09.11.1970
Efri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hér er sannarlega hreyft við alvarlegu máli, sem er raunar það víðtækt, að þetta er aðeins einn þáttur þess. En ég vil aðeins minna á annan þátt, vegna þess að hv. 3. þm. Vestf. kom inn á hann áðan. En við samþykktum hér í hv. Alþ. nokkra rýmkun á togveiðiheimildum í ákveðinn tíma, sem rennur nú út á næsta ári. Því miður hef ég öruggar sannanir fyrir því og vildi vekja athygli hæstv. dómsmrh. á þeirri staðreynd, að um vaxandi landhelgisbrot er að ræða. Það hafa skipstjórar tjáð mér. Þeir urðu varir við það, og nú hvet ég og skora á Landhelgisgæzluna og bið hæstv. ráðh. að koma því áleiðis, að það sé vel fylgzt með því, að í skjóli náttmyrkurs sé ekki farið inn fyrir settar línur, því að Alþ. varð sammála um það að hafa viss svæði fullfriðuð til öryggis fyrir smáfisk, og það er mjög alvarlegt brot, ef menn fara út í þann bás aftur að misnota það traust, sem þeim var sýnt, og fara að brjóta í vaxandi mæli og veiða þá í auknum mæli smáfisk. Það nær ekki nokkurri átt. Það er almennur rómur sjósóknarmanna, að víða við landið verði vart við vaxandi stofn af ýsu og þorski, og við megum ekki ráðast á þennan stofn of snemma. Það nær ekki nokkurri átt. Svo alvarleg afföll urðu hér á árunum, að við verðum að gefa þessum stofni grið til að vaxa upp í eðlilega stærð til skynsamlegrar nýtingar. Og það er ekkert síður alvarlegur þáttur, ef hann er á rökum reistur, að vaxandi landhelgisbrot eigi sér stað. Ég stóð hér upp til að vekja athygli á því. Ábyrgir skipstjórar hafa komið til mín og sagt, að þeir yrðu þess varir, að bátar sæktu æ meira inn fyrir landhelgismörkin. Sem betur fer eru það fáir skipstjórar, en ef ekki verður staðið vel á verðinum, þá getum við lent í sama bás og áður var, og það er ógæfa, ef slíkt hendir okkur aftur.