09.11.1970
Efri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Aðeins í framhaldi þessara fáu orða minna, sem ég sagði hér áðan, þá vildi ég af sérstöku tilefni bæta því við, að um fjölgun bátanna og aukningu veiðimagnsins hefur það verið gert á undanförnum árum eins og skylda er samkv. lögum, að það hefur verið stuðzt við álit fiskifræðinga á aðstöðunni hverju sinni, en þessi rækjumál í heild má segja, að hafi verið eitt af erfiðari vandamálum sjútvrn. til úrlausnar, því að það verður að segjast hér, úr því að málið er komið inn á þessar brautir og opinbert á Alþ., að ósamkomulag er afar mikið milli hinna einstöku hagsmunahópa og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir rn. ár eftir ár til að ná um þetta samstöðu meðal heimamanna, hefur það ekki tekizt til neinnar verulegrar hlítar.

Raunar er rétt að bæta því þarna við, að þau veiðileyfi, sem nú eru í gildi, renna út þann 15. des. þannig að þá gefst a.m.k., ef ekki fyrr, tækifæri til þess að endurskoða aðstöðuna með hliðsjón af þeim rannsóknum, sem þarna hefðu þá farið fram.

Í öðru lagi gat hv. 3. þm. Vestf. þess, sem rétt er, að þrír hv. þm. Framsfl. hafi flutt till. til þál. í Sþ. um nauðsyn endurskipulagningar sjútvrn., eins og hann orðaði það hér, og mér skildist fyrst og fremst til eflingar þess. Það er vel, að slík till. er komin fram og í tilefni af henni er rétt að upplýsa það nú þegar, að eins og þm. er kunnugt var breytt allverulega verkaskiptingu milli ráðuneyta með lögum, sem tóku gildi um s.l. áramót og þá í fyrsta sinn varð sjútvrn. sjálfstætt rn., sem það hefur verið síðan. En um almenna endurskoðun á hlutverki þess er það að segja, að á s.l. vori var slík endurskoðun, sem till. þeirra framsóknarmanna gerir ráð fyrir, falin þremur mönnum, sem síðan hafa að því unnið og vonandi skila áliti, áður en langur tími líður. Þessir menn eru Jón Arnalds, ráðuneytisstjóri í sjútvrn., Már Elísson fiskimálastjóri og Eggert Jónsson, sem er fulltrúi fiskimálaráðs í þessari endurskoðun. Þetta taldi ég nauðsynlegt að upplýsa og sjálfsagt gefst mér tækifæri til þess að gera nánari grein fyrir þessu máli, þegar umrædd þáltill. verður tekin til umr.