um að ræða fé og hergögn, þ. á m. benzínhlaup, sem Frakkar höfðu beitt af miklu miskunnarleysi. Ástæðan til þess, að Bandaríkjastjórn neitaði að viðurkenna samningana í Genf var sú, að hún vissi fullvel, hvað gerast mundi í almennum kosningum í Víetnam. Eisenhower Bandaríkjaforseti komst nokkrum árum síðar svo að orði í endurminningum sínum,

Mandate for Change, að hann hefði verið „þess fullviss, að Frakkar gætu ekki unnið sigur í styrjöldinni, vegna þess að stjórnmálaástandið innanlands í Víetnam var þróttlitið og ruglingslegt og lamaði hernaðarstöðu þeirra. Allir þeir kunnáttumenn um málefni Indókína, sem ég ræddi við eða skrifaðist á við, voru sammála um það, að hefðu kosningar verið haldnar meðan barizt var, hefðu trúlega 80% íbúanna frekar greitt atkvæði með kommúnistanum Ho Chi Minh sem leiðtoga sínum heldur en þjóðhöfðingjanum Bao Dai.“

Það var þannig ekkert vafamál, hvað Víetnamar vildu sjálfir. Þeir höfðu öðru sinni unnið fyrir ættjörð sinni með blóði, svita og tárum. Þegar þeir lýstu yfir sjálfstæði 1945, urðu þeir forustumenn í alþjóðlegri frelsisbaráttu, sem aðrar nýlendur háðu næstu árin á eftir. Þeir guldu þess þá, að stórveldin voru ekki búin að átta sig á því, að nýlenduskipulagið var komið að falli.

Árið 1954 höfðu hundruð milljóna manna í fyrri nýlendum endurheimt frelsi sitt. Nú hefðu sigurlaun Vietnama loksins átt að liggja á lausu. En svo reyndist ekki vera. Þegar Frakkar gáfust upp á „saurugri styrjöld“ sinni, tóku Bandaríkin við hlutverki þeirra undir forustu þess sama Eisenhowers, sem taldi, að Ho Chi Minh hefði haft 4/5 hluta þjóðarinnar á bak við sig í frelsisstríðinu við Frakka. Sjálfsákvörðunarréttur þjóðanna, fagrar kenningar um lýðræði og frelsi og mannréttindi, þetta varð allt saman að víkja fyrir sjónarmiðum, sem mikilvægari voru í augum bandarískra valdamanna. Hinn sami Eisenhower lýsti þeim sjónarmiðum sjálfur á þessa leið í ræðu, sem hann flutti 4. ágúst 1953, um fjárhagsstuðninginn við frönsku nýlenduherina, með leyfi hæstv. forseta:

„Setjum nú svo, að við missum Indókina... Við mundum hætta að fá þaðan tin það og volfram, sem við þurfum svo mjög á að halda... Því er það, að þegar Bandaríkin ákveða að leggja fram 400 millj. dollara til þess að aðstoða við þessa styrjöld, þá erum við ekki að ákveða að gefa neinar gjafir. Við erum að taka ákvörðun um ódýrustu aðferðina, sem við getum fundið til þess að koma í veg fyrir, að atburðir gerist, sem mundu hafa ógnarlegar afleiðingar fyrir Bandaríkin, öryggi okkar, völd okkar og getu okkar til þess að komast yfir nauðsynjar, sem við þurfum á að halda úr auðæfum Indókína og Suðaustur-Asíu.“

„Við erum að taka ákvörðun um ódýrustu aðferðina,“ sagði Eisenhower, þegar hann var að búa sig undir að taka við af Frökkum í Víetnam. En sú ákvörðun átti eftir að verða dýr.

Ég ætla ekki að rifja hér upp gang mála þar fyrst á eftir. Bandaríkin reyndu að efla sérstaka innlenda afturhaldsstjórn í Suður-Víetnam og ætluðust til þess, að hún mundi, með því að fá nægilegt fjármagn, geta haldið þeim völdum, sem Bandaríkin sóttust eftir í landinu. En þetta mistókst gersamlega. Það mistókst svo mjög, að árið 1965 þá var að því komið, að Þjóðfrelsisfylkingin væri að vinna sigur í öllu Víetnam. Hún hafði þá á valdi sínu 4/5 hluta af suðurhluta landsins, og það var talið aðeins spurning um nokkra mánuði, hvenær endalokin yrðu á þessum innri átökum. En þá tóku Bandaríkin nýja ákvörðun, ákvörðun, sem hlýtur að hafa orðið þeim ákaflega erfið. Upphaflega ætluðu Bandaríkin að styrkja svokölluð þjóðleg öfl í Víetnam og eftirláta þeim að heyja styrjöldina. Bandaríkjamenn höfðu haldið því fram, að Frakkar hefðu beðið ósigur vegna þess, að litið hefði verið á þá sem nýlenduveldi, og Bandaríkin ætluðu að forðast að lenda í þessari sömu aðstöðu. En 1965 sáu Bandaríkin ekki annað úrræði en að flytja innrásarheri til Víetnams. Þau höfðu haft svokallaða ráðgjafa þar áður. Þeir voru um 30 þús. árið 1965. En í september það ár gekk 80 þús. manna her á land, betur búinn vopnum en nokkur her, sem áður hafði verið beitt í styrjöld. Og nú átti á svipstundu að ganga á milli bols og höfuðs á skæruliðum. Þegar þær vonir brugðust, þá héldu Bandaríkin áfram að feta þá braut, sem Frakkar höfðu áður gengið. Árið 1966 voru bandarísku innrásarherirnir auknir í 320 þús. manns. Aðeins í Suður-Víetnam hafði bandaríska stórveldið nú mun meira lið en Frakkar höfðu haft mest í landinu öllu. Samt mistókust enn öll áform um endanlegan sigur, og Bandaríkjamenn héldu áfram að auka herstyrk sinn upp í 550 þús. manna. Auk þess voru herir frá nokkrum fylgiríkjum Bandaríkjanna í Asíu, er töldu um 60 þús. manns. Í her stjórnarinnar í Saigon voru taldir vera 600 þús. manns, svo að alls höfðu Bandaríkin á að skipa 1.2 millj. hermanna. Samt hefur verið svo ástatt undanfarin ár, að Bandaríkjamenn og samherjar þeirra hafa aðeins haldið helztu borgum og samgönguleiðum í Suður-Víetnam. Yfirráðasvæði þeirra er svipað og það var, áður en Bandaríkin sendu innrásarheri sína.

Þetta stutta yfirlit um gang styrjaldarinnar í Suður-Víetnam gefur að sjálfsögðu enga hugmynd um það, sem þar hefur verið að gerast í raun og veru, enda hrökkva orð skammt til þess. Í Víetnam hefur verið háð einhver miskunnarlausasta styrjöld, sem sögur fara af. Þar hefur verið beitt grimmd, sem á sér naumast hliðstæður. Bandaríkjamenn hafa hagnýtt vígvélar og vopn, sem aldrei fyrr hefur verið beitt í styrjöldum. Menn hugsa með skelfingu til árásarinnar á Hírósíma en kjarnorkusprengjan þar jafngilti 20 þús. lestum af TNT. Í baráttunni um bandarísku herstöðina Khe Sanh í Suður-Víetnam notuðu Bandaríkjamenn meira en 100 þús. tonn af sprengjum á svæði, sem var aðeins nokkrir ferkílómetrar að stærð — fimm sinnum meira magn en notað var á Hirósíma. Í Víetnam hafa Bandaríkjamenn beitt vopnum, sem eingöngu hafa þann tilgang að granda sem flestu fólki, nálasprengjum, kúlusprengjum, eiturefnum og gasi, að ógleymdu benzínhlaupinu, en af völdum þess hljótast sams konar brunasár og af kjarnorkusprengjum. Bandaríkin hafa einbeitt sér að því að eyðileggja lífsskilyrði fólks, og kunna þær baráttuaðferðir að hafa áhrif um ófyrirsjáanlega framtíð. Suður-Víetnam er hitabeltisland, grænt allt árið.

Nú má sjá þar stór svæði, sem eru rúin öllum gróðri. Þegar miklum frumskógum hefur verið eytt, breytist loftslag og lífsskilyrði, jafnvægi náttúrunnar raskast. En enginn veit, hvað af því kann að hljótast. Mannkynssagan kann að greina frá miklum umskiptum, sem hlotizt hafa af náttúruspjöllum, vegna þess að menn hafa misnotað lönd af vanþekkingu. Nú hefur í fyrsta skipti í mannkynssögunni verið unnið að því vitandi vits og af ráðnum hug að eyða landi. Enginn veit, hversu mörg mannslíf hafa farizt í þessum ógnum. Í skýrslum frá 1966 taldi bandarískur vísindamaður að 750 þús. börn — aðeins börn — hefðu látið lífið í Suður-Víetnam, en 250 þús. væru örkumla.

Einn þáttur þessarar styrjaldar er enn ónefndur. Bandaríkjamenn reyndu lengi vel að halda því fram, að þeir ættu ekki fyrst og fremst í höggi við þjóðfrelsishreyfingu, heldur innrás frá Norður-Víetnam. Samkvæmt þeirri kenningu voru hafnar loftárásir á Norður-Víetnam haustið 1964. Og frá því snemma árs 1965 héldu þær áfram í samfellu hátt á fjórða ár. Þegar undan eru skildar Hanoi, sem var sprengd upp að einum fimmta hluta, og Haiphong, sem var eytt til helminga, eru allar borgir landsins rústir einar. Þegar ég ferðaðist um sveitir Norður-Víetnams nokkrar vikur vorið 1968, stóð hvergi uppi neitt varanlegt hús. Borgir og samgöngumiðstöðvar, vegir, járnbrautir og brýr hvarvetna voru rústir einar. Enginn staður á hnettinum hefur orðið fyrir jafnstórfelldum loftárásum og Víetnam. Samkvæmt tilkynningum bandarísku herstjórnarinnar sjálfrar er sprengjumagn það, sem kastað hefur verið yfir Víetnam, yfir 4 millj. lesta. Það jafngildir 200 kg sprengju á hvert einasta mannsbarn í landinu. Til samanburðar má geta þess, að í allri Kóreustyrjöldinni notuðu Bandaríkin „aðeins“ 635 þús. lestir af sprengjum. Sprengjumagn það, sem Bandaríkin vörpuðu á alla Evrópu og Miðjarðarhafssvæðið í heimsstyrjöldinni síðari, var samtals Í millj. 555 þús. tonn, en það er ekki helmingur þess magns, sem Víetnam hefur orðið að þola. En einnig eftir að tekizt hafði að sprengja Norður-Víetnam aftur á steinaldarstig, eins og einn af herforingjum Bandaríkjanna komst að orði, hélzt ástandið í Suður-Víetnam óbreytt.

Sú staðreynd hefur lengi blasað við, að Bandaríkin geta ekki unnið hernaðarsigur í Víetnam. Styrjöldin er orðin að ógnarlegri martröð. Einkenni hennar er örvæntingin, eins og frásagnir um hryðjuverkin staðfesta berlega. Innan Bandaríkjanna sjálfra hefur styrjöldin haft sívaxandi áhrif. Herforingjar og jafnvel forsetar hafa hrakizt frá völdum hennar vegna. Þjóðin er sundruð í andstæðar fylkingar, sem takast á af æ meiri beiskju. Samt fást ráðamenn Bandaríkjanna ekki til að horfast í augu við þá einföldu staðreynd, að þessari styrjöld getur ekki lokið nema á einn veg: með því að viðurkennd sé sú óbrotna staðreynd, að Víetnamar eiga sjálfir og einir að fá að ráða landi sínu og örlögum. Ef sú staðreynd hefði verið viðurkennd, þegar Víetnamar voru sjálfir búnir að frelsa land sitt 1945, hefði verið komizt hjá miklum þjáningum.

Vera má, að leiðtogar stórvelda eigi erfiðara með það en aðrir menn að viðurkenna, að þeir hafi gert sig seka um glapræði og glæpi. En til þeirra á einnig að vera hægt að gera þá kröfu, að þeir geti lagt sögulegt mat á athafnir sínar. Franski stjórnmálaleiðtoginn Mendes-France mun lengi lifa í sögunni, vegna þess að hann gafst upp á hinu „sauruga stríði“ í Víetnam. De Gaulle mun einnig lifa í sögunni, vegna þess að hann hafði karlmennsku til að gefast upp í styrjöldinni í Alsír og eftirláta Alsírbúum að skipa málum sínum. Mannkynið bíður nú eftir því, að ráðamenn Bandaríkjanna öðlist hliðstæða stjórnvizku. Vissulega hafa menn verið að vona það síðustu árin aftur og aftur, að slík stjórnvizka væri byrjuð að sækja á ráðamenn Bandaríkjanna. Þær vonir glæddust, þegar hætt var við loftárásir á Norður-Víetnam og þegar samningaviðræður við fulltrúa Norður-Víetnama og Þjóðfrelsishreyfingarinnar voru teknar upp í París. Þær vonir glæddust einnig, þegar Nixon Bandaríkjaforseti tilkynnti fækkun í innrásarherjum Bandaríkjamanna og tók að framkvæma brottflutning. En því miður hafa þessar tilkynningar til þessa reynzt ómerkilegt og óheiðarlegt yfirskin. Fækkun í innrásarherjum Bandaríkjanna hefur verið látin haldast í hendur við hina svokölluðu víetnamiseringu, þ.e.a.s. víetnamskir þegnar tækju í vaxandi mæli að sér styrjaldarreksturinn að því er varðar athafnir fótgönguliðs. Þar er þó ekki um að ræða neinar raunverulegar hersveitir hinnar svokölluðu ríkisstjórnar í Saigon, heldur bandarískt málalið. Við skulum muna eftirtaldar staðreyndir: Hermennirnir eru ráðnir til starfa af Bandaríkjamönnum. Þeir eru þjálfaðir til starfa af Bandaríkjamönnum. Bandaríkin greiða hermönnunum klæði og vopn og mála, hermennirnir eru undir stjórn bandarískra herforingja. Hinar svokölluðu hersveitir Suður-Víetnams geta ekkert gert án heimildar bandarískra stjórnarvalda. Bandaríkjamenn sjá um stórskotaliðshernað til stuðnings málaliðinu. Bandaríkjamenn sjá um flugárásir, sprengju- og eiturefnaárásir til stuðnings málaliðinu. Þannig eru umskiptin fyrst og fremst í því fólgin, að málalið Suður-Víetnama á að annast morðverkin í návígi. Það á að framkvæma þá iðju, sem kunn er frá þorpinu My Lai. Bandarísku hermennirnir eiga hins vegar að vera í fjarska frá fórnardýrum sínum, senda tundurskeyti og stórskotalið langar leiðir eða varpa niður tortímingarvopnum úr flugvélum úr mikilli hæð. Það á að hlífa þeim við að sjá árangurinn, en það er fullgott handa málaliðinu.

Hins vegar fer því fjarri, að þessi umskipti hafi dregið úr styrjöldinni í Indókína. Bandaríkin hafa öllu heldur magnað hana stórlega, einmitt eftir þessi umskipti. Síðan hefur verið gerð innrás í Kambódíu, síðan hefur verið gerð innrás í Laos, síðan hafa loftárásir á Norður-Víetnam verið teknar upp í vaxandi mæli. Bandarísk stjórnarvöld virðast enn sem fyrr halda fast við þann ásetning sinn að reyna að vinna hernaðarsigur í Víetnam. Hins vegar er það nú að verða ljóst, að einnig þessi nýjasti þáttur, þessi svokallaða víetnamísering er að mistakast jafnhrapallega og allar aðrar hernaðaráætlanir Bandaríkjastjórnar í Indókína. Í Kambódíu hefur Þjóðfrelsisfylkingin mikinn meiri hluta landsins á valdi sínu. Í Laos hafa innrásarherirnir farið hinar herfilegustu hrakfarir og leifum þeirra hefur verið bjargað á flótta með bandarískum þyrlum nú síðustu dagana. Samt voru herir þessir mjög fjölmennir og ákaflega vel búnir. En málaliðar eru aldrei traustar hersveitir, allra sízt í Indókína, þar sem mikill meiri hluti þjóðarinnar er enn sem fyrr andvígur innrásarherjunum, einnig það fólk á yfirráðasvæðum Bandaríkjanna, sem neytt er til þess að sýna hlýðni og hollustu á yfirborðinu.

Þannig heldur martröðin áfram, þessi endalausu múgmorð, sem brjóta í bága við siðgæðisvitund hvers heiðarlegs manns. Og með þessar staðreyndir að baksviði, þá hlýtur manni að renna kalt vatn milli skinns og hörunds við að lesa þessi köldu, þurru ummæli hæstv. utanrrh. Íslands. Það er alkunna, að styrjöldin í Víetnam hefur orðið mjög nærgöngul við samvizku mannkynsins. Þetta stríð er hluti af lífi okkar allra, og það er skylda allra manna að reyna að beita áhrifum sínum til þess að binda endi á þessi herfilegu verk. En við Íslendingar berum ekki aðeins þessa almennu, mannlegu ábyrgð. Við berum sérstaka siðferðilega ábyrgð vegna þess, að við erum í bandalagi við árásarstórveldið, vegna þess að við leyfum því afnot af landi okkar. Þetta var gert á sínum tíma með siðgæðisrökum. Og ég held, að það væri tímabært, að hæstv. utanrrh. gerði lágmarkssiðgæðiskröfur til Bandaríkjanna fyrir hönd íslenzku þjóðarinnar. Ég er sannfærður um það, að mikill meiri hluti Íslendinga mundi fagna mjög slíkum umskiptum, þó að ég geri mér að vísu ekki miklar vonir um það, á meðan þessi hæstv. ráðherra situr í stól sínum.