09.11.1970
Efri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Jón Árnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf hér um það, að rannsókn af hendi Hafrannsóknastofnunarinnar sé nú þegar hafin í þessu máli og muni hún leiða til þess þá að leiða sannleikann í ljós. Eins og hér hefur komið fram í þessum umr., eru ekki allir sammála um, í hversu stórum stíl þessi rányrkja eigi sér stað, en ég held samt, að það fari ekki hjá því, að svo almennt sem um þetta er rætt manna á milli á þessum stöðum, þar sem talið er, að þetta eigi sér stað, þá hafi menn eitthvað verulegt fyrir sér í þessum efnum.

Ég gat um það áðan, að það væri e.t.v. víða á Vestfjörðum, sem þetta þyrfti að athugast, og það var að gefnu tilefni. Og það er ekki óeðlilegt, ef þessi klakstofn er sterkur, sem hér er um að ræða, og mér skilst, að fiskifræðingarnir haldi, að það sé raunveruleiki, að þessi klakstofn sé sterkur, þá er einmitt ekki óeðlilegt, að hann leiti að vetrinum í var inn á hina ýmsu firði, sem eru í námunda við Ísafjarðardjúp. Og það var eitt, sem kom fram í þessum umr., sem gefur líka nokkuð til kynna, hvað a.m.k. sumir Ísfirðingar líta þetta alvarlegum augum. Guðmundur Guðmundsson, sem var flm. þessarar till. og leiddi málið inn á fundinn, skýrði frá því, að hann hefði átt samræður við menn, sem stunduðu þessar veiðar á Ísafirði, og þar hefði einn maður, sérstakur veiðimaður, haldið því fram, að hann teldi rétt, að það hefði átt að stöðva þessar veiðar a.m.k. um tveggja mánaða skeið á þeim forsendum, að hlutföllin í aflanum mundu geta batnað eftir það, og þegar slíkt álit kemur frá manni, sem hefur allt að 30 þús. kr. kaup á viku við þessar veiðar í dag, þá má það augljóst vera, að að hans áliti er hér mikill voði fyrir dyrum, ef ekkert er að gert. Og ég segi: það er vel, að rannsókn er hafin í þessum málum, og ef það kemur í ljós, sem haldið hefur verið fram, að hér sé um verulega rányrkju að ræða, þá vænti ég þess, að það verði gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að tekið verði fyrir, að slíkt geti haldið áfram.