14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs hér utan dagskrár vegna þess, að það mál, sem ég ætla að gera hér að umtalsefni, þolir ekki þann biðtíma, sem óvefengjanlega mundi verða, ef það væri flutt í formi þáltill. Það mál, sem ég ætla að nefna hér með örfáum orðum, er óvenjuvondar samgöngur við Vestfirði, einkum nú síðasta mánuð. Vöruflutningar á landi, og þá einnig til Vestfjarða, hafa aukizt mjög á síðustu árum, en vandræði af þessum sökum hafa ekki skapazt fyrr en nú síðasta mánuð, vegna þess að samgöngur á landi hafa haldizt fram eftir öllu hausti, vegna þess að það hefur verið óvenjusnjólétt haust, en eftir að vegir lokuðust má segja, að miklir erfiðleikar séu með allan flutning til Vestfjarða héðan frá Reykjavík, því að sjóflutningar hafa ekki aukizt að sama skapi, heldur jafnvel minnkað.

Skipaútgerð ríkisins, sem á að halda uppi flutningum á hafnir úti um land, hefur engan veginn haldið uppi þeirri þjónustu, sem til er ætlazt. Ég skal játa það, að Skipaútgerðin hefur ekki nema tvö skip til umráða, en mér finnst undarleg áætlun þessara skipa, að stærra skipið, sem flytur miklu meira af vörum, er sent allar ferðir austur um land og hringinn í kringum land á ca. 10–12 daga fresti héðan úr Reykjavík, og það siglir tómt svo að segja frá Akureyri og til Reykjavíkur, en hins vegar er litla skipið, Herðubreið, látið fara frá Reykjavík og norður og austur um land, og það á að fragta á Vestfirði, tekur engan veginn upp þær vörur, sem bjóðast, og þær ferðir eru einnig á 10–12 daga fresti. Mér finnst rétt, að það komi hér fram, að þegar þessi mál voru í athugun, var það samhljóða álit skipaútgerðarnefndar, að hringferðir ríkisskipanna væru óhagkvæmar og það bæri að hverfa frá þeim nema rétt yfir hásumarið, á meðan gömlu skipin voru, sem önnuðust farþegaflutninga. En við það að forstjóri Skipaútgerðarinnar hefur fengið stjórnarnefnd með sér, þá hafa þeir einnig tekið undir þessa hringavitleysu með hringferðirnar, eftir að þeir urðu þrír um þessa ákvörðun.

Eimskipafélag Íslands hefur að verulegu leyti hætt siglingum með vörur á ströndina, og það telst orðið til tíðinda, þegar Eimskipafélagið tekur vörur til hafna úti á landi. Hins vegar sækir Eimskipafélagið mikið af vörum til útflutningshafnanna, en þær ferðir koma ekki að gagni fyrir vöruflutninga frá Reykjavík. Minni hafnir eru alveg afskiptar frá Eimskipafélaginu með alla flutninga, eftir að það tók upp örfáar hafnir úti um land, og kostnaður þeirra hafna er orðinn stórkostlegur og óþolandi, en það er kapítuli út af fyrir sig, sem ég ætla ekki að koma inn á hér í þessum fáu orðum. Allir farþegaflutningar eiga sér stað í lofti til þessara staða, og það hefur verið sérstaklega vond tíð á þessu hausti, og því hefur oft komið fyrir, að íbúar þessara staða hafa ekki fengið póst og dagblöð í 3–4 daga í einu og komið hefur það fyrir, að dagblöð hafa ekki komið í 8 daga vegna þess, hve veðrátta hefur verið umhleypingasöm. Við það ræður enginn. En hitt er aftur öllu lakara, að þegar kemur gott veður og hægt er að fljúga eins og í gær, þá flýgur Flugfélagið, sem hafði ekki flutt vörur á aðra viku og farþega síðan á þriðjudag, þá flýgur það eina ferð til Ísafjarðar aðeins með farþega og ábyrgðarpóst. Allur annar póstur er eftir og engar vörur eru fluttar og var þó mjög ákjósanlegur dagur hvað veður snerti til að halda uppi flugsamgöngum til Ísafjarðar.

Það er beiðni mín, að hæstv. samgmrh. kynni sér nú þegar þessi samgönguvandræði við Vestfirði með það fyrir augum, að úr þessu verði bætt þegar í stað. Við það verður ekki unað, að vörur komist ekki á milli staða nema á 12–14 daga fresti og vika eða á aðra viku liði á milli þess, sem póstur er fluttur. Á öld hraðans og skipulagningarinnar verður að segja, að hér sé um bágbornar samgöngur að ræða, og þær eru jafnvel lakari í þessum mánuði en þær voru við þennan landshluta fyrir um það bil 40 árum.