26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs hér utan dagskrár af gildri ástæðu. Það er út af máli, sem þolir að mínum dómi enga bið, máli, sem stjórnarvöld verða að láta til sín taka án nokkurrar tafar. Ég hefði að vísu kosið að geta beint máli mínu til hæstv. sjútvrh., en ég fékk því miður þær fréttir í stjórnarráðinu í morgun, að hann lægi rúmfastur, og það er ekki að vita, hvað hann kann að liggja lengi, en ég vildi hins vegar ekki láta dragast að vekja opinberlega umr. um þetta mál. Að vísu er komin fram þáltill. á þskj. 45, sem beinist að lausn þessa máls. Flm. eru hv. 4. þm. Vesturl. og tveir aðrir hv. þm. Sjálfstfl. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á sjútvrh. að beita sér fyrir því, að settar verði nú þegar reglur um skelfiskveiðar á Breiðafirði. Jafnframt verði áherzla lögð á aukna leit að rækju, skelfiski og öðrum slíkum verðmætum á þessum slóðum með skynsamlega hagnýtingu fyrir augum.“

Í grg. með till. eru birtar till., önnur, sem samþ. var í maímánuði s.l. á aðalfundi sýslunefndar Snæfellinga um þetta efni, og svo önnur till., sem samþ. var á fundi í hreppsnefnd Stykkishólms þann 25. sept. s.l. Því miður horfir nú svo um þessi mál, að að því er varðar skelfiskveiðarnar í námunda við Stykkishólm þá er hætt við, að þessi till. reynist gagnslítil eða gagnslaus með öllu, eins og reynslan er af því, hversu seint gengur að fá afgreidd mál hér á hv. Alþ., að maður nú ekki tali um framkvæmd þeirra. Nú sem stendur stunda 13 bátar hörpudisksveiðar í námunda við Stykkishólm. Stykkishólmsbúar sjá þá daglega út um stofugluggana hjá sér. Bátarnir stunda að langmestu leyti veiðarnar á svæði sem telst hafnarsvæði Stykkishólms, þ.e.a.s. á ytri höfninni, þeir hafa nú ekki enn þá farið inn á innri höfnina. Þó sagði mér gegn maður í Stykkishólmi, sem ég ræddi við í morgun, að þá stundina sæi hann tvo þessara báta alveg í hafnarmynninu. Þetta var kl. hálf tíu. Hann treysti sér ekki til þess að fullyrða, hvort þeir mundu næst kippa inn eða út. Hver þessara báta skilar daglega á land um 4 tonnum, þ.e.a.s. þetta eru daglega um 50 tonn, sem þessir bátar skila samtals á land. Í Stykkishólmi er ekki verkað nema 10% af þessu, 90% er ekið hingað suður til verkunar. En sjómenn segja, að öðru eins magni af hörpudiskinum sé alltaf mokað í sjóinn aftur, vegna þess að skelin sé mölvuð. Þetta gerir sem sé 100 tonn á dag. Og þá er ótalið ómælanlegt magn, sem ekki fer í veiðarfærin, heldur lendir undir þeim og mölvast, liggur eftir mölvað á botninum. Og það eru alltaf að bætast bátar á þessar veiðar. Þessir 13, sem stunda þær í dag, eru frá 30 og, held ég, upp í 70 tonn þeir stærstu, en þessi maður, sem ég ræddi við í morgun, sagði, að frétzt hefði um bát núna, sem væri að búast á þessar veiðar hér að sunnan, sem væri hvorki meira né minna en 250 tonn. Það er því engin furða, þó að menn gerist ærið áhyggjufullir út af þessu og spyrji, hvort ekki sé hætt við, að till. á þskj. 45, sem á að vernda hörpudiskinn á miðunum þarna í námunda við Stykkishólm, að þegar hún gæti loks komizt til framkvæmda, yrði ekki lengur eftir neinn hörpudiskur að vernda.

Í fáum orðum sagt, það eru, að ég held, eindregin tilmæli fólks þar vestur í Stykkishólmi, að hæstv. sjútvrh., — ég vænti þess, að aðrir hæstv. ráðh. beini þessu til hans, — það eru áreiðanlega tilmæli þessa fólks, að hann noti heimild, sem hann hefur ótvirætt í lögum, til þess að stöðva þessar skelfiskveiðar, þar sem greinilega er um mjög hastarlega ofveiði að ræða, að maður nú ekki tali um þjösnaskapinn. Það hefur engin athugun farið fram á því, hvaða veiðarfæri væru heppilegust til þessara veiða. Bátarnir nota svokallaða plóga, þetta eru miklar skúffur og þungar og lemja auðvitað og berja allt á botninum. Það eru sem sé tilmæli þessa fólks, að ráðh. noti þessa heimild og stöðvi nú þegar þessar veiðar með öllu og láti fara fram könnun á hörpudisksmagninu og veiti síðan leyfi til veiðanna samkv. því, sem telja má, að miðin þoli, en ekkert umfram það.