30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

Skýrsla um utanríkismál

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég var nú eiginlega ekki alveg við því búinn að tala strax. Ég sá áðan á listanum hjá hæstv. forseta, að næstur á mælendaskrá var formaður Framsfl., en hann virðist vera fjarstaddur, og þá er röðin komin að öðrum Alþb.-manni. Ég ætla ekki að bæta neinu að ráði við það, sem hér hefur verið sagt um þá skýrslu, sem hér liggur fyrir. Þetta er mikil skýrsla, 38 bls. Hv. 6. þm. Reykv. vék að því hér áðan, hve fáum orðum væri eytt að einu allra alvarlegasta vandamáli mannkynsins í dag, styrjöldinni í Indókína. Áður en ég byrja að ræða þetta mál að öðru leyti, ætla ég að bæta við þeim tölulega fróðleik, að þessi skýrsla mun vera samtals 1408 línur, og af þessum 1408 línum fjalla nákvæmlega 8 línur um stríðið í Indókína.

Eins og ég segi, er það ekki ætlun mín að fara að ræða þessa skýrslu að ráði nánar en hér hefur verið gert. Ég vildi þó aðeins bæta við nokkrum orðum varðandi einmitt þetta ægilega vandamál, stríðið í Indókina. Við höfum margítrekað afstöðu okkar, Alþb.- menn, til þessa stríðs hér á hinu háa Alþingi. Það var enn einu sinni gert í ræðu hv. 6. þm. Reykv. hér áðan. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þessa afstöðu, heldur kannske öllu frekar um afstöðu ýmissa aðila til baráttu okkar Alþb.-manna fyrir því, að Íslendingar leggi opinberlega lið þeim málstað, sem létt gæti hörmungunum af þessu fólki, sem byggir þann skika veraldarinnar, sem nefnist Indókína. Það er ánægjulegt í þessu sambandi, að þótt fáir séu hér í salnum, þá er þó staddur hér annar aðalritstjóri Morgunblaðsins.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins núna nýlega er rætt um ritskoðun í Sovétríkjunum og ofsóknir á hendur rithöfundum þar. Þessa ósvinnu höfum við Alþb.-menn margsinnis fordæmt bæði í ræðu og riti og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst í málgagni okkar, Þjóðviljanum. Þó segir höfundur Reykjavíkurbréfsins um þessa ritskoðun og þessar ofsóknir þetta orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Heima fyrir krefjast kommúnistar þess, að rithöfundar reisi þessari stirðnuðu fyrirmynd Þjóðviljaritstjóranna Pótemkintjöld, og sá, sem hlýðir ekki, er kallaður svín eins og Pasternak.“

Þegar Morgunblaðið talar um kommúnista, þá á það að sjálfsögðu við okkur Alþb.-menn. Og í beinu framhaldi af þessari athugasemd kemur svo þessi klausa, með leyfi hæstv. forseta:

„Í lýðræðislöndunum tróna svokallaðir menningarpostular kommúnista sem fyrirsvarsmenn lýðræðis og frjálslyndis, þó að þeir ættu eðli málsins vegna sízt af öllu að vera málsvarar annars en skoðanakúgunar, þ.e. þess ástands, sem þeir sjálfir eiga að hugsjón og sækja fyrirmyndir sínar í. Svo hafa þeir eignazt góðan bandamann, stríðið í Víetnam, sem veldur öllu lýðræðissinnuðu fólki sársauka. En kommúnistar mega ekki til þess hugsa, að það verði til lykta leitt. Ó, þetta indæla stríð! hafa þeir kyrjað lengi með krókódílstár í augum, en innrásin í Tékkóslóvakíu mátti ekki af augljósum ástæðum dragast lengi.“

Svo mörg eru þau orð. Reykjavíkurbréfið er ásamt ritstjórnargreinum Morgunblaðsins mikilvægasti túlkunarvettvangur fyrir skoðanir og viðhorf Sjálfstæðisflokksins, enda skiptast þeir á um að skrifa það, aðalritstjórarnir. Annar þeirra á, eins og ég sagði áðan, sæti hér á hinu háa Alþ., svo að ekki er hægt að segja, að þær athugasemdir, sem ég geri hér við Morgunblaðið, séu fyrir þá sök óviðurkvæmilegar, að blaðið eigi sér ekki fullgildan málsvara hér á hinu háa Alþ. Hinn aðalritstjórinn hefur getið sér gott orð sem skáld og þá fyrst og fremst sem sálmaskáld. Það stendur ekki skrifað, hvor þeirra hefur skrifað þetta tiltekna Reykjavíkurbréf, en hvað snertir blaðamennskusiðferði þá gætu þeir eins vel báðir verið höfundar að því. En stílbrögð ýmisleg og orðaval gætu hins vegar bent til þess, að höfundur þess að þessu sinni hafi ekki verið alþingismaðurinn, heldur sálmaskáldið.

Þeir, sem að staðaldri lesa Þjóðviljann og fylgjast yfirleitt með málflutningi okkar Alþb.-manna, þar með að sjálfsögðu taldir ritstjórar Morgunblaðsins, vita fullvel, að við höfum hvað eftir annað, að við höfum aftur og aftur fordæmt opinberlega innrás Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra í Tékkóslóvakíu. Strax sama daginn og innrásin var gerð í ágúst 1968 var útifundur til stuðnings málstað Tékkóslóvaka við tékkneska sendiráðið hér í Reykjavík, og það voru Alþb.-menn, sem þar fluttu ræðurnar. Mér veittist sá heiður að vera í hópi þeirra. Og alla tíð síðan hefur málstaður Tékkóslóvaka átt vísan stuðning í Þjóðviljanum, og innrás hins austræna risaveldis verið fordæmd að sama skapi. En jafnlengi hefur líka verið klifað á því í Morgunblaðinu, — og nýjasta dæmið var þessi klausa, sem ég var að lesa áðan, — jafnlengi hefur verið klifað á því, að við Alþb.-menn hefðum ekki einasta látið vera að fordæma innrásina, heldur beinlínis fagnað henni. Og við þessa iðju hefur Morgunblaðið beitt ýmsum ráðum, m.a. útúrsnúningum, sem eru óravegu utan við allt velsæmi, eins og t.a.m. sú fullyrðing Morgunblaðsins, að sá ritstjóri Þjóðviljans, sem á sæti hér á hinu háa Alþ. og var að tala núna rétt áðan, 6. þm. Reykv., hafi fagnað því, að ekkert Morgunblað væri til í Tékkóslóvakíu og með því beinlínis heimtað ritskoðun, ekki aðeins í Tékkóslóvakíu, heldur einnig á Íslandi, þegar hann dáðist að þeim manndómi, sem tékknesk blöð sýndu eftir innrásina með því að láta engan bilbug á sér finna gagnvart hinu austræna stórveldi, um leið og hann leyfði sér að vekja athygli á hinni algeru andstæðu slíks manndóms, sem birtist í undirlægjuhætti Morgunblaðsins gagnvart því vestræna stórveldi, sem hér hefur herstöðvar og gengið hefur jafnvel enn lengra hinum austræna kollega sínum í ofríki og grimmd gagnvart smáþjóðum. Það má vera, að einhver segi, að ekki samrýmist þingvenjum að gera svona að umtalsefni það, sem gerist utan þingsalanna, þ.e.a.s. skrif tiltekins blaðs, en ég ætla af fyrrgreindum ástæðum ekki að biðjast afsökunar á því. Málgagn Sjálfstfl. er voldugur aðili í þessu þjóðfélagi og ábyrgð þess er mikil. Morgunblaðið hefur sennilega hlutfallslega meiri útbreiðslu og þar með meira áhrifavald til skoðanamyndunar með þeirri þjóð, sem það er ætlað, heldur en nokkurt annað blað í öllum heiminum. Og þegar Morgunblaðið misbeitir áhrifavaldi sínu með því að níða andstæðinga sína og rangtúlka skoðanir þeirra, snúa öllu við, eins og það gerir oft, og eins og er reyndar oftast nær þess höfuðiðja, þá er það að níðast á íslenzku lýðræði, og íslenzkt lýðræði er svo sannarlega mál, sem hlýtur að varða Alþingi Íslendinga. Nei, ég ætla ekki að biðjast afsökunar á þessu, og allra sízt þar sem svo stendur á, hamingjunni sé lof, að annar af aðalritstjórum blaðsins er staddur hér í salnum. Morgunblaðinu hefur tekizt í krafti útbreiðslu sinnar — með útúrsnúningum, beinum álygum og ýmsum öðrum slíkum vinnubrögðum hefur því tekizt að telja stórum hluta þjóðarinnar trú um það, þrátt fyrir allar staðreyndir, sem sanna hið gagnstæða, að við Alþb.-menn höfum komið fram sem óvinir Tékkóslóvaka, en undirlægjur Sovétríkjanna í sambandi við innrásina í Tékkóslóvakíu í ágúst 1968.

Og nú virðist eiga að hefja svipaða herferð gagnvart okkur í sambandi við stríðið í Indókína, sbr. aths. úr Reykjavíkurbréfi, þar sem hugarfari okkar gagnvart hörmungunum þar austur frá er lýst með þessum orðum: „Ó, þetta indæla stríð! hafa þeir kyrjað lengi með krókódílstár í augum“. Ég leyfi mér að segja, að með þessari aths. hefur Morgunblaðið jafnvel yfirgengið sjálft sig í svívirðilegum málflutningi. Um hitt efast ég heldur ekki, að þessi fullyrðing hefur sín áhrif. Hin mikla útbreiðsla Morgunblaðsins sér til þess, og ekki ætti það að draga úr áhrifum þessarar fullyrðingar á frómar sálir, að sá, sem segir þessar fullyrðingar fram, er að öllum líkindum hvorki meira né minna en sálmaskáld. Ég læt svo útrætt um Morgunblaðið, en ég ítreka það, að ég tel, að íslenzku lýðræði frjálsri skoðanamyndun — stafi það mikil hætta af málflutningi þessa blaðs, að það sé full ástæða til að gera það að umtalsefni hér.

Ég vil að lokum ítreka það, sem ég hef sagt hér margsinnis og enn einu sinni gefst hér tilefni til, að sinnuleysið, sem hv. alþm. hafa sýnt varðandi ýmis vandamál heimsins, þá ekki hvað sízt eitt hið allra mesta, þ.e.a.s. stríðið í Indókína, það sinnuleysi, sem m.a. kemur fram í því, hve fámennt hefur verið hér á þessum fundi, það er til harla lítils sóma fyrir þessa virðulegu stofnun. Af hálfu annarra flokka heldur en Alþb. virðist ráða sú regla að leiða alveg hjá sér allar umræður um þetta stríð. Undantekning frá þessari reglu er meðflutningsmaður hv. 6. þm. Reykv. að þeim till., sem hann gerði hér að umtalsefni áðan, hv. þm. Sigurvin Einarsson, undantekning, sem kannske mætti segja að staðfesti regluna. Framsóknarmenn, einkum hinir yngri, sem undir ýmsum kringumstæðum hafa samþ. ályktanir, sem ganga í sömu átt og þessar till., hafa aðeins átt einn einarðan talsmann hér á Alþ., þ.e. þennan hv. þm., aldursforseta þingsins. Hann hefur lengstum einn orðið til að túlka sjónarmið margra óbreyttra framsóknarmanna, og þá ekki hvað sízt hinna yngri, — einnig varðandi önnur mál en stríðið í Indókína, mál, sem þó snerta það með ýmsum hætti, eins og t.d. kröfuna um brottför erlends hers, bandaríska hersins, af íslenzkri grund og margt fleira. Og fyrir þetta ber að þakka honum. Og hann má vita það, að hans verður saknað, þegar hann hverfur af þingi í vor, a.m.k. af þeim mönnum, sem þá eiga hér enn sæti sem þm. Alþb. Um Alþfl.-menn, unga menn, sem hafa tekið undir kröfur okkar Alþb.-manna í þessum málum, er það að segja, að þeir virðast bókstaflega ekki einn einasta talsmann eiga hér á hinu háa Alþingi. Allt er þetta, eins og ég segi, heldur ömurlegt til afspurnar fyrir þessa virðulegu stofnun. Og ég vil að lokum vekja athygli á því, að nú í vetur hafa umræður um stríðið í Indókína orðið miklu minni hér á hinu háa Alþingi heldur en umræður um það stríð, sem staðið hefur út af einni skjóttri hryssu norður í Húnavatnssýslu.